Í desember 2006 skrifaði Þorgerður Mattía Kristiansen grein á Vísir is sem hún kallar ,,Velferðin fyrir borð borin“ og fjallar þar um hvernig ástandið á sjúkrahúsunum er á þeim tíma og hvernig velferðarkerfið er að ganga sér til húðar.
Það merkilega við þennan pistil er sú staðreynd, að nú gengur hann milli fólks á facebook og á aldrei betur við en akkúrat núna svo ótrúlega sem það hljóðar því hann er skrifaður á þeim tíma sem hagvöxtur var sem mestur og allir virtust hafa nóg að bíta og brenna, bankar og fjármálastofnannir aldrei í sterkari stöðu og allt í bullandi uppgangi.
En hvernig er staðan í dag þegar við skoðum þessi skrif? Er hún betri eða verri en lýst er í þessum rúmlega sex ára gamla pistli? Dæmi hver fyrir sig sem þekkir staðreyndirnar.
Ég veit ekki hvað í ósköpunum ég er að gera hér á þessu guðsvolaða landi, þar sem velferð almennings er sífellt fyrir borð borin.
Tryggingakerfið er í molum og þjónusta heilbrigðiskerfisins í henglum, íslenskum almúga uppálagt að læra nú almennilega á biðraðamenninguna, sýna þolinmæði þjakaður af kvölum.
Ég get illa sett mig í spor þess fólks sem er óvinnufært á meðan það bíður í allt að tvö ár eftir að fá nýjan hné- eða mjaðmalið í landi þar sem uppstokkun sjúkrastofnana er talin nauðsynleg með reglulegu millibili, deildir fluttar milli húsa og hæða með tilheyrandi breytingum á rándýrum innréttingum og tímabundnum lokunum. Þar sem sjálfsagt þykir að loka deildum yfir sumartímann vegna sparnaðar og sárveikir sjúklingar nánast settir út á guð og gaddinn (kannski í veikri von um að þeim fækki).
Í landi þar sem fátæktinni er afneitað af valdamönnum sem tilkynna opinberlega að þeim þyki hafragrautur góður (og vellingur eflaust veislumatur) – svo gefa þeir kannski fimm læri til mæðrastyrksnefndar fyrir jólin.
Þetta hér að ofan gæti alveg eins verið skrifað árið 2010, 2012 eða í dag því þannig er ástandið í raun og veru. Þetta sýnir líka þá einföldu staðreynd, að þeir flokkar sem réðu ríkjum á þessum tíma voru ekki að hugsa um hag fólksins í landinu því þá eins og nú var skorið miskunnarlaust niður í velferðar og menntakerfinu. Sjúkir, aldraðir og öryrkjar voru undirmálshópur þá alveg eins og nú og litið á þá sem dragbít á þjóðfélaginu og áttu í raun ekkert að fá að vera með í ,,góðærinu.“ Þannig var hugsað og þannig er því miður enn hugsað og framkvæmt.
Þar sem lífsgæðakapphaupið er svo klikkað að ekkert er eðlilegra en að grunnskólanemendur fái sér vinnu með skóla til þess að eiga nógan pening fyrir „bráðnauðsynlegum“ lífsgæðum. Þar sem íbúðalánin eru með lánakjörum samkvæmt okurlánakerfi íslenska ríkisins af því ríkisvaldið komst upp með að afnema verðtryggingu launa, en halda verðtryggingu lána.
Í landi, þar sem allt stefnir í kollsiglingu og gjaldþrot yngri kynslóðarinnar sem var ginkeypt fyrir síðustu gylliboðum bankakerfisins á íbúðamarkaðnum og situr nú í skuldasúpunni upp fyrir haus. Í landi þar sem úrlausn sumra verður landfótti, annarra sjálfsvíg.
Þar sem sjálfsagt þykir að senda fyrstu gylliboð bankanna í kjölfar skírnar barnanna og síðar streyma tilboðin um bankareikninga og debetkort með bíómiða í kaupbæti. Enda ungdómurinn upp til hópa svo firrtur af þessu fáránlega fjármálauppeldi að honum þykir frábært að geta keypt eitthvað fyrir ekki neitt og borgað síðar.
Þegar maður svo les þetta setur mann hljóðan. Var þetta skrifað 2006?
Mér finnst eins og þetta hafi verið skrifað í morgunn eða í gær kanski.
Hvað hafa íslenskir stjórnmálamenn lært á þessum tíma sem liðin er?
Ekkert því miður ef maður horfir til þeirra flokka sem réðu þá og sem vilja ólmari en tryllt hrossastóð komast að kjötkötlunum aftur.
Verður það okkur að gæfu að sjá Framsókn og sjálfstæðismenn ná hér völdum á ný ef við skoðum stöðuna hvernig hún var þegar þesssi pistill er skrifaður 2006 og svo þegar við miðum hana við stöðuna í dag?
Nei svo sannarlega ekki. Og það veist þú sem þetta lest.
Af hverju skiptir líf og velferð svona litlu máli í okkar litla fallega landi?
þessari veröld græðginnar útópíu lýðveldisins þar sem flokkun kostnaðar er ætíð af tvennum toga:
Annars vegar:
FÓRNARKOSTNAÐUR lágmarkaður til viðhalds volaðri þjóð
sem kyngir illa matreiddum sannleikanum og kúgast í laumi (en heldur virðingu sinni út á við – og þegir af óttablandinni skömm).Hins vegar:
AUGLÝSINGAKOSTNAÐUR ótakmarkaður handa
valdhafanum svo hann geti barið sér á brjóst í fjölmiðlum
(og hreykt sér eins og haninn á haugnum sem hefur einn og sjálfur haft allar hænurnar undir) og auglýsir Ísland í gylltum ljóma sem draumaland perranna.
Þetta er ekki neitt annað en lýsing á því sem er að gerast í okkar litla landi í dag og það er á ábyrgð okkar sjálfra, fólksins í landinu hvort við látum þetta viðgangast. Með því að kjósa yfir okkur hrunflokkana og í raun fjórflokkinn erum við aðeins að viðhalda þessu ástandi næstu fjögur árin.
Með því að gera það berum við sjálf ábyrgð á því ástandi að viðhalda hér spillingu og óráðssíu stjórnarflokka á alþingi og einstaklinga þar inni sem bera engan hag fyrir landinu eða fólkinu sem hér býr.
Aðeins með því að kjósa nýtt fólk inn á alþingi og losa okkur við fjórflokkinn sem er eitraður af spillingu og óráðssíu, sem er aðeins á þingi til að fá völd til að get hyglt sér og sínum í eiginhagsmunaklíkunum, breytist ekkert hjá almenningi í þessu landi.
Ætlar þú að bera ábyrgð og kjósa rétt?
Kjóstu fjórflokkinn af þingi þegar þú setur X á kjörseðilinn því það verður landinu og þjóðinni til hagsbóta og hagsældar því ÞÚ BERÐ ÁBYRGÐ KJÓSANDI GÓÐUR!
Pistil Þorgerðar má lesa hér í heild sinni.