Núna í hádeginu fékk ég símtal frá gömlum vini mínum sem byrjaði símtalið á því að spyrja mig hvort það væri ekki kominn tími til að taka einn jákvæðan dag og skrifa á netið á þeim nótunum. Áttum síðan gott spjall í rúman hálftíma þar sem farið var vítt og breitt um sviðið þar sem spáð var aðeins í það hvers vegna neikvæðnin væri orðin svona ríkjandi hjá ótrúlega mörgu fólki í dag.
Ég fór aðeins að spá í þessu eftir að samtali okkar lauk því við vorum sammála um það að ég hefði verið mikið jákvæðari og skemmtilegri fyrir tuttugu og fimm árum síðan þegar heilsan var í lagi og maður hafði vinnu og góð laun og maður gat leyft sér hluti sem er ekki minnsti möguleiki á að veita sér í dag.
En hvernig er hægt að vera jákvæður þegar tekjurnar duga ekki fyrir útgjöldum?
Framfærsla og laun eru í engu samræmi og ég og mín kona erum nánast daglega undir gagnrýni fólks fyrir að vera með hesta á húsi og það er náttúrulega enginn smáræðis kosnaður við það þó svo við eigum hesthúsið skuldlaust en það er ástæða fyrir þessu og sú ástæða er að konan er að reyna að komast í gegnum nám sem mögulega gæti komið henni úr þeirri stöðu að vera öryrki í það að geta unnið við það sem hún þráir og þar með átt möguleika á að vinna sér inn tekjur og greiða sanngjarna skatta til samfélagsins í stað þess að þurfa að sitja undir þeim fordómum sem öryrkjar þurfa að búa við frá hendi stjórnmálamanna, almennings og fjölmiðla í landinu.
Það er líka annað sem fylgir því að vera með hesta og það er ábyrgð. Þú berð ábyrgð á velferð dýrana, þarft að sinna þeim og fóðra þá, passa upp á eitt og annað í hirðingu þeirra og það sem er svo stórkostlegt við þessi stóru dýr, hvað þau verða hænd að þér og treysta þér vel sé rétt að þeim farið, sýna þér væntumþykju sem engum skilyrðum er bundin.
Þetta veitir manni gleði og minnir mann á hvað vinátta dýrana er mikið traustari heldur en hjá mannskepnunni þegar á reynir.
Persónulega líður mér best þegar ég er einn úti í hesthúsi og spjalla við hestana og þeir hlusta á rödd mína eins og þeir skilji allt sem maður er að segja þeim því það er jú tónninn í röddinni sem þeir skynja og eins eru þessi dýr mjög næm á líðan manns og sýna það þegar maður klappar þeim og klórar.
En hvernig er hægt að vera jákvæður í daglega streðinu þegar maður vaknar að morgni með bullandi áhyggjur yfir stöðunni hjá manni, veskið og bankareikningar tómir og það eina sem blasir við manni á forsíðu heimabankans eru síhækkandi vanskil og meiri skuldir með hverjum mánuðinum sem líður og ekkert hægt að gera til að lækka þær?
Þegar maður horfir á aðgerðir stjórnvalda sem hækka laun sín og sponslur nánast mánaðarlega en neita að fara að lögum sem eiga að gera það sama fyrir aldraða og öryrkja og bera fyrir sig að þeir hafi hækkað meira hlutfallslega í prósentum talið en allar aðrar stéttir landsins þó svo krónutölurnar sýni og sanni svart á hvítu allt annað?
Þegar maður horfir á allt hækka í kringum sig, mat, húsaleigu og allskonar gjöld sem við þurfum að borga en launin hækka ekkert á móti?
Þegar maður sofnar að kvöldi með sömu nagandi kvíðatilfininguna fyrir því að vakna og þurfa að takast á við sömu erfiðleikana, kvíðann og vandamálin og daginn áður, daginn þar áður og jafnvel síðustu tvö til þrjú ár eða meira?
Þegar maður kemst á það stig að þetta allt til samans er orðið svo yfirþyrmandi að síðasta hugsunin fyrir svefninn felst í þeirri ósk að þurfa ekki að vakna framar.
Ég kaus mér ekki það hlutkesti í lífinu að verða öryrki og upp á aðra kominn.
Ég hef reynt að vinna þrátt fyrir veikindi mín en ég hef aldrei haft neitt upp úr því fjárhagslega því alltaf hefur mér verið refsað fyrir það með allskonar skerðingum og endurgreiðslum á ofgreiddum lífeyri frá TR árið eftir sem eykur bara á erfiðleikana, kvíðann og vanlíðanina.
Þegar maður er í þessari aðstöðu ár eftir ár þá drepur það lífsgleðina, vonina og jákvæðnina og fyrir vikið verður maður bitur og nöldursamur og sér öllu til foráttu sem stjórnvöld gera í landinu og bölvar þeim til neðsta helvíti þar sem þeir geta stiknað til eilífðar í eigin feiti enda eigi þeir það svo sannarlega skilið fyrir framkomu sína gagnvart fólkinu í landinu.
Það er erfitt að vera jákvæður þegar stjórnvöld setja mann í einangrunarfangelsi með efnahagslegum skerðingum án möguleika á að lifa lífinu lifandi þegar maður hefur aldrei efni á að veita sér neitt til afþreyingar eða gleði í lífinu.
Ég ætla samt að stefna að því að taka jákvæðan pistil þegar sól hefur hækkað á lofti, snjórinn og kuldinn búinn að kveðja og það verður orðið hjólafært á ný því sálfræðingurinn minn og geðlæknir bíður með óþreyju í bílskúrnum eftir því að komast út með knapann á bakinu.
Þangað til. Stay cool.