Aron Hinriksson er kennari við Vallarskóla á Selfossi og það er óhætt að segja að hann hafi fengið talsvert áfall þegar bekkurinn hans útskrifaðist síðastliðin föstudag, þann 7. Júní.
Hann skrifar meðal annars á síðuna sína; ,,Í hópnum eru margir efnilegir íþróttamenn sem unnið hafa til ótal verðlauna. Í lífsleiknitíma í vetur ræddum við saman eins og svo oft og þar sagði ég þeim í framhjáhlaupi frá þeirri staðreynd að ég hefði lítið sem ekkert keppt í íþróttum og aldrei unnið verðlaunapening.“
Hann heldur áfram með söguna og er hún hér í heilu lagi að neðan.
Unglingar nú til dags
Stundum heyrir maður talað um það hvernig heimur versnandi fer og hvernig unglingar nú til dags séu aðallega uppteknir af sér sjálfum.
Ég er kennari á Selfossi og á föstudaginn útskrifaðist bekkurinn minn af 97´ árgerð úr grunnskóla. Ég hef fengið að fylgja þeim í fjögur ár eða síðan þau voru 12 ára. Saman höfum við gengið í gegnum súrt og sætt og margar sögur væri hægt að segja af skemmtilegum atvikum. AH bekkurinn hefur alltaf verið fjörugur, ekkert sérlega hljóðlátur og smá yfir meðallagi fyrirferðarmikill. Allt slíkt fyrirgafst þó fljótt því hópurinn er einstaklega skemmtilegur, frjór í hugsun, metnaðarfullur og uppátækjasamur. Í hópnum eru margir efnilegir íþróttamenn sem unnið hafa til ótal verðlauna. Í lífsleiknitíma í vetur ræddum við saman eins og svo oft og þar sagði ég þeim í framhjáhlaupi frá þeirri staðreynd að ég hefði lítið sem ekkert keppt í íþróttum og aldrei unnið verðlaunapening.
Á útskriftinni á föstudaginn gekk allt sinn vanagang. Ræður og ávörp voru haldin, tónlistaratriði voru flutt o.s.frv. Bekkurinn minn var fyrstur á svið til að taka á móti einkunum. Nemendur voru kallaðir upp einn af öðrum til að taka á móti umslögunum sínum. Þegar allir voru búnir og komnir niður af sviðinu var tekin mynd og í kjölfarið áttu þau að fara aftur í sætin sín. Það gerðu þau hinsvegar ekki. Bekkurinn gekk aftur upp á svið og ég var kallaður upp líka. Þá gekk fram stúlka í bekknum og hélt stutta tölu frammi fyrir nokkur hundruð foreldrum og öðrum gestum. Þar þakkaði hún mér fyrir hönd bekkjarins fyrir árin 4. og þakkaði mér fyrir að hafa ekki gefist upp á þeim og fleira fallegt í þeim dúr. Svo rifjaði hún upp þetta með verðlaunapeningana sem ég hafði aldrei unnið. Í kjölfarið komu svo nemendur mínir, einn af öðrum, sögðu hvert og eitt nokkur orð í hljóðnemann og hengdu síðan verðlaunapening með árituðum skilaboðum um hálsinn á mér, alls 25 stykki.
Ég var hrærður og mig setur hljóðan yfir unglingum nú til dags sem hafa þroska til að láta sig detta eitthvað þessu líkt í hug og nennu til að fylgja því eftir.
Ég er þakklátur fyrir árin fjögur með ykkur krakkar, þið eruð snillingar.
Áfram 10. AH
Af þessu getum við séð að það er mikið spunnið í ungdóminn nú til dags þó svo oftast fáum við fréttir af ungu fólki sem er á allt annarri braut og verri. Það mætti því vera meira af svona fréttum sem hampað væri frekar en að draga alltaf upp verstu mögulegu mynd af unga fólkinu sem erfa skal landið.
Meðfylgjandi er svo mynd af verðlaunapeningunum sem Aron fékk frá bekknum sínum.