Mig grunaði að svona mundi fara enda er bannað að nauðungarvista fólk lengur en 24 tíma án dómsúrskurðar og engin reglugerð er æðri lögum.
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt skyldudvöl í sóttvarnahúsi ólögmæta í málum þeirra sem höfðað hafa mál á hendur ríkinu vegna skyldudvalar í sóttvarnahúsi, sem tekin voru fyrir í dag.
Þetta staðfestir Ómar R. Valdimarsson lögmaður í samtali við mbl.is. „Niðurstaðan er sú að reglugerðin á sér ekki nægjanlega lagastoð og umbjóðanda mínum verður ekki gert að dvelja í sóttvarnahúsi enda talið sýnt að hann geti lokið við sóttkví heima hjá sér,“ segir hann.
Í málinu vóg skilgreining sóttvarnahúss í sóttvarnalögum þungt að sögn Ómars, en í sóttvarnalögum eru þau skilgreind á þann veg að þau séu ætluð þeim sem ekki eiga samastað á Íslandi.
„Dómurinn segir með mjög afdráttarlausum hætti að það eigi ekki við um minn umbjóðanda,“ segir hann.
Tólf létu á málið reyna og málin voru sjö talsins. Í öllum tilvikum var dvölin dæmd ólögmæt.
Það ætti heldur ekki að vera með nokkru móti löglegt að nauðungarvista fólk og neyða það til að borga fyrir vistunina að auki. Í mínum huga er slíkt hreint og klárt brot á stjórnarskrá lýðveldisins.