Sigurbjörg Magnúsdóttir skrifar á facebooksíðu sína 13. júní um klukkan 21:30 um lífsreynslu sem ekkert foreldri óskar sér að upplifa.
Um klukkan 15:45 þennan sama dag var ungur sonur hennar ásamt hópi annara barna að koma að hesthúsi Andvara á Kjóavöllum, þegar bíll kemur og keyrir glæfralega og flautar og flautar á hestahópinn sem tryllist og tekur á rás. Öll börnin duttu af baki og meiddust, sum lítið en önnur meira.
Ekki tókst að ná bílnúmerinu þar sem hlutirnir gerðust hratt og að sjálfsögðu allir meira eða minna í áfalli vegna þessa atburðar. Verst er þó, að sonur Sigurbjargar liggur nú á gjörgæslu eftir að sneiðmyndataka sýnir að hann er með rofna lifur og innvortis blæðingar í kviðarholi og mikið krambúleraður en óbrotinn þó hann sé óskaplega mikið marinn allstaðar.
Drengurinn er ekki í lífshættu en þarf að vera áfram undir eftirliti lækna meðan sár hans eru að gróa en það gæti tekið nokkrar vikur.
Innlegg Sigurbjargar í heild sinni.
Elsku strákurinn minn lenti í hrikalegu óhappi í dag þegar hópurinn hans var að koma ríðandi heim ca 20 metra fráhesthúsinu þegar bíll kemur og keyrir glæfralega og flautar og flautar á hestahópinn sem tryllist og allir litlu hestaknaparnir duttu af og meiddust. ekki náðist numerið en við vonum að sá hinn sami sjái þennan status – drengurinn minn liggur nú á gjörgæslu eftir að sneiðmyndataka sýnir að hann er með rofna lifur og innvortis blæðingar í kviðarholi og mikið krambúleraður en óbrotinn þó hann sé óskaplega mikið marinn allstaðar. Við þökkum Guði fyrir að ekki fór verr og hann sé ekki í lífshættu en það er stöðugt fylgst með hvort að blæðingin aukist hjá honum og þess vegna erum við hérna á gjörgæslunni.
Ég vona svo innilega að ef sá hinn sami sem keyrði og flautaði á börnin eins og vitleysingur sjái sóma sinn í þvi að gera þetta aldrei aftur og gef sig fram því börnin eru í áfalli og misillafarin á líkama og sál.
Drengurinn minn gæti legið á milli heims og helju en ég þakki guði fyrir hverja mínótu sem hann er stabíll. en við taka strembnar vikur á meðan lifrin grær.
Þakka öllu yndislega starfsfólkinu á slysó í fossvogi og gjörgæslunni fyrir andlegan stuðning og góðmennskuna og hlýjuna við sterka strákinn minn.Ef einhver bara einhver veit um fólk á þessari leið um 15,45 í dag á leið sinni i hestahverfið í andvara þá bið ég það um að veita okkur lið að upplýsa okkur um hvaða manneskja gerir svona lagað. Við eigum þo enn eftir að fá nánari lýsingu á bílnum.
Það er óskandi að ökumaðurinn finnist hið fyrsta eða það sem betra væri, að hann sæi sóma sinn í að gefa sig fram við lögreglu og gangast við verknaði sínum.
Ef einhver veit meira um málið, varð vitni að þessu eða sá hvernig bíl var um að ræða eða náði númerinu, þá endilega hafa samband við lögreglu og komi upplýsingum til hennar.