Þann fyrsta mars síðastliðin breyttist notendaviðmótið og útlitið í heimabanka Sparisjóðs Strandamanna samhliða því að hætt var að nota gömlu góðu auðkennislyklana sem hafa fylgt manni sem lyklakippuhringur ansi lengi og auðkenni á skilríkjum eða síma tekið við því hlutverki.
Fyrir okkur sem búum erlendis og erum ekki með kortalesara til að lesa debetkortið okkar eða höfum engin tök á að fá okkur rafræn skilríki í síma er þetta gríðarleg afturför í alla staði og óskiljanlegt að ekki sé hægt að nota Íslykil í stað þessa einokunarfyrirtækis sem Auðkenni er okkur gert gífurlega erfitt fyrir í því að komast inn á heimabankann okkar, sérstaklega hjá þeim sem eru eingöngu með erlend símanúmer.
Gamla útlitið í heimabanka Sparisjóðana var í alla staði frábært að mínu mati, þægilegt og aðgengilegt en þetta nýja útlit svipar helst til nýja fésbúkarlúkksins, forljótt, gisið og virknin í sumum hlutum þess er vægast sagt ömurleg þar sem ýmsar flýtileiðir hafa horfið.
Það er eins og vefforitarar í dag miði allt viðmót við að aðeins farsímanotendur og spjaldtölvunotendur séu þeir einu sem noti vefina en ekki þeir sem nota far og borðtölvur og viðmótið því eftir því, hreint út sagt ógeðslegt fyrir okkur tölvunotendur.
Þarna er bara verið að breyta breytingana vegna og eyðileggja það sem var gott fyrir notendum til armæðu og leiðinda.