Talsvert hefur verið fjallað í fjölmiðlum um mál þriggja telpna sem skal færa nauðugar viljugar til föður síns í Danmörku þrátt fyrir að sannanir liggi fyrir um bæði andlegt og líkamlegt ofbeldi hans á þeim.
Dómarar og barnaverndaryfirvöld erlendis og hérlendis hafa úrskurðað að telpurnar skuli með lögregluvaldi slitnar grátandi úr fangi móður sinnar og færðar til hins ofbeldisfulla föður fjarri heimalandi þeirra. Það dugði ekki minna en 7 lögreglubíla, vopnaða sérsveitarmenn, lögreglustjóra og fulltrúa barna“verndar“yfirvalda til að sækja telpurnar og taka þær af móðurinni með hreinu og kláru ofbeldi.
Í fésbókarfærslu sem vinkona móðurinnar skrifaði í gær segir meðal annars;
Í dag varð ég vitni að því þegar þrjár litlar stúlkur voru teknar frá móður sinni með valdi. Svo miklu valdi að það þurfti a.m.k. sjö lögreglubíla og eitt lögreglumótorhjól á staðinn. Lögreglustjórinn í Reykjavík mætti líka á svæðið og þarna voru lögreglumenn vígbúnir eins og sérsveitarmenn (hvort sem þeir voru það eða ekki). Kannski þótti það viðeigandi þar sem faðir þessara litlu stúlkna hefur stundum hrætt þær með lögreglunni. Ekki var þó ógnandi mannskari þarna, aðeins nánustu ættingjar og vinir. Venjulegt, friðsamlegt fólk sem getur samt ómögulega skilið þá mannvonsku sem þarna er í gangi og hvaða hagsmuni er þarna verið að verja. Ekki er að sjá að það séu hagsmunir barnanna sem ríghalda í móður sína og vilja alls ekki fara til föður síns. Þessar litlu stelpur hafa upplifað og eru að upplifa eitthvað sem engin börn eiga að þurfa að upplifa. Við hin skiljum ekki hvað er í gangi, er kerfið okkar, sem ég fyrirfram hélt að væri svo gott, ekki að vernda hagsmuni barnanna? Til hvers eru lög og reglur um réttindi barna, ss. barnalög, barnasáttmáli? Til hvers eru embættismenn og stjórnsýsla sem eiga að vinna að velferð barna? Þarf eitthvað stórslys að koma til, svo þessir aðilar geti beitt sér í þágu barnanna?
Þetta mál er búið að vera í gangi í 2 ár það minnsta bæði í Danmörk og á íslandi. Í Danmörk var upplifunin vægast sagt hræðileg fyrir þau þar sem þarlend yfirvöld vildu ekkert fyrir þau gera. Nákvæmlega ekkert og það sem sorglegast var og Dönum til mestrar skammar, að þeir hröktu móðurina til að grípa til þess örþirfaráðs af flýja land og flytja með börnin til íslands. Það varð aftur á móti til þess að Dönsk yfirvöld dæmdu foreldrum sameiginlegt forræði og að börnin skyldu eiga lögheimili á heimili hins ofbeldisfulla föður í Danmörku.
Hvernig í ósköpunum getur stofnun hér á landi sem á að hugsa um velferð barna, gengið svona algerlega þvert á stefnu sína hvað eftir annað? Barnaverndarnefndir undir stjórn barnaverndarstofu kemst reglulega í fréttir fyrir hreint og klárt ofbeldi gegna börnum með því að valda þeim sálrænum skaða með aðgerðum sínum. Það er með öllu óskiljanlegt að þetta mál sem um ræðir skuli hafa verið afgreitt með þeim hætti sem gert var enda er þetta ekkert annað en hreint og klárt ofbeldi og mannréttindabrot.
En hvert verður svo framhald þessa máls? Má búast við því að eitthvað verði gert í málum þessara telpna þegar faðirinn verður búinn að beita þær svo miklu andlegu og líkamlegu ofbeldi og jafnvel misnota þær kynferðislega að auki, að þær komi aldrei til með að geta lifað eðlilegu lífi eftir það?
Hverjir ætla að axla ábyrgðina ef sú verður raunin?
Ættu það ekki að vera þeir sem felldu dómin, framfylgdu honum og stóðu að aðgerðunum?
Mikil er ábyrgðin og skömmin sem liggur á herðum þess fólks sem stóð að þessum gjörningum og stóð fyrir því ofbeldi sem móðirin og dæturnar voru beittar í gær.
Ég óska þeim alls hins besta og vona að móðir og dætur nái saman aftur sem fyrst.