Í dag ganga íslendingar að kjörborðinu og velja sér til starfa þá frambjóðendur sem hafa lofað að starfa í þágu þjóðarinnar næstu fjögur árin. Sé eitthvað að marka þær tölur sem koma fram í skoðanakönnunum eru hátt í 40% þjóðarinnar enn ekki búin að gera upp við sig hvað þeir ætla að kjósa og taka jafnvel ekki afstöðu fyrr en í kjörklefanum. Einhverjir munu þó fórna höndum yfir þessu öllu saman og sitja sem fastast heima og mæta ekki á kjörstað og fyrirgera þar með lýðræðislegum rétti sínum til að skipta sér hið minnsta af niðurstöðum kosningana næstu fjögur árin.
Uhh? Afhverju það? Kunna einhverjir að spyrja.
Jú vegna þess að með því að sitja heima og taka ekki afstöðu í kosningum er viðkomandi búin að gefa frá sér þann rétt að taka þátt í lýðræðinu. Atkvæðið sem honum var boðið að nota fellur dautt og ónýtt sem og réttur viðkomandi til að skipta sér af því sem hann afneitaði með heimasetu sinni á degi kosninga.
Það er því lýðræðinu fyrir bestu að mæta á kjörstað og sé fólk ekki að sætta sig við neitt af því sem í boði er, þá er skárra að skila auðum seðli í kassann því í því er falið það atkævði að ekkert af því sem í boði er sé viðkomandi þóknanlegur kostur. Þar með er komið virkt atkvæði í kosninguna en ekki dautt.
Hér verður ekki farið í neinn áróður um hvað þú eigir að kjósa, aðeins er verið að hvetja þig til að nýta þér þann rétt til að kjósa, hvort heldur þú skilar auðu eða setur x við eihvern af þeim flokkum sem í framboði eru, enda hverjum og einum í sjálfsvald sett hvað hann kýs og það á hann að gera eftir sinni bestu sannfæringu án þess að láta kosningaáróður og loforðaflaum hafa áhrif á rökhugsun sína og sannfæringu.
Sú ábyrgð sem á okkur hvílir í lýðræðisríki, er að geta skilið hismið frá kjarnanum, séð í gegnum blekkingar og lygar og kosið samkvæmt því. Það verður alltaf til fólk sem hleypur í blindri trú eftir lýðskrumurum sem hafa ekki til að bera snefila af heiðarleika, siðferði eða sannleiksást og eru svo uppfullir af valdaþrá að þá verkjar hreinlega í sálina við tilhugsunina að einhverjir aðrir fái að stjórna því sem þeir telja sig eiga með réttu. Því hika þeir ekki við í kosningabaráttunni að setja fram stefnumál þar sem þeir lofa kjósendum öllu því sem kjósendur þrá hvað heitast hverju sinni og beita án þess að hika til þess lygum og blekkingum sem ganga þvert á allt sem skynsamlegt er, jafnvel þeirra eigin sannfæringu.
Þegar þeir eru svo krafðir svara hvernig á að standa við öll loforðin er svarað með þeim hætti að flokkurinn hafi á stefnuskrá sinni raunhæf markmið sem búið sé að reikna út að standist þær forsendur sem gefnar hafa verið og það sé ekki vafamál að bla, bla, bla, bla……
Svona svör eru búin að vera gegnum gangandi í núverandi kosningabaráttu og það var mjög snemma sem hugsandi fólk fór að sjá í gegnum þetta og benda á þetta. Því miður er enn nálægt helmingur þjóðarinnar sem trúir þessu og kýs eftir því vitandi þó, að aldrei verður staðið við neitt af þessum loforðum því þau voru einungis sett fram í þeim tilgangi að ná þeim völdum sem viðkomandi stjórnmálamaður eða flokkur er með blæti fyrir. Þetta kallast óheiðarleiki og svik við þjóðina.
Það er því á ábyrgð kjósenda að taka upplýsta ákvörðun, mæta á kjörstað og kjósa eftir sinni sannfæringu en ekki loforðum og lýðskrumi.
Framtíðin er svo í ykkar höndum í dag og gleðilegar kosningar.