Ég starfa við að keyra áætlunarbíl milli Selfoss og Víkur og það sem maður verður vitni að oft á dag slær mann svolítið harkalega á kjaftinn. Það er engu líkara en sumt fólk hafi hreinlega stolið ökuskírteininu sínu, ef það þá hefur yfir höfuð nokkuð slíkt, því hegðun þess er oft á tíðum langt utan við minn skilning og nefni ég nokkur dæmi um það sem hefur komið upp á þeim mánaðrtíma sem ég hef unnið við þetta.
Sjálfsagt geta ýmsir atvinnubílstjórar sagt eitthvað svipað úr sínum reynslubanka.
Nú er sá tími sem borgarbörnin og útlendingarnir hrúgast í stórum stíl út á þjóðvegi landsins og því miður skapast af því hin ýmsu vandræði. Blessuð borgarbörnin ná ekki að kúppla sig út úr þeim hugsunargangi, að þeir séu í umferðarteppu á fóstudagssíðdegi á Hringbrautinni og þó svo þeir keyri bara á 70 km hraða, skal sko enginn fara fram úr þeim. Því er það svo, þegar ég í minni vinnu með knappa tímaáætlun þarf að komast fram úr þeim, þá er bara hraðinn aukinn þegar maður er við það komast upp að hliðinni á þeim svo helv….. strætódrulsan komist alls ekki fram fyrir. Síðan þegar maður gefst upp og fer bak við viðkomandi aftur er hraðinn slegin niður í 70 aftur. Þetta er bara eitt dæmi um slæma hegðun því margir, meira að segja fólk með fjölskylduna í bílnum hikar ekki við að svína fyrir stóra bíla nú eða hreinlega bara klossbremsa. Útlendingarnir eru reyndar verstir hvað það varðar.
Ég hef ekki tölu á því á þessum eina mánuði, hvað ég hef oft fengið puttan, steittan hnefa og síðast en ekki síst verið hraunað yfir mig þar sem ég hef verið að afgreiða farþega inn í bílinn fyrir það eitt að taka fram úr bílum á þjóðvegi #1 á fullkomlega löglegan og eðlilegan hátt og án þess að skapa hættu eða taka óþarfa áhættu.
Í umferðarlögum 21. gr. er sérstaklega tekið fram, að þegar ökumaður verður þess var, að ökumaður, sem á eftir kemur, ætlar að aka fram úr vinstra megin, skal hann vera með ökutæki sitt eins langt til hægri og unnt er. Má hann ekki auka hraðann eða torvelda framúraksturinn á annan hátt.
Ótrúlega margir ökumenn viðrast ekki skilja þetta eða vita af því, nú eða þá þeim er slétt sama.
Ég um mig, frá mér til mín, hugsunarhátturinn gengur hreinlega ekki á háannatímanum úti á þjóvegum landsins enda kallar það bara á stórslys ef allir fara að haga sér þannig. Þó eru og verða alltaf einstaklingar þarna úti sem er skítsama um allt nema rassinn á sjálfum sér og vaða áfram eins og naut í flagi með algert tillits og virðingarleysi gagnvart öllu og öllum.
Ert þú einn af þeim?