Það er gjörsamlega óþolandi hvernig prósentureikningurinn er kerfisbundið notaður af stjórnvöldum, Samtökum Atvinnulífsins og flestum hagfræðingum, til að blekkja almenning í sambandi við laun og kjör. Og þá sér í lagi þegar kemur að launahækkunum.
Skoðum nokkur dæmi og reiknum þetta út í einum hvelli svo við sjáum hvernig blekkingarnar fara fram.
Í fyrsta dæminu tökum við aðila sem vinnur við afgreiðslu og segjum að hann hafi í laun með álagi og fastri yfirvinnu, 270 þúsund á mánuði.
Hann fær launahækkun upp á 2,5% sem gerir heilar 6.750 krónur í hækkun þannig að launin verða þá 276.750 krónur.
Í öðru dæminu er forstjóri afgreiðslumannsins og segjum að hann sé með 1.725.254 krónur á mánuði og hann fær sömu prósentuhækkun.
Þá hækka hans laun um 43.131 krónur á mánuði og hann fær þá í heildina eftir hækkun, 1.768.385 krónur í mánaðarlaun.
Þetta sýnir enn og aftur hvernig vinnandi fólk í þessu landi hefur verið blekt og svikið aftur og aftur og aftur af launþegahreyfingunni, ASÍ, Vinnumarkaðinum, SA og stjórnvöldum.
Það er kominn tími til að breyta þessu og það verður ekki gert nema fólk taki þátt í starfi síns verkalýðsfélags og vinni í því að bæta kjör sín. Verkalýðsfélagið er nefnilega ekkert annað en fólkið sem í því er og ef formaður félagsins er ekki að vinna fyrir fólk eins og fólkið vill, þá þarf fólkið í félaginu að koma honum frá og kjósa sér nýjan formann.
Taka nú á þessu fólk og sýnið að það sé einhver manndómur í ykkur.
Að þið séuð menn en ekki mýs.