Alþingi var girt af vegna setningar Alþingis í dag. Girðingin sem lokar svæðinu tekur næstum inn á miðjan Austurvöll að styttunni af Jóni Sigurðssyni svo það væri nú nokkuð öruggt að enginn næði að henda fúleggi í hausinn á einhverjum þinmanninum meðan hann paufaðist milli kirkju og þinghúss.
Það sem er þó grátlegast við þetta og sýnir paranoju ráðamanna þjóðarinnar gagnvart kjósendum sínum er sú staðreynd að þarna eru fleiri lögregluþjónar en mótmælendur en fljótt á litið virðist vera, eftir myndum að dæma, að þarna séu nú frekar stuðningsmenn nýrrar ríkisstjórnar á ferð en ekki mótmælendur hennar.
Þegar betur var að gáð, sáust þessir átta stórhættulegu mótmælendur alveg upp við girðinguna og sýndu af sér ógnandi tilburði. Var lögreglan á tánum gagnvart þeim og tilbúin með piparúðan til að beita á þá og með fingurinn á hraðvalstakkanum til víkingasveitarinnar sem beið í fullum skrúða í herbúðum sínum, tilbúin að koma og skakka leikinn ákvæðu þessir átta að láta til skarar skríða.
Þessir voru svo greinilega á vegum stjórnvalda því skiltin sem þeir bera segja allt sem segja þarf og var mat lögreglu að ekki bæri að óttast fólk sem sýndi svo greinilega stuðning sinn við þá stjórn sem tekin er við völdum á alþingi. Vissara þótti samt að halda þeim utan við girðinguna svo þeir trufluðu ekki athöfnina.
Myndirnar voru allar fengnar að láni frá Vísir.is