Að leyfa börnum að sitja aftan á mótorhjóli er eitthvað sem flestir ef ekki allir hafa gert og vönum hjólurum þykir það ekkert tiltökumál.
Að sjálfsögðu eru þá börnin klædd í rétt hlífðarföt með passandi hjálm á höfði áður en farið er af stað út í umferðina og á það að vera regla hjá fólki en ekki undantekning.
Í gær birtist mynd á facebook síðu af manni á bifhjóli með barn aftan á. Myndin er tekin upp úr klukkan fjögur síðdegis á Hringbraut milli Snorrabrautar og Lönguhlíðar, þegar umferð er talsvert farin að þyngjast.
Að öllu jöfnu hefði ég verið ánægður að sjá föður með barnið sitt á rúntinum en ekki í þessu tilfelli því barnið er ekki í neinum hlífðarfatnaði og að auki með hjálm sem er allt, allt of stór á það.
Þarna er að mínu mati vítavert gáleysi í gangi og algert ábyrgðarleysi ökumanns bifhjólsins að auki gagnvart barninu.
Eins og áður sagði, þá hefði ég glaðst að sjá föður með barn sitt á hjólinu ef það væri í réttum klæðnaði en svona framferði fordæmi ég því nógu slæmt er nú orðið sem af okkur hjólafólki fer þó menn séu ekki að kynda það upp með því að haga sér eins og þessi tiltekni ökumaður.
Ég veit, að margir af mínum vinum og kunningjum eiga eftir að halda áfram að skammast í mér fyrir það að hafa deilt myndinni á facebook, en við þá ætla ég að segja þetta. Mundir þú sjálf/ur fara með barnið þitt út í umferðina á annatíma í Reykjavík svona útbúið?
Hugsið áður en þið svarið…
Hér má lesa viðbrögðin við upphaflegu deilingu myndarinnar.
Hér má svo sjá og lesa það sem deilendur skrifa um myndina.
Hér eru svo viðbrögðin frá fólki við minni deilingu.
Við bifhjólafólk þurfum á hverjum degi að taka við allskonar fordómum, heimsku og fyrirlitningu fólks á bílum gagnvart okkur svo ég tali nú ekki um þá sem vísvitandi reyna að keyra okkur niður í umferðinni af því þeir þola okkur ekki, þá er þetta ekki til að bæta orðsporið okkar.
Eigum við ekki að sammælast um að taka okkur á og fordæma heimskuleg afglöp fólks í okkar röðum?
Ég veit að ég er að endurtaka mig en…
…væri ekki nær að fólk slakaði aðeins á og hugsaði hvort það færi með sitt barn út í umferðina svona klætt?