Það er með ólíkindum að sú stofnun sem á að aðstoða það fólk sem missir heilsuna eða er komið á aldur og hætt að vinna, skuli hvað eftir annað verða uppvís að því að koma með ranga útreikninga á bótum almannatryggina og oftar en ekki hreinlega vinna gegn hagsmunum „skjólstæðinga“ sinna í hverju málinu á fætur öðru. Það er ekki furða að fólk treysti ekki þessari stofnunn eða forsvarsfólki hennar fyrir sínum málum.
Varla er við hinn almenna starfsmann stofnunarinnar að sakast því hann vinnur bara eftir þeim reglum sem yfirmenn hans setja honum.
Mikil umræða fer núna fram á samfélagsmiðlunum þar sem fólk lýsir því hvernig viðskiptin við þessa stofnun er í raun þar sem gífurlegur fjöldi einstaklinga hefur fengið á sig kröfur um að greiða til baka til TR, allt frá nokkrum krónum upp í hundruði þúsunda króna vegna „rangra“ útreikninga hjá stofnunni eða þá að fólk hefur van eða ofmetið aðrar tekjur á árinu sem það er skikkað til að áætla um hver áramót.
Ég ætla að setja inn nokkur dæmi úr umræðunni sem ég hef rekist á en nefni engin nöfn í því sambandi þar sem yfirleitt koma þessi komment úr lokuðum hópum á Facebook.
En hér koma nokkrar stöðufærslur og svör við þeim.
Ég fékk 43 þús króna kröfu þar sem 4000 kr eru teknar af mér á mánuði þar til að skuldin er greidd að fullu. Kom síðan í ljós þegar var farið að skoða reikninginn að tekjurnar mínar voru lægri en áætlunin var. Kemur síðan í ljós að það er verið að taka af mér heimilisuppbótina fyrir 3 mánuði þegar ég var að vinna. Þegar ég fór að pumpa TR meira kemur það í ljós að þeir skulda mér 17 þús kr á mánuði síðan í okt í fyrra. Ég fæ samt ekki þennan pening fyrr en á næsta ári og þarf þar að leiðandi að borga skatt af þeim peningum. Ég á samt að gjöra svo vel að borga þennan 43 þús.
Ég veit í alvörunni ekki hvort ég eigi að fara að hlægja eða gráta.
Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum. Þarna hefur TR reiknað allt kolvitlaust og rukkar einstakling vegna ofgreiðsla sem áttu sér í raun ekki stað og þetta verður ekki leiðrétt fyrr en að ári liðnu.
Í millitíðinni þarf hún samt að borga til baka það sem stofnunin reiknaði rangt.
Maður hlýtur að spyrja sig hvað siðferðið getur farið langt niður hjá opinberum starfsmönnum sem stýra því mannfjandsamlega batteríi sem Tryggingastofnun Ríkisins er í raun?
Ég fékk frá lífeyrissjóði tæpar 800,000 sem ég átti inni aftur i tímann, sem TR lét mig fara eftir ok en takið eftir þessu, ég borgaði 396,000kr i skatt af þessu, síðan segja þeir að ég hafi fengið ofborgað í fyrra, en eftir að Gildi borgaði mér fór ég niðri TR og spurði hvort þetta hefði mikil áhrif á ofborgun og mér var tjáð að ég þyrfti í mestalagi átt að borga 30-40 þus, en viti menn fékk rukkun um 400,000 þusund fra TR og tóku aftur skatt uppá 161,000 þannig af tæpum 800,000kr sem ég fékk er ég búinn að borga 560þus tæp í skatt svo vilja þeir restina 261þus, þannig að þeir eru að nota mig og minn uppsafnaðann lífeyri til að borga allt til RSK og restin til þeirra, hvað er málið með þessa stofnun?
Þetta er eitt dæmið um hvernig lífeyssjóðsgreiðslum til einstaklinga er stolið af þeim af Tryggingastofnun Ríkisins og Skattinum.
Þarna er einstaklingur sem fær 800 þúsund og er gert að greiða skatt og endurgreiða svo TR vegna ofgreiðslna.
Skoðum dæmið í heild.
800.000 mínus 396.000 mínus 161.000 mínus 261.000 = 217.000 krónur sem eru eftir og svo ætla þeir að rukka hann um 400 þúsund að auki, hafi mér skilist þetta rétt?
Hvað er hægt að kalla svona lagað annað en þjófnað?
Ég sjálfur trylltist þegar mér var gert að greiða til baka tæplega 55 þúsund samkvæmt útreikningum TR og núna, um viku seinna er mér enn ekki runnin reiðin því þetta er að mínu mati varla neitt annað en þjófnaður því ég vann mér inn rétt rúmlega 300 þúsund á síðasta ári, lét TR vita af því að ég væri kominn í vinnu og eins lífeyrissjóðinn þannig að greiðslur þaðan stoppuðu á meðan.
Samt fæ ég endurgreiðslukröfu frá TR og ekki nóg með það, að ég fékk bakreikning frá skattinum upp á rúmlega 150 þúsund að auki.
Ég ætla ekki að hafa þetta lengra í þessum pistli, en það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir þingmenn, ráðherra, almenning í landinu og síðast en ekki síst, þá sem standa á bak við útreikninga hjá Tryggingastofnun Ríkisins, hvernig framkoman er við aldraða og öryrkja í þessu þjóðfélagi.
Hvernig lífeyrinum sem við áttum að fá ef við lentum í slysi sem gerði okkur óvinnufær, er stolið af okkur af sjálfu ríkinu og stofnunum þess.
Það er algjörlega ljóst að núverandi stjórnarflokkar neita að gangast við þessu þar sem þessu var komið á í tíð síðustu ríkisstjórnar en þeir eru samt sekir, því þeir lofuðu því fyrir síðustu kosningar að afnema þessar skerðingar og það hefur allt verið svikið.
Almannatryggingakerfið sem komið var á til að hjálpa því fólki sem missti starfsgetuna fyrir aldur fram er orðið að skrímsli sem vinnur á móti velferð og afkomu öryrkja og aldraðra og það er aldrei meiri nauðsyn á því en núna, að stokka þetta kerfi upp frá grunni.