Sjálfstæðisflokkurinn hefur löngum verið einn stæðsti flokkur landsins og margir sem fylgja honum að málum. Nú er svo komið, að fólk verður hreinlega að axla ábyrgð á því að kjósa yfir sig flokk í næstu alþingiskosningum sem hefur orðið uppvís aftur og aftur að því að endurskrifa sögu sína í aðdraganda hrunsins.
Nýjasta útspil flokksins í þeim efnum var að taka út af heimasíðu sinni kaflann sem fjallaði um útrás atvinnulífsins úr sögu flokksins sem birtist á vefsíðu hans.
Tveimur efnisgreinum hefur verið kippt út úr umfjölluninni. Þó er enn hægt að nálgast þær með hjálp veftímavélarinnar svokölluðu á Vefsafn.is. Svona lítur saga flokksins út núna en svona leit hún út í janúar árið 2008.
Eftirfarandi klausa um íslensku útrásina hefur meðal annars verið klippt út úr sögu flokksins: „Atvinnulífið hefur nýtt sér til fulls það frelsi til athafna sem stjórnvöld komu á í lok 20. aldar og starfssvæðið er heimurinn allur.“ Þá hefur setningu þar sem miklum ítökum og völdum fyrirtækja í samfélaginu er hampað einnig verið kippt út: „Ítök stjórnmálamanna og opinberra aðila í atvinnulífinu hafa aldrei verið minni og fyrirtækin aldrei verið öflugri.“
Á meðfylgjandi mynd hér til hliðar má sá hvaða efnisgreinar voru klipptar út og lesa í heild sinni með því að smella á myndina til að sjá hana í fullri stærð.
En hvaða tilgangi þjónar svona gjörningur? Er það viljaleysi og hugleysi þeirra sem stjórna í flokknum að horfast í augu við fortíðina, gera hana upp og læra af mistökunum?
Sennilega eitthvað í þá veruna, því síðan Davíð Oddsson settist í ristjórastól Morgunblaðsins hefur hann verið duglegur að skrifa um aðdraganda hrunsins en ekki samt sannleikanum samkvæmt því hann hefur kennt öllum öðrum um hvernig fór vegna stefnu hans og flokksins á valdatíð hans þegar bankar og ríkisfyrirtæki voru einkavædd og passað vel og vendilega upp á að ,,réttu“ aðilarnir eignuðust bankana.
Af öllu því sem flokkurinn hefur verið að gera undanfarin misseri miðast að því að koma flokknum aftur í foristu í stjórnmálum og eru engar aðferðir bannaðar í þeim efnum. Rógburður, lygar og sögufölsun er bara það sem er uppi á yfirborðinu. Málsóknir gegn þeim sem skrifa um vafasama fortíð einstakra vildarvinan og innvígðra og innmúraðra félagsmanna sem voru áberandi í viðskiptalífinu þegar útrásartímabilið stóð sem hæst er að verða nokkuð fastur liður á síðum fjölmiðla um þessar mundir og eiga einstakir blaðamenn þar verulega undir högg að sækja.
En þetta er bara yfirborðið. Hvernig þróast hlutirnir undir yfirborðinu?
Þar má reikna með að allt sjóði og kraumi þar sem haldnir eru fundir í myrkum og reykmettuðum bakherbergjum flokksinns og ungliðahreyfingarinnar, (stuttbuxnadeildar SUS).
Samband ungra sjálfstæðismanna, SUS hefur ekki legið á liði sínu til að afla flokknum vinsælda kjósenda sinna og má til gamans geta þegar þeir komu með niðurskurðartillögur sínar og afhentu fjármálaráðherra.
Til að byrja með taldi fólk að þarna væri um gráglettið grín að ræða en nei, þetta var sko ekkert grín. Þeim var fullkomin alvara með þessum niðurskurðartillögum sínum. Fólk varð gjörsamlega agndofa. Var það virkilega svo, að það væri virkilega til svona afspyrnu heimskir einstaklingar í ungliðahreyfingu stjórnmálaflokks að leggja fram svona tillögur? Já það var staðreynd. Og flokkurinn sjálfur, aðalega forusta hans, samanstendur af fólki sem komið er frá þessari sömu ungliðahreyfingu.
Við skulum skoða þessar tillögur.
Davíð Þorláksson, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS), hefur afhent Katrínu Júlíusdóttur, fjármála- og efnahagsráðherra, fjárlagatillögur SUS vegna ársins 2013. Þetta er fjórða árið í röð sem ungir sjálfstæðismenn leggja fram fjárlagatillögur sínar.
Í fjárlagafrumvarpi næsta árs, sem kynnt var þann 11. september sl., er áfram gert ráð fyrir halla á rekstri ríkissjóðs. Ef fer sem horfir verður árið 2013 því sjötta árið í röð þar sem ríkið er rekið með tapi, með tilheyrandi kostnaði fyrir framtíðarskattgreiðendur. Allt stefnir í að samanlagður halli á rekstri ríkissjóðs á árunum 2008 – 2013 verður tæpir 600 milljarðar króna. Stærsti hluti þess halla, eða um 380 milljarðar króna, hefur myndast í tíð núverandi ríkisstjórnar. Reikningurinn verður sendur framtíðarskattgreiðendum sem munu þurfa að taka á sig óábyrgan rekstur vinstri manna á fjármálum ríkisins.
Stjórn SUS telur sem fyrr að vel sé hægt að spara í rekstri ríkisins, án niðurskurðar í heilbrigðis-, velferðar- eða menntamálum, og leggur hér til að útgjöld ríkisins verði lækkuð í það minnsta um 84,2 milljarða króna sem er nokkuð meira en SUS hefur lagt til fyrri ár. Verði farið að tillögum SUS má gera ráð fyrir hallalausum rekstri ríkissjóðs án skattahækkana vinstristjórnarinnar auk þess sem hægt væri að lækka skatta og hefja niðurgreiðslu á skuldum ríkissjóðs.
Sparnaðartillögur ungra sjálfstæðismanna eru settar fram á hugmyndafræðilegum grunni í þeim tilgangi að benda á hvernig ríkisreksturinn gæti verið betri og einfaldari en hann er nú. Þannig er tillögunum ætlað að gefa mynd af því hvernig haga mætti ríkisfjármálum betur. Líta má á tillögurnar sem nokkurs konar hugmyndabanka, en ekki heildstæðar tillögur. Fáir eru sammála öllum tillögunum, en allir ættu að vera sammála einhverjum þeirra.
HÉR má finna tillögurnar í heild sinni.
Félag Sjálfstæðismanna í Grafarvogi er aðildarfélag að Sjálfstæðisflokknum, stærsta stjórnmálaflokki landsins. Með myndinni sem aðildarfélagið dreifir er texti en þar segir að þess sé ekki langt að bíða að íslensk stjórnvöld verði orðinn eins og ógnarstjórn Talíbana. Talíbanar hafa löngum verið taldir illræmdir en þeir réðu lögum og lofum í Afganistan á tíunda áratugnum. Þeir bönnuðu meðal annars tónlist og grýttu konur til dauða á stærðarinnar fótboltavöllum. Sjálfstæðismenn í Grafarvogi virðast telja ríkisstjórnina íslensku stefna hraðbyri í sömu átt.
Það er ekki óþekkt að aðildarfélög Sjálfstæðisflokksins veki athygli fyrir áróðursmyndir af meðlimum ríkisstjórnarinnar. Ungir sjálfstæðismenn vöktu athygli á dögunum fyrir auglýsingu sem þeir unnu fyrir málefnaþing Sambands ungra sjálfstæðismanna. Auglýsinguna prýddu leiðtogar ríkisstjórnarinnar auk nokkurra þingmanna stjórnarmeirihlutans en auk þessu voru myndir af bæði Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, og François Hollande, forseta Frakklands. Á auglýsinguna stóð ritað: „Sókn gegn sósíalisma.“
Myndirnar má sjá hérna.
Það er vægast sagt ömurlegt að horfa upp á stjórnmálaflokk með allt það fylgi sem hann mælist með í könnunum haga sér með þeim hætti sem hann gerir og afneita með öllu fortíð sinni, mistökunum sem hann gerði í aðdraganda hrunsins og gera hverja tilraunina til að endurskrifa söguna sér í hag með þeim hætti sem maður sér á hverjum einasta degi í fjölmiðlum.
Það er líka sorglegt að sjá formann flokksins gera sig stanslaust að fífli með hegðun sinni í fjölmiðlum sem og á þingi þar sem hann hagar sér eins og þriggja ára eineltisgaurinn í sandkassanum sem sparkar niður sandköstulum annara barna og skemmir allt sem þau gera. Niðurlægir með orðum og hagar sér eins og versta ófreskja.
Það sem er þó sorgleast í þessu öllu saman eru kjósendur flokksins og fylgismenn hans sem virðast hvorki hafa vilja eða getu til að afneita flokkinum sem olli hruninu og afneitar svo öllu saman með því að eyða út óþægilegum staðreyndum af síðu flokksins.
Kjósendur sem ætla að kjósa flokkinn þrátt fyrir að stefnumál séu óbreytt og enn og aftur skal af stað með frelsi einstaklingsins og sölu ríkisfyrirtækja til vildarvina flokksins sem koma svo til með að gera nákvæmlega það sama og áður, ryksuga fjármagnið út úr fyrirtækjum og bönkum innan frá og skilja þjóðina eftir í öðru hruni eftir örfá ár.
Það er það sem hin raunverulega stefna sjálfstæðisflokksins gengur út á.