Enn einu sinni er útlendingastofnun komin í fréttirnar vegna mála sem hún hefur á sinni könnu. Í þetta sinn er um að ræða tvítuga konu frá Filipseyjum sem slíta skal frá móður sinni, systur og fósturföður og senda til Filipseyja þó svo að sannað sé að hún eigi þar enga ættingja sem hún getur leitað til.
Útlendingastofnun hefur hafnað hvað eftir annað umsóknum um landvistaleyfi fyrir stúlkuna og kostnaður við umsóknarferlið frá 2007 – 2012 auk framfærslu og náms stúlkunnar í Filipseyjum, er að nálgast
4 milljónir. Kostnaður við að senda hana heim verður um hálf milljón til viðbótar.
Úthald fjölskyldunnar er búið og trúin á réttlæti er víðsfjarri. Hér má lesa sögu fjöskyldunar en hún þetta er tekið beint af Facebooksíðu hennar þar sem þetta mál er allt rakið.
Á næsta mánudag, 23. júlí 2012, mun Útlendingastofnun að öllu óbreyttu, framfylgja úrskurði sínum í máli Romylyn Patty Faigane, tuttugu og eins árs stúlku frá Filipseyjum.
Hún verður send úr landi á kostnað fjölskyldunnar, sem býr hér á landi þ.e. stjúpfaðir, móðir og yngri systir.Árið 2005 gekk móðir hennar, Marilyn, að eiga Ellert Högna Jónsson og flutti hingað til lands. Romylyn varð eftir hjá afa sínum á Filipseyjum. Rúmlega ári síðar sækja Ellert og Marilyn um dvalarleyfi fyrir Romylyn, sem þá var aðeins 14 ára. Með aðstoð lögfræðings, sem gerði lítið annað en að þiggja greiðslur, var umsókn hennar hafnað með þeim rökum að faðir hennar væri á lífi og gæti séð um hana. Faðir hennar hafði samt sem áður gefið yfirlýsingu um að hann óskaði dóttur sinni frekar að búa á Íslandi, enda hafði hann ekkert tekið þátt í uppeldi hennar.
Þegar faðir hennar er myrtur úti í Filipseyjum 2009, hefst annað umsóknarferli.
Þau hjónin fóru saman í það, án lögfræðings, enda brennd eftir samskiptin í fyrra ferlinu. Umfram stöðluð gögn í umsókninni, var þeim svo síðar gert að útvega staðfestingu á því að Romylyn væri ekki með barni, auk
dánarvottorð föður hennar. Ellert lét senda sér alla pappíra með dýrum hraðpósti og hafði komið sér upp góðum tengilið úti í Filipseyjum. Vegna þess hve vel Ellerti gekk að útvega gögn á stuttum tíma, efaðist útlendingastofnun um trúverðugleika þeirra. Honum var gert að skila opinberu dánarvottorði föður Romylyn. Það gerði Ellert með aðstoð Össurar Skarphéðinssonar og barst Útlendingastofnun borðastimplað dánarvottorð frá Konsúli Íslands í Filipseyjum. Þrátt fyrir það var umsókn hennar hafnað og skömmu síðar varð Romylyn 18 ára. Þá er málið komið á nýjan upphafsreit og henni boðið að sækja um sem nemandi eða sérfræðingur.Romylyn bjó áfram hjá afa sínum og var farin að annast hann eins og fagmanneskja.
Það kom svo að því, að gamli maðurinn fór nýlega á viðeigandi stofnun, og staða hennar því orðin vafasöm.
Hún á engan nákominn ættingja sem hún getur leitað til. Mjög litlar líkur eru á því að tvítug stúlka nái fótfestu í þessu samfélagi án stuðnings og baklands og framtíð hennar því í húfi. Hætturnar eru margar.Það var því ákveðið að hún kæmi til Íslands sem ferðamaður, eins fljótt og hægt var.
Hún kemur seint í desember síðastliðinn. Innanríkisráðuneytið var beðið um að kíkja á mál hennar og skoða í ljósi sögunnar. Ráðuneytið sendi Útlendingastofnun málið til þóknanlegrar meðferðar. Svar stofnunarinnar er, að hún skuli yfirgefa landið innan 15 daga, þrátt fyrir ítrekanir um stöðu hennar og mannréttindaþætti málsins.
Þá var lögð inn umsókn til ÚTL um dvalarleyfi, sem inniheldur m.a. staðfestingar á góðum árangri í íslenskunámi hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, atvinnuloforð frá hjúkrunarheimilinu EIR og einkunnir úr námi í
umönnun, sem henni bauðst þegar hún annaðist afa sinn á Filipseyjum.Svar ÚTL barst 21. júní sl. um að Romylyn skuli yfirgefa landið innan 30 daga og stofnunin tæki ekki afstöðu til umsóknarinnar, fyrr en hún yfirgæfi landið, skv. lögum. Niðurstaðan var kærð til Innanríkisráðuneytisins og farið er fram á frestun á réttaráhrifum, á grundvelli mannréttindalaga og heimilda til þess að meta umsókn hennar,
á meðan hún er í landinu.Ellert hringdi í ráðuneytið fyrir viku síðan og talaði við einn af lögfræðingum þess. Sá sagði að mál hennar yrði tekið fyrir í fyrsta lagi eftir 6-7 mánuði. Af þessu svari er ljóst að Romylyn er neydd til þess að yfirgefa fjölskyldu sína næstu daga, vegna þess að það er svo mikið að gera hjá ráðuneytinu. Þá er ljóst, að fari hún núna, mun hún aldrei koma aftur. Ef til þess kæmi, má leiða hugann að fjölskyldunni sem býr á Íslandi, hvernig mun hún vinna sig út úr þessu? Hvernig útskýrir maður svona hluti fyrir móður og systur?
Kostnaður við umsóknarferlið frá 2007 – 2012 auk framfærslu og náms stúlkunnar í Filipseyjum, er að nálgast
4 milljónir. Kostnaður við að senda hana heim verður um hálf milljón til viðbótar.
Úthald fjölskyldunnar er búið og trúin á réttlæti er víðsfjarri.Í vikunni sem leið, hélt innanríkisráðherra blaðamannafund um niðurstöður starfshóps um bætt vinnubrögð ÚTL og kom þar fram m.a. að lögð yrði sérstök áhersla á að skoða mál, þar sem sameining fjölskyldna kæmu við sögu. Þetta mál hefur frá upphafi tilheyrt þeim málaflokki.
Bréf hefur verið sent til Ögmundar innanríkisráðherra þar sem hann er hvattur til að beita sér í þessu máli en ekkert svar hefur enn borist frá honum enn sem komið er.
Það er furðulegt með stofnun eins og útlendingastofnun, að þeir virðast vinna eins og ríki í ríkinu algerlega eftir eigin geðþótta og oft á tíðum án þess að fylgja lögum og reglum. Gjaldtaka þeirra er líka furðulega samansett og það þarf að greiða sérstaklega fyrir hverja umsókn sem lögð er inn til þeirra. Mætti því ætla, að með því að synja sem oftast séu þeir eingöngu að þessu til að safna fé í ríkissjóð en ekki til að framfylgja lögum.
Nú er alveg rétti tíminn fyrir Ögmund að taka sig á og sýna og sanna að hann sé starfi sínu vaxinn og taki á þessu máli og snurpi útleningastofnun fyrir þessi vinnubrögð því það getur varla verið að þetta sé eina málið sem er í þessum farvegi hjá þeim og það þarf að stoppa. Að senda fólk úr landi frá fjölskyldu sinni er ómannúðleg og stofnunni til háborinar skammar.