„SMÁÍS notar erlent módel, mynd tekna af erlendum ljósmyndara og væntanlega keypt af erlendri síðu til þess að auglýsa að það sé verið að hlunnfara íslenskt listafólk með notkun og greiðslu á þjónustu erlendis frá.“ segir í pósti sem gengur nú meðal fólks á Facebook en hver er ástæðan?
Jú ástæðan er sú, að fyrir nokkrum dögum birtu Smáís auglýsingu í Frétablaðinu þar sem getur að líta mynd af þéttum, broddaklipptum hvítum karli með sólgeraugu og reykjandi vindil klæddur fráhnepptri skyrtu.
Í texta auglýsingarinnar stendur með stóru letri: „Yuri dreifir stolnu efni til þúsunda Íslendinga í hverjum mánuði. –Ert þú í viðskiptum?“
Fyrir neðan stendur með smærra letri: „Í hverjum mánuði neyta þúsundir Íslendinga efnis þar sem eignarréttur er virtur að vettugi. Niðurhal og áskrift að læstri dagskrá af erlendu efni sem ekki er lögmæt hér á landi, t.d. af SKY og Netflix kostar íslenskt þjóðfélag háar upphæðir. Á Íslandi tapa allir á þessu athæfi, skattgreiðendur, rétthafar efnisins og þeir sem starfa í hinum skapandi geirum.“
Nú kemur stóra spurningin. Hvar fengu Smáís menn þessa mynd?
Fengu þeir leyfi ljósmyndara og/eða fyrirtækisins til að breyta myndinni?
Greiddu þeir fyrir notkunn á henni eða stálu þeir henni af netinu?
Þetta eru spurningar sem almenningur krefst svara við enda eru þessi samtök, Smáís þegar búnir að þjófkenna alla sem kaupa tóma geisladiska og/eða búnað til að skrifa á diskana því það eru innheimt stefgjöld af þessum hlutum og hluti þeirra rennur til Smáís.
Annað sem er haugalygi hjá þeim er sú staðreynd, að samkvæmt lögum og reglum EES er íslendingum heimilt að kaupa þjónustur á borð við Sky gerfihnattastöðina og fleiri stöðvar sem senda út í gegnum gerfihnetti. Fallið hefur dómur í einu slíku máli (sem ég fann þó ekki þrátt fyrir mikla leit) en þar kom fram að íslendinum sé heimilt að kaupa sér áskriftir að stöðvum innan EES.
Nú gengur breytt útgáfa af auglýsingunni um netheima þar sem aðaltextinn hljóðar svona: „Smáís dreifir rasísku efni til þúsunda Íslendinga. – Ert þú í viðskiptum?“
Í smærra letri stendur: „Í hvert skipti sem fyrirtæki birta auglýsingar á borð við þessa eru mannréttindi virt að vettugi. Mismunun vegna þjóðernis, húðlitar eða kynhneigðar skaðar íslenskt þjóðfélag. Á Íslandi tapa allir á þessu athæfi, auglýsendur, neytendur og sér í lagi þeir sem verða fyrir barðinu á fordómum.
Nú er bara að bíða og sjá hvenær þeir hjá Smáís ákveða að taka upp haglabyssuna og skjóta sig enn einu sinni í fótinn.