Halldór Auðar Svansson er ekki ánægður með þann áburð sem höfundur Staksteina í Morgunblaðinu ber upp á hann í pistli í gær, 4. sept en þar segir meðal annars:
Og kjósendur pírata ættu ekki að gera ráð fyrir að fulltrúar þeirra muni rugga bátnum,enda var greitt með vel launuðu gæluverkefni fyrir þögnina.
Halldór er allt anað en sáttur við svona skrif og segir: „Í stað fréttamennsku sé verið að henda inn algerlega rakalausum ósannindum í ritstjórnarpistli, sérhönnuðum til að skaða orðspor og heiður fólks að ósekju.
Fyrirfinnst einhver sem hugnast svona vinnubrögð?“
Staksteinar hafa í gegnum tíðina verið vettvangur ritstjóra MBL til að tjá sig nafnlaust og oftar en ekki er þar farið ansi frjálslega með staðreyndir og oftar en ekki er þeim snúið algerlega á hvolf eingöngu í annarlegum tilgangi eða til að sverta mannorð fólks.
Þetta er eitt dæmi þess.
Halldór var búinn að gera grein fyrir setu sinni í nefndinni og hvernig launum er háttað fyrir setuna:
„Borgarfulltrúar þiggja föst laun fyrir störf sín hjá Reykjavíkurborg sem nema 77,82% af þingfararkaupi eins og það er hverju sinni. Þetta eru grunnlaun borgarfulltrúa. Í þeim felast að fullu greiðslur fyrir setu í nefndum og ráðum borgarinnar, þ.m.t. formennsku í nefndum, innkomur sem varamenn og setu sem áheyrnarfulltrúar, sbr. þó ákvæði 4. mgr. 2. gr. og 4. gr.“
„Gert er ráð fyrir því að borgarfulltrúar sitji í einni fastanefnd borgarinnar í flokki I skv. 13. gr. Er þá átt við setu sem kjörinn fulltrúi og/eða áheyrnarfulltrúi.“
„Borgarfulltrúar sem gegna formennsku í fagráði eða borgarstjórnarflokki fá greitt álag sem nemur 25% af grunnlaunum borgarfulltrúa.“
Ég sit einungis í einni fastanefnd, þar sem ég gegni formennsku – stjórnkerfis- og lýðræðisráði. Vegna þess fæ ég greitt 25% álag á grunnlaun, sem ég myndi samt sem áður fá hvort eð er sem formaður borgarstjórnarflokks Pírata.
Í stuttu máli er formennska mín í þessu ráði í raun innifalin í mínum starfsskyldum og aukakostnaður borgarinnar vegna hennar er 0 kr.
Þessu atriði kaus höfundur Staksteina að skauta framhjá en þess í stað vera með rógburð og mannskemmandi ávirðingar í greininni.
Slíkt háttarlag er ekki fréttamennska heldur óþveraháttur.
Halldór hefur verið að melta þessi skrif með sér og langar að snúa þeim upp í eitthvað jákvætt fyrir þjóðfélagið og skorar því að höfundinn að gefa sig fram.
Ég hef aðeins verið að melta þessi Staksteinaskrif í morgun.
Ekki það að þau sitji eitthvað í mér heldur hef ég verið að velta fyrir mér leiðum til að snúa þessu upp í eitthvað jákvætt.
Nú er ég sannarlega ekki dýr í rekstri og hef aldrei þurft að hafa teljandi áhyggjur af peningum. Þess vegna er frekar hjákátlegt og meiðandi í senn að sjá gefið í skyn að gildi mín séu föl fyrir fé. Ég til dæmis þáði ekki skuldaleiðréttinguna svonefndu, þó ég hafi átt rétt á henni, af því mér hugnast ekki starfshættir þeirra sem gefa hana og vil ekki finnast ég skulda þeim nokkuð.
Nú gef ég mér að svipað gildi um þann sem skrifaði þessa Staksteina, hver svo sem viðkomandi er nú. Ég er þess vegna með tilboð sem gerir okkur kleift að vera stórkallalegir saman og slá þessum erjum upp í eitthvað sem gagnast fólki en sýnir um leið að peningar skipta okkur takmörkuðu máli.
Ef þessi aðili er tilbúinn að gangast við því að hafa skrifað Staksteina dagsins og heita því að gefa 100.000 kr. til góðgerðamála um hver mánaðamót næstu 12 mánuði mun ég gera slíkt hið sama á móti.
Þetta tilboð hefur engan fyrningartíma; viðkomandi getur hvenær sem er fallist á þetta og þá hefjum við leikinn strax næstu mánaðamót frá þeim degi.
Ég tek undir þetta með Halldóri og skora einnig á höfundinn að gefa sig fram og taka áskoruninni.
Með því yrði hann maður meiri.