Örstutt hugleiðing í kjölfar leiðréttingana á húsnæðislánunum eða því sem gárungarnir hafa stundum kallað „heimsmetið“ og „auðveldara en að panta pitzu“ svo fátt eitt sé nefnt.
Ég hef aðeins verið að skanna samfélagsmiðlana og bloggin sem hafa verið skrifuð eftir að fólk hefur séð hvort og hvað það fær í leiðréttingu og þeir eru margir sem hafa ekkert fengið og eru svo sannarlega ekki sáttir við það því eins og þeir segja, þá virðist þetta vera algerlega happa og glappa hverjir fá og hverjir ekki.
Þeir sem hafa fengið þetta í kringum hálfa til eina milljón segja að þetta sé farið um leið og verðbólgan fer upp og matarskatturinn hækkar.
Því miður hafa þessir aðilar rétt fyrir sér hvað það varðar.
Björk Vilhelmsdóttir skrifar stöðufærslu á Facebook þar sem hún segir:
Kæru skattgreiðendur. Þið hafið lækkað húsnæðislán mitt um tæpar 2 m.kr. þó ég eigi mjög auðvelt með að greiða af láninu. Á sama tíma ná börnin mín og annað fólk á leigumarkaði ekki endum saman. Þess vegna finnst mér þetta óréttlátt. Við ríka fólkið þurfum ekki að verða ríkari – en aðrir þurfa mun meira en þeir hafa.
Þarna kemur Björk beint inn í kjarna málsins því það er staðreynd sem hefur verið bent á hvað eftir annað, að þeir sem eru best stæðir og með bestu tekjurnar eru einmitt þeir sem fá mestu niðurfærsluna meðan fólk með meðal og lágar tekjur er ekkert betur sett með sína niðurfærslu.
Elsa Lára Arnardóttir skrifar svo í morgun pistil á Vísir.is þar sem hún fer yfir málin vegna ásakana Árna Páls í gær.
Elsa segir meðal annars:
Aðeins um leiðréttinguna
Heildarumfang leiðréttingarinnar eru 150 milljarðar króna, sem fram fer á þremur árum. Leiðréttingin skiptist í tvær aðgerðir, það er 80 milljarða króna leiðréttingu. Leiðréttingu sem kemur til framkvæmdar í einu lagi og skiptir láninu niður í frumlán og leiðréttingalán. Lántaki greiðir eingöngu af frumláni en leiðréttingarlánið fellur niður á rúmu ári. 70 milljarðar króna fara í skattleysi séreignasparnaðs við inngreiðslu á höfuðstól lána.91 þúsund einstaklingar frá skuldaleiðréttingu í gegnum beina niðurfellingu og meðal fjárhæð leiðréttingarinnar verður 1,350,000 krónur. Meðaltal hjóna er 1,510,000 og hver einstaklingur fær 1,100,000 krónur að jafnaði.
Einstaklingar með 330 þúsund á mánuði og hjón þar sem hvort fyrir sig hefur 450 þúsund í mánaðarlaun, er tíðasta gildið í leiðréttingunni. Meðalheildarlaun á mánuði á Íslandi eru 520 þúsund krónur.
Þetta stenst ekki hjá henni og það vita það allir sem hafa skoðað þessi mál og farið í saumana á þeim.
Stöðufærslur á fésinu segja sína sögu og það er bara staðreynd.
Þessum pistli Elsu svarar svo „Reiður ungur maður“ og segir hann:
Hvað er svona ósanngjarnt?
Ég skal segja þér hvað er svona ósanngjarnt.Úr ríkissjóði eruð þið að færa 80 heila milljarða til fólks sem er þegar með og vinnu. Fólk sem tók sjálft ákvörðun um að taka þessi lán fær skyndilega gjöf frá sjálfu sér til að borga til hrægammanna – hrægamma sem þið höfðuð lofað að myndu borga þessar upphæðir sem nú eru á ábyrgð ríkissjóðs.
Og hvernig ætlið þið að borga þetta?
Jú, þetta er fjármagnað með því að skera niður til ALLRA landsmanna.
Tökum leigumarkaðs láglauna menntamanninn mig.
Til þess að blíðka eignafólk með gjöfum úr ríkissjóði gefiði mér fingurinn. Ég er nákvæmlega ekkert betur settur eftir þessa „leiðréttingu“.Í raun er ég verr staddur því þið tókuð af aðgengi mínu til menntunar og heilbrigðiskerfisins.
Þið meira að segja hækkuðuð verðið á helvítis matnum mínum.
MATNUM MÍNUM.
Ég þarf mat ef þið vissuð það ekki.
Þið Framsóknarmenn getið kannski lifað af freti foringjans einu saman en við sem erum með fleiri en tvær heilafrumur og sómakennd þurfum eitthvað með aðeins meira næringargildi.Svo ég, eignalaus, atvinnulaus, stend eftir með dýrari menntun, verri heilbrigðisþjónustu og dýrari lífsnauðsynjar. Allt til að borga úr ríkissjóði til þeirra sem þegar eru með eignir.
Það, Elsa Lára, það er ósanngjarnt.
Ekki að þú myndir skilja það; til þess þyrftirðu að hugsa út fyrir kassann sem foringinn hefur skipað þér að hugsa innan.
Ekkert við þetta að bæta enda er þetta alveg rétt hjá honum.
Við þetta má svo bæta annari staðreynd sem fólk hefur kanski ekki gert sér grein fyrir og það sem kemur til með að bitna á öllum landsmönnum en það er bankaskatturinn sem stjórnvöld ætla að taka upp því bankarnir munu án þess að hika, velta honum beint út á almenning í formi hækkaðara og nýrra gjalda ásamt því að hækka útlánsvexti hjá sér.
Allt þetta á bara eftir að hafa þau áhrif að þeir sem verst eru settir í þessu þjóðfélagi munu hafa það enn verra eftir þessar aðgerðir.
Öryrkjar og aldraðir, sem núverandi ríkisstjórn var búin að lofa bættum kjörum, situr enn hjá garði með enn verri afkomu en nokkru sinni fyrr.
Fólki sem er undir fátæktarmörkum fjölgar með hverjum degi og það eru æ fleiri sem ná ekki endum saman um mánaðarmót á þeim tekjum sem þeir hafa.
Eins sorglegt og það er, þá hefur maður verið að sjá stöðufærslur frá fólki sem ætlar ekki að halda jól af því það hefur ekki efni á því.
Hefur ekki efni á að kaupa gjafir handa börnum sínum eða barnabörnum og þaðan af síður hefur þetta fólk efni á að kaupa mat til jólana.
Svo skulum við ekki gleyma öllum þeim sem eiga hvergi athvarf um jólin og þurfa að hírast á götunni en sá fjöldi er meiri en mann getur grunað.
Könnunin góða er enn í gangi hér hægra megin og ég hvet alla sem ekki hafa tekið þátt til að gera það og deila til vina sinna hvatningu um að taka þátt.
Jól á Götunni.