Um leið og ég óska íslendingum öllum til hamingju með dóminn í Icesave málinu langar mig að benda lesendum mínum á þá einföldu staðreynd að þessu máli er langt í frá lokið. Það eru margir lausir endar sem þarf að ganga frá og margir hnútar sem þarf að leysa. Það þarf að gera án þess að láta flokkshollustu við einstaka stjórnmálaflokka eða persónur binda hugsanir sínar, horfa á staðreyndir málsins án hlutdrægni. En er það hægt? Getur einhver dregið fram allar staðreyndir á óhlutdrægan hátt og sett þá fram með þeim hætti að þeir verði hafnir yfir gagnrýni? Ég held því miður ekki. Þetta hefur alla tíð verið mikið hitamál í þjóðfélaginu enda hafði þetta áhrif á líf allra landsmanna og þeir sem bera hina raunverulega ábyrgð á öllum þáttum þessa máls eru margir og því erfitt að láta ekki tilfiningarnar í ljós þegar fjallað er um það.
En hvernig hófst þetta allt saman? Hvaða fólk var það sem stóð að þeim aðgerðum sem gerði það að verkum að Icesave málið varð til? Til þess að svara þessu þarf að fara allt aftur til ársins 1999 eða jafnvel lengra aftur og rifja upp aðgerðir stjórnvalda allt fram til ársins 2008 þegar hrunið varð. Það er ekki hægt að skella sökinni á einn mann eða einn stjórnmálaflokk því allt of margir eru viðriðnir þetta mál, stjórnmálamenn sem og aðrir.
Einkavæðing ríkisfyrirtækja felst ekki einungis í vali á söluaðferð og framkvæmd sölu. Í mörgum tilvikum er um að ræða langan undirbúningsferil sem felst í því að gera viðkomandi fyrirtæki og þá markaði sem þau starfa á hæfari til að takast á við þær breytingar sem einkavæðing hefur í för með sér. Sem dæmi um þetta starf má nefna hlutfélagavæðingu sem var fyrirferðarmikil hér á landi á árunum 1996-1998 þegar ríkisviðskiptabönkunum var breytt í hlutafélög, Landssími Íslands hf. var stofnaður, Íslenskum aðalverktökum hf. var breytt í hlutafélag og Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. komið á fót.
Á árinu 2002 voru tekin mikilvæg skref á sviði einkavæðingar. Í kjölfar þess að hinn svokallaði Samson hópur ritaði bréf til nefndarinnar og lýsti yfir áhuga á kaupum á umtalsverðum hlut í Landsbanka Íslands hf. var hafinn söluferill sem miðaði að því að selja kjölfestuhlut bæði í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. Hafist var handa um sölu Landsbankans og Búnaðarbankinn fylgdi í kjölfarið. Niðurstaða þessa söluferils varð sú að Samson ehf. keypti 45,8% hlutabréfa í Landsbankanum en Egla hf., Vátryggingafélag Íslands hf., Samvinnulífeyrissjóðurinn og Eignarhaldsfélag Samvinnutrygginga keyptu samsvarandi hlut í Búnaðarbankanum. Gengið var frá samningum um Landsbankann á gamlársdag 2002 en Búnaðarbankann 16. janúar 2003. Samanlagt eru þessi verkefni þau stærstu sem unnin hafa verið á vegum framkvæmdanefndar um einkavæðingu og mörkuðu þau þáttaskil í íslensku fjármálalífi þar sem ríkið hefur með sölu á þessum hlut dregið sig út úr rekstri fjármálastofnana.
Sem fyrr hefur yfirstjórn einkavæðingar verið í höndum ríkisstjórnar og fjögurra manna ráðherranefndar á hennar vegum. Í ráðherranefnd um einkavæðingu eiga sæti forsætisráðherra, utanríkisráðherra, fjármálaráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Á kjörtímabilinu hafa setið í ráðherranefndinni Davíð Oddsson, Halldór Ásgrímsson, Geir H. Haarde auk Finns Ingólfssonar og Valgerðar Sverrisdóttur sem tók sæti Finns í desember 1999.
Í upphafi kjörtímabilsins skipaði forsætisráðherra framkvæmdanefnd um einkavæðingu og áttu sæti í nefndinni sömu einstaklingar og setið höfðu í nefndinni á kjörtímabilinu 1995-1999. Nefndin var skipuð eftirfarandi einstaklingum: Hreinn Loftsson hrl., sem skipaður var formaður nefndarinnar, Jón Sveinsson hrl., Steingrímur Ari Arason hagfræðingur og Sævar Þór Sigurgeirsson löggiltur endurskoðandi. Breytingar urðu á skipan nefndarinnar á árinu 2002 þegar Ólafur Davíðsson, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, tók sæti Hreins Loftssonar í febrúar og þegar Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, tók sæti Steingríms Ara Arasonar í september 2002. Starfsmenn nefndarinnar á tímabilinu voru Skarphéðinn B. Steinarsson, fyrrv. skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu og Guðmundur Ólason, stjórnsýslufræðingur í fjármálaráðuneytinu. Við undirbúning og framkvæmd einstakra verkefna hafa fulltrúar viðkomandi ráðuneyta tekið sæti í nefndinni og ber þar sérstaklega að nefna Benedikt Árnason skrifstofustjóra í viðskiptaráðuneyti sem vann með nefndinni að þeim fjölmörgu verkefnum sem heyrðu undir það ráðuneyti.
Sjá heimildir:
Wordskjal þar sem farið er yfir störf einkavæðingarnefndar allt frá árinu 1995 til 2003:
PDF skjal þar sem söluferli Landsbankans er rakið með skýrum hætti:
Ljóst er af lestri þessara skjala að áformin og hugmyndafræðin á þeim tíma voru góð og gild rök fyrir því að einkavæða ríkisfyrirtækin þó reyndin hafi svo orðið önnur með tímanum.
Nánar verður fjallað um þetta mál í næsta hluta og þá hvernig sölu Landsbankans var háttað og hvernig starfsemi hans breyttist í framhaldinu ásamt öðrum málum sem tengjast Icesave málinu.