Í kosningabaráttunni fyrir rúmu ári síðan voru stór loforð gefin af þeim flokkum sem nú skipa ríkisstjórn þessa lands þess efnis að laga skyldi efnahaginn hjá þeim sem hafa setið eftir tekjulega séð eftir stóra efnahagshrunið. Var meðal annars lofað að þeir tekjulægstu í þjóðfélaginu mundu njóta góðs af vekum þeirra flokka og hagur þeirra vænkast í stjórnartíð hennar. Annað hefur heldur betur komið á daginn og hafa láglaunastéttirnar, öryrkjar og aldraðir aldrei verið verr settir heldur en nú er.
Það er kanski ekki stjórnarflokkunum einum og sér að kenna, heldur spila verkalýðsfélögin og Alþýðusamband Íslands þar stór hlutverk því í samráði við Samtök Atvinnulífsins og vinnuveitendur þvinguðu þau félagsmenn sína til að samþykkja einhverja þá smánarlegustu samninga sem gerðir hafa verið við launþega í manna minnum. Síðan sömdu önnur félög um margfaldar þær upphæðir í krónum talið fyrir sína félagsmenn í kjölfarið.
Öryrkjar og aldraðir hafa hvorki samningsrétt né verkafallsrétt og þegar þeir gera kröfur um að kjör þeirra séu bætt er bara hlegið að þeim og þeim sagt að þeir séu afætur á þessu þjóðfélagi og eigi bara að halda kjafti og vera þakklátir fyrir það sem að þeim sé rétt. Fordómarnir og svívirðingarnar sem þessir hópar þurfa að láta yfir sig ganga frá beturvitum þeim sem aldrei hafa kennt sér meins, halda sig ódauðlega og ósæranlega eru með slíkum ólíkindum að þau verða ekki höfð hér eftir enda þekkja þeir sem fyrir því verða hvernig þær eru.
Mánaðarmótin eru versti tími sem flestir öryrkjar og aldraðir upplifa. Kvíðinn fyrir því að opna heimabankann og sjá að tekjur duga ekki fyrir útgjöldum er vond tilfining. Það að sjá að viðkomandi hefur fengið innlagðar 165 þúsund krónur á reikninginn sinn þegar útgjöldin með öllu eru yfir 180 þúsund eða meira er kvíðavaldandi í meira lagi. Hvernig á að brúa bilið og eiga fyrir mat að auki?
Afþreying er ekki í boði fyrir fólk sem sér þessa stöðu mánuð eftir mánuð og horfir þar að auki á mat, húsaleigu, rafmagn og allt sem þarf til að reka heimili, hækka í verði meðan tekjurnar standa í stað.
Hvað á fólk í þessari stöðu að gera þegar það getur ekki unnið fyrir aukatekjum án þess að þær séu rifnar af þeim með einum eða öðrum hætti?
Öryrkjar mega hafa 109. þúsund í tekjur á mánuði án þess að bætur frá TR skerðist en geri þeir það, þá er lífeyrissjóðurinn farinn og það sem meira er, af því skattleysismörk eru það lág, (öryrkjar greiða skatta af þeim lágu bótum sem þeir fá), þá fer meirihluti teknana í skatt. Alveg sama hvernig skattkortinu er skipt upp. ERGO = Nettótekjurnar lækka og því hefur öryrkinn minna á milli handana þegar upp er staðið.
En hver ber ábyrgð á þessu ástandi?
Nú nýverið hældi forsætisráðherra sér í ræðu á eins árs afmæli ríkisstjórnarinar að gríðarmiklar framfarir hefðu orðið á fjölmörgum sviðum.
Hagvöxtur tók mikinn kipp síðastliðið haust. Hinn aukni hagvöxtur seinni hluta ársins var langt umfram spár og með því mesta sem þekkist meðal iðnvæddra þjóða. Þess er nú vænst að hagvöxtur aukist enn á þessu ári og því næsta.
Verðbólga er komin niður fyrir viðmiðunarmörk Seðlabankans í aðeins annað skipti í heilan áratug og í fyrsta skipti hefur verðbólga haldist undir viðmiðunarmörkum í nokkra mánuði í röð. Afleiðingin er aukinn kaupmáttur.
Kaupmáttur hefur aukist meira á tímabilinu en nokkru sinni frá árinu 2007. Ætla má að kaupmáttur, það hvað fólk getur keypt fyrir launin sín, aukist nú hraðar á Íslandi en í nokkru öðru Evrópulandi.
Atvinnuleysi fer enn minnkandi og er nú í kringum 4% á sama tíma og meðaltals atvinnuleysi á evrusvæðinu er búið að ná nýjum hæðum í 12 prósentum.
Ferðamönnum fjölgaði um 34% fyrstu 4 mánuði ársins frá sama tímabili í fyrra.
Jöfnuður hefur aukist þrátt fyrir hraðan hagvöxt.
Tekjuskattur lækkaði um 5 milljarða, mest hjá millitekjufólki.
Rétt er það að hagvöxtur jókst aðeins á árinu en var það SDG og Co að þakka?
Nei svo langt í frá því síðustu verk stjórnarinar á undan átti mestan þátt í því þó svo SDG steli fjöðrunum.
Verðbólgan lækkaði vegna aðgerða síðustu stjórnar, ekki vegna aðgerða SDG og Co. Stolnar fjaðrir eina ferðina enn.
Jöfnuður í þjóðfélaginu hefur ekki aukist heldur heldur þvert á móti hefur ójöfnuður aukist verulega.
Þeir sem hæstar hafa tekjurnar hafa hækkað um tugi ef ekki hundruð þúsunda í launum frá því núverandi stjórn tók við meðan þeir lægst launuðu hafa staðið í stað eða því sem næst. Ef ég man rétt, þá hafa bætur hækkað hjá öryrkjum um 2.500,- krónur til 3.500,- krónur á þessu eina ári. Frítekjumörk og skattleysismörk standa í stað og því eru svik þessarar stjórnar og lygarnar sem hún ber á borð fyrir fólkið í landinu með því svívirðilegasta og ljótasta sem sést hefur frá nokkrum stjórnmálamanni fyrr og síðar.
Kaupmáttur jókst hjá þeim sem eru með millitekjur og hæstu laun, láglaunastéttirnar, öryrkjar og aldraðir sitja uppi með gífurlega kaupmáttarrýrnun eða allt að 25 til 30% þegar allt er reiknað.
Þetta er hrein og klár lygi enda sanna tölur frá Hagstofunni það.
Brynjólfur Þorvarðarson skrifar í athugsemd með fréttinni sem vísað er til hér að ofan.
Nú er SGD mjög talnlaglöggur maður og eflaust allt satt sem hann segir. Samt datt mér nú í hug að kíkja á vef Hagstofunnar og sjá hvað hún segir um atvinnuleysi. (sjá http://hagstofan.is/Pages/95?NewsID=10393)
Í apríl 2013 voru starfandi á landinu 173.100, en í apríl 2014 voru þeir 171.300. Það hefur sem sagt orðið fækkun meðal starfandi einstaklinga um 1800 manns. Í stað þess að 4000 störf hafi skapast, eins og SDG fullyrðir, hafa 1800 horfið, samkvæmt Hagstofunni.
Einnig má sjá að 82% atvinnuþáttaka var í apríl 2013 en 79,2% þáttaka í apríl 2014. Samkvæmt því eru núna 2,8% fleiri vinnubærra manna án atvinnu en fyrir ári.
Eða eins og segir á vef Hagstofunnar: „Samanburður mælinga í apríl 2013 og 2014 sýnir að atvinnuþátttaka minnkaði um 2,8 prósentustig og hlutfall starfandi minnkaði um tvö prósentustig.“
Samt hefur atvinnuleysi minnkað, úr 6,6% fyrir ári í 5,9% núna, eða sem nemur 0,7%. Hvernig getur staðið á því?Það er nú það. Fjöldi þeirra sem standa utan vinnumarkaðar hefur nefnilega stóraukist, úr 40.600 í 47.700, eða 7.100 manns (17,5%). Afhverju stendur fólk utan vinnumarkaðar (þ.e.a.s. eru hvorki í vinnu né atvinnuleit?). Svo virðist sem langtíma atvinnulausum, þeim sem hafa gefist upp á atvinnuleit, hafi fjölgað langmest á valdatíma ríkisstjórnarinnar!
Þetta er sláandi niðurstaða og vekur auðvitað upp ákveðnar spurningar við fullyrðinguna „Jöfnuður hefur aukist …“
En nú reikna ég með að Eyjan leiðrétti fyrirsögina, þar á nefnileg að standa: „5 færri störf á dag“, ekki „11 fleiri störf á dag“. Og svo mætti einhver hnippa í þann grandvara og talnaglögga heiðursmann Sigmund Davíð og benda honum á tölur Hagstofunnar.
En hvaðan kemur þá þessi 4000 tala? Ef atvinnuleysi minnkar um 0,7% þá er að hámarki hægt að reikna sig uppí 2300 ný störf, miðað við að allir Íslendingar séu á vinnumarkaði.. Nú má vera að SDG hafi einhverja viðmiðunarvísitölu við hendina sem hjálpar honum í útreikningum af þessu tagi, gaman væri ef hann gæti frætt okkur nánar um það.
Góð greining hjá Brynjófli og því miður alveg sönn.
Á sama tíma og SDG hælir sér af því að hafa lækkað skatta hjá millitekjufólki um fimm miljarða, (fimm þúsund miljónir), 5.000.000.000.- krónur, þá standa öryrkjar og aldraðir hvar?
Jú þeir standa í þeim sporum að geta ekki séð fyrir sér vegna lágra tekna sem eru í raun langt undir fátæktarmörkum þó svo forsætisráðherra haldi öðru fram.
Framlög til velferðarmála hafa verið aukin til mikilla muna. Skerðingar á greiðslum til öryrkja og eldri borgara sem teknar voru upp árið 2009 voru afnumdar og framlög til almannatrygginga aukin um 9 milljarða eða 11%. Íslensk stjórnvöld hafa aldrei sett jafnmikið fjármagn til félagsmála og á árinu 2014.
Ég prívat og persínulega hef ekki orðið var við að þessar skerðingar hafi verið afnumdar því enn stelur Tryggingastofnun Ríkisins af mér 80% því sem ég fæ frá mínum lífeyrissjóði í örorkubætur.
Það er staðreynd, og það er ljót staðreynd þegar stjórnmálamenn og svo ég tali nú ekki um, leiðtogar þjóðarinnar og þeir sem sitja í valdastöðum, ljúga blákalt til að fegra stöðu sína út á við. Sumir mundu kalla þetta siðblindu en þetta er mikið meira því þegar stjórnmálamenn með aðgerðum sínum hrekja fólk til að taka sitt eigið líf þá eru þeir morðingjar. Kaldrifjaðir og samviskulausir morðingjar sem hafa hvorki til að bera samkennd með öðrum né þá siðferðiskennd sem heiðarlegt fólk hefur til að bera.
Á hverju ári reyna milli 3 til 400 manns að fremja sjálfsmorð og á milli 30 og fjörtíu tekst það. Aðalega er þetta ungt fólk sem sér enga framtíð í því að lifa eins og hamstur í hlaupahjóli 24/7/365 fyrir lúsarlaunum gjörspilltra fyrirtækjaeigienda, atvinnurekenda og stjórnmálamanna sem velta sér í velmegun á erlendum sólarströndum fyrir þann auð sem þrælarnir skapa þeim.
Játning:
Ég er ekki vanur að láta uppi þær myrku hugsanir sem bjótast oft um í hugskoti mínu en ætla að gera undantekningu í þetta sinn því það er fólk þarna úti í þjóðfélaginu sem sjálfsagt á við svipaðar hugsanir að stríða.
Það hefur hvarflað að mér undanfarna tvo mánuði þegar ég hef verið úti á þjóðvegi á mínum eðalmótorfák að ljúka þessu jarðlífi með einu góðu slysi.
Það er svo auðvelt og má alltaf bera því við að ég hafi misst stjórn á hjólinu án þess að hægt sé að sanna nokkuð misjafnt og láta sig vaða framan á flutningabíl.
En af hverju geri ég það ekki?
Af því ég hef ekki samvisku í það að láta einstakling sem vinnur við að keyra flutningabíl á skítalaunum þurfa að burðast með það á sinni samvisku að vera valdur að manndrápi. Þó svo hann eigi enga sök á því og það vil ég ekki hafa á samviskunni.
En meðan þið lesið þessar línur sem ég hef párað hérna ætla ég að opna heimabankann og borga þá reikninga sem ég hef efni á að borga, bölva og ragna illa gefnum stjórnmálamönnum sem halda og raunar trúa því að hægt sé að lifa á tekjum langt undir fátæktarmörkum, reyna svo að finna einhverja leið til að afla peninga til að borga restina og ef veður leyfir, skella mér smá hring á hjólinu og hugleiða lífið og tilveruna í þessu þjóðfélagi.
Vona að ykkar dagur verði betri en minn.
Lifið heil.