Það er komið stress í mann enda styttist sá tími sem er til stefnu að klára að pakka því dóti sem taka skal með sér til útlandsins, selja það sem selst, henda því sem henda þarf og gefa það sem ekki selst. Brottför mín er áætluð frá Selfossi þann 13. Júní næstkomandi og áfangastaðurinn er Svíþjóð.
Meiningin er að fara á Vírdó, (það er mótorhjólið mitt) norður á Akureyri í fyrsta áfanga og gista þar eina nótt og hitta gamla vini og kunningja en einnig koma við í kirkjugarðinum og kveðja son minn og hlú að leiðinu hjá honum áður en næsti áfangi verður tekinn en sá teygir sig frá Akureyri til Seyðisfjarðar og má alveg reikna með að sá afangi verði farinn að kvöldi og nóttu til þar sem ég veit ekki til að ég þekki neinn þar sem ég gæti krassað hjá yfir blánóttina en það er mæting snemma morguns þess 15. júní í ferjuna til Danmerkur.
Ferðalagið verður sennilega sett fram í máli og myndum þegar þar að kemur hér á blogginu mínu ásamt því sem kemur upp í hugan á ferðalaginu.
En nú þarf að pakka, henda, selja og gefa og það liggur á. Það sem ekki selst en þarf að seljast verður sett í hendur ábyrgs aðila sem sér um söluna fyrir mig eftir að ég er farinn.
Það eru því spennandi tímar framundan þrátt fyrir árásir svartra hunda sem hafa herjað á mig en vonandi fer þeim árásum að linna þegar verkefnin hrannast upp.
Stay tuned því það kemur meira síðar.