Sigrún Hreinsdóttir dósent við HÍ setti inn á Facebook síðu sína status þar sem hún rekur í stuttu máli hvernig þjófur eyðilagði hreinlega mælastöð sem vísindamenn nota til að fylgjast með þenslu á Krísuvíkursvæðinu, til að ná sér í rafgeymi sem keyrir stöðina.
Þrátt fyrir að rafgeymirinn væri í læstu boxi með öllum upplýsingum til hvers búnaðurinn væri, braut þjófurinn upp lásinn og þegar hann tók geyminn úr sambandi steikti hann allann búnaðinn sem er notaður til að safna gögnum og senda til móttökustöðvar í Reykjavík.
Þetta gerðist fyrir þrem vikum síðan og er því ljóst að ekki bara fjárhagslegt tjón er gífurlega mikið heldur hefur tapast mikið af gögnum sem doktorsnemar nota í rannsóknarverkefni og eins nota vísindamenn þessi gögn til eldfjallavöktunnar. Meðal annars fyrir nefndann þjóf.
Hér má sjá innleggið í heild sinni.
Kæri þjófur. Þú tókst mælistöð úr sambandi fyrir þremur vikum til að taka þaðan rafgeymi. Var það til að þú gætir verið með nýjan geymi í bátnum eða sumarbústaðinum?
Þegar þú tókst geymin úr sambandi tókst þér að steikja eitt stykki GPS mælitæki, spennureglara fyrir vindrell sem og gagnakortið í router til að senda gögn í bæinn.
Rafgeymirinn var í læstu boxi sem á voru upplýsingar um hvað var þarna í gangi. En nei það var ekki hindrun, lásinn brotinn upp og geymi stolið. Þar með tókst þér að eyðileggja fyrir vísindamönnum sem eru að vakta Krýsuvíkursvæðið. Þar eru búnar að vera þenslubreytingar og jarðskjálftar á síðustu árum sem verið er að fylgjast með og rannsaka. Líður þér betur að vita af bátnum þínum með fínan rafgeymi? Mér líður pínu illa í dag því að ég get ekki fylgst jafnvel með því sem er í gangi í Krísuvík.
Þú tókst aðal GPS mælitækið okkar úr sambandi sem vaktar Krísuvík og nú erum við búin að tapa 3 vikum af gögnum. Auk þess höfum við þurft að fara nokkrum sinnum á staðinn til að reyna að koma þessu mælitæki í gang aftur. Nú er staðan sú að við bara hreinlega eigum ekki tæki til að setja í staðinn. Þér hefur ekki bara tekist að skemma fyrir rannsóknaverkefni hjá doktorsnema við HÍ, þér hefur líka tekist að hindra starf vísindamanna sem eru að vinna fyrir þig, við eldfjallavöktun á Íslandi.
Svona rafgeymir kostar innan við 100 þúsund í næstu rafgeymasölu. Má ég benda þér á að sækja næsta geymi þangað og borgaðir fyrir. Kostnaðurinn sem ég mun þurfa að greiða til að koma stöðinni í gang aftur gæti verið 30 til 40 sinnum meiri. Þá er ekki talið með gagnatapið sem er bara hreinlega ekki metið til fjárs sem og traust vísindamanna til almennings. Við verðum nú að útbúa allar okkar stöðvar með falinni myndavél því við getum ekki treyst því að geymirinn sem þú stalst endist þér lengi, við erum sjaldnast með glænýja rafgeyma á svona stöðum.
Kveðja
Sigrún, dósent við HÍ
Rafgeymum hefur einnig verið stolið úr mælitæki við Eyjafjallajökul og segir Sigrún að nauðsinlegt sé að koma á myndavélavöktun við vaktstöðvarnar þar sem almenningi sé hreinlega ekki treystandi lengur til að láta stöðvarnar í friði.
Ef einhver veit hver hefur átt í hlut þá er um að gera að koma þeim upplýsingum til lögreglu.