Það er nema von að maður spyrji sig þessarar spurningar í ljósi niðurstaðna úr könnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins þar sem fram kemur að flestir af þeim sem spurðir voru treysta Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni formanni Framsóknarflokksins best til að leiða næstu ríkisstjórn.
Hvað fær fólk til að haga sér svona heimskulega? Minnisleysi eða heilaþvottur siðblindra silfurseiðarbarna og hundingja þeirra? Trúir fólk virkilega að Sigmundur Davíð hafi einhvern minnsta skilning á kjörum almennings eða geti sett sig í spor fólks sem hefur svo lágar tekjur að það nær ekki endum saman í fjármálum sínum? Heldur þetta sama fólk að þessi formannsnefna sem fæddur er með silfurskeið í tranti og gullgaffal í görn geri eitthvað til að bæta kjör þess fólks sem minnst hefur, hækka lægstu laun og laga heilbrigðiskerfið?
Mitt svar er klárlega nei. Þessi maður hefur ekki nokkurn minnsta áhuga á fólkinu í landinu, kjörum þess eða áhyggjum. Hann hefur heldur engan áhuga á að byggja upp heilbrigðiskerfi sem flokkurinn sem hann er í formennsku fyrir rústaði á ,,góðæristímanum“. Hann hefur engan áhuga á almenningi í landinu nema að því leitinu að hirða af honum skattana svo hann hafi það sem best sjálfur.
Sú staðreynd að fólk treysti þessum manni til að leiða ríkisstjórn segir okkur aðeins eitt og það er að kjósendur eru fífl. Sauðheimsk fífl sem láta leiða sig til slátrunnar eins og lömb að hausti .
Þetta er niðurstaða úr skoðanakönnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins. Spurt var í liðinni viku: Hverjum treystirðu best til þess að leiða ríkisstjórn að loknum kosningum sem fram fara þann tuttugasta og sjöunda apríl?
Niðurstaðan varð eftirfarandi:
- Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar 13%
- Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins 19%
- Guðmundur Steingrímsson formaður Bjartrar framtíðar 7%
- Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstrihreyfingarinnar græns Framboðs 15%
- Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins 28%
Ljóst má vera að Sigmundur Davíð nýtur langmest trausts, samkvæmt þessari könnun. Hann nýtur til að mynda jafn mikils trausts og þau Árni Páll Árnason og Katrín Jakobsdóttir til samans. Fram kom í fréttum Stöðvar 2, að mest trausts nýtur Sigmundur Davíð á landsbyggðinni þar sem um 40 prósent aðspurðra treysta honum best.
Það er eitthvað mikið að í þessu blessaða landi. Annað verður ekki sagt.