Nú er liðið fram á miðjan dag á nýársdag ársins 2014 og mér finnst ég staddur í einhverjum súrrelískum sýndarveruleika þar sem orð og ábyrgð þeirra sem stjórna landinu skipta ekki nokkru einasta máli.
Sýndarveruleika þar sem Forsætisráðherra landsins getur sagt hvað eina sem honum sýnist án þess að þurfa að bera ábyrgð á orðum sínum og þar sem honum er algerlega sama þó ekki sé neitt þar sem heitir sannleikur.
Sýndarveruleiki þar sem ráðamenn þjóðarinnar komast upp með að ljúga blákalt framan í landsmenn alla í beinni útsendingu þar sem því er blákalt haldið fram að aðgerðir stjórnvalda á nýliðnu ári hafi komið þeim, sem lægstar hafi tekjurnar, best og kjör þeirra batnað mest.
Ég er enn að reyna að ná neðri kjálkanum upp af góflinu en gengur það illa.
Sérstaklega kanski í ljósi þess að fjöldi fólks hefur stigið fram og dásamað ræðu Forsætisráðherra og kallað hana; „hreina snilld“.
Á tímabili eftir nokkrar svoleiðis umsagnir var ég farinn að draga á eftir mér kjálkan því svo gapti ég af undrun yfir heimsku og skilningsleysi landa minna. Aldrei á æfinni taldi ég það mögulegt að ég byggi í landi þar sem stór hluti þjóðarinnar slefaði af undirlægjuhætti og gagnrínislausri bleyðmennsku fyrir manni sem verður uppvís að því að ljúga stanslaust að því fólki sem kaus hann sér fyrir leiðtoga.
En kanski eru gáfur íslendinga bara ekki á hærra stigi en þetta að þeir kolfalla fyrir lyginni og líta á hana sem hinn heilaga sannleika spámannsins í formannsstóli Framsóknar. Spámanninn sem alls ekki má gagnrína eða bera upp á hann rangfærslurnar og lygarnar sem renna út úr honum á sjálfan gamlársdag öðru vísi en greindarskerti hluti þjóðarinnar fari gjörsamelega á límingunum og hrauni yfir þá með svívirðingum og hótunum sem benda á lygarnar og rangfærslurnar. Það er líka þá bara sönnun og staðfesting á því hvað við sem bendum á lygarnar og rangfærslurnar höfum í raun rétt fyrir okkur.
Skoðum dæmi úr áramótaræðu Forsætisráðherra.
Með umfangsmiklum aðgerðum til að rétta hlut skuldsettra heimila verður létt á því fargi sem liggur á grunnstoð samfélagsins og hagkerfisins, fjölskyldunum í landinu. Verðtryggð húsnæðislán verða færð niður sem nemur allri þeirri óvæntu hækkun sem varð á árunum í kringum bankahrunið. Auk þess munu skattaafsláttur og önnur úrræði nýtast til að létta enn frekar á skuldunum sem haldið hafa aftur af vexti og velferð á Íslandi.
Þarna passar hann sig á því að minnast alls ekki á það að vaxtabæturnar koma til með að lækka í nánast sama hlutfalli og skattaívilnunin og séreignasparnaðurinn kemur lántakendum til góða. Það þýðir í raun að skuldarar húsnæðislána hafa í raun ekki fengið neitt. Þetta er tilfærsla úr vinstri hendi í þá hægri hjá ríkinu og enginn gróði af því enda koma þeir sem eru með séreignalífeyrissparnað til með að borga allt úr eigin vasa eða öllu heldur með eigin lífeyrssparnaði.
Einhver ljótasta blekking sem húsnæðiseigendur hafa orðið fyrir.
Kaupmáttur og laun.
Takist okkur að auka kaupmátt launa samhliða þessu verður staða heimilanna í landinu gjörbreytt til hins betra. Og nú sjáum við að ástæða er til að ætla að sú geti orðið raunin.
Kjarasamningar sem voru undirritaðir nú í lok ársins eru hugsaðir sem grundvöllur raunverulegra kjarabóta. Allir hljóta að vera meðvitaðir um að samningarnir nú fela ekki í sér að takmarki sé náð. Þeir marka aðeins upphaf en ekki endi, grundvöll fyrir raunverulega kaupmáttaraukningu og aukna velferð til framtíðar.
Á nýja árinu og árunum sem á eftir fylgja þurfum við að auka kaupmátt Íslendinga jafnt og þétt. Það ætlum við að gera í sameiningu. Sérstaklega þarf að bæta áþreifanlega kjör þeirra lægstlaunuðu en þau eru miklu lakari en við getum talið ásættanlegt á Íslandi. En það þarf líka að rétta hlut millitekjuhópanna sem hafa tekið á sig miklar byrðar á undanförnum árum.
Þarna sigu kjálkarnir enn lengra niður.
Lífeyrisþegar, atvinnulausir og þeir sem eru á lægstu tekjunum hafa ekki fengið neina leiðréttingu á sínum kjörum og fá ekki. Ekki einu sinni þeir kjarasamningar sem ASÍ og SA bæta kjör þeirra lægst launuðu á nokkurn hátt heldur þvert á móti. Þessir kjarasamningar fela í raun í sér kjararýrnun upp á nærri 2% á ársgrundvelli og kaupmáttur minnkar að sama skapi á samningstímanum um allt að 6 til 8% haldi það verðbólgustig sem er í dag.
Það er orðin staðreynd á íslandi að fátækt meðal þeirra sem lægstar hafa tekjurnar er staðreynd. Staðreynd sem ekki er hægt að horfa fram hjá þó svo allt sé gert sem í mannlegu valdi til að halda því leyndu.
Fjölmiðlar neita að fjalla um fátækt á íslandi. Þeir vilja ekki vita af henni og afneita henni. Neita að fjalla um hana og neita að ræða við fólk sem er fast í gildru fátæktar og eymdar og kemst ekki út úr henni vegna þeirrar láglaunastefnu sem þykir sjálfsögð hér á landi.
Ég ætla ekki að fara dýpra í ræðu forsætisráðherra enda þjónar það engum tilgangi.
Bent hefur verið á rangfærslur og lygar sem eiga sér enga hliðstæðu í sögunni þegar kemur að áramótaávarpi Forsætisráðherra því aldrei hefur nokkur svo ómerkilegur lygari og lýðskrumari stjórnað þessu landi.
Í þessu landi búa meðal annara rúmlega 18 þúsund öryrkjar sem brotin eru á mannréttindarákvæði stjórnarskrárinar í hverjum mánuði með því að halda þeim langt neðan við þau viðmiðunarmörk sem sett hafa verið af stjórnvöldum um hvað einstaklingur þarf af krónum á mánuði til að geta lifað nokkuð sómasamlegu lífi. Þau mörk eru ekki virrt og meðan svo er, er brotið á hverjum einasta af þeim átján þúsund öryrkjum sem byggja þetta land.
Það má heldur ekki tala um fólkið sem er svo illa statt að það sækir í ruslagáma stórmarkaða og verslana til að hafa eitthvað að borða.
En það má ekki fjalla um það og sýna fram á það óréttlæti sem þetta fólk þarf að búa við. Fjölmiðlarnir virðast hafa samþykkt það sín á milli að minnast ekki einu orði á þetta fólk, aðstæður þess eða lífskjör. Sennilega eru það boð að ofan, frá ,,háttvirtri“ ríkisstjórn íslands.
Nú er svo komið að margir stórmarkaðir eru farnir að loka og læsa gámum hjá sér sem geyma útrunnin matvæli svo fólk komist nú ekki í þau og ég veit nokkur dæmi um að fólk hafi verið rekið frá gámum stórmarkaða og verslana þegar það hefur verið að reyna að ná sér í björg í bú en oft hefur þetta fólk ekki kost á neinu öðru en því sem það finnur í ruslinu.
Þetta er sannleikurinn um velferðarríkið ísland.
Sannleikurinn sem má ekki sjást, heyrast um eða tala um því þá gæti steikin sennilega staðið í broddborgurunum og kæft þá.
En meðan fátæklingurinn leitar að útrunnum matvælum í gáminum frá Bónus, þá rakar auðvaldið saman miljörðum í hverjum mánuði, sem það stingur í eigin vasa, úr sameiginlegum eigum þjóðarinnar með dyggri aðstoð þeirra sem landinu stjórna.
En nú er ég kominn á leiðarenda í þessum pistli mínum en ætla þó að benda á þá einföldu staðreynd, að þjóðin fær yfirleitt þá stjórn sem hún kýs sér. Stjórnin kemur ekki að sjálfu sér og fólkið sem velst til starfa getur aðeins endurspeglað þær gáfur, skynsemi, heiðarleika og það siðferði sem íslenskur almenningur hefur til að bera.
Hugsið aðeins um það.