Fyrir nokkru síðan las ég eftirfarandi pistil frá atvinnubílstjóra sem ekur vöruflutningabíl.
Viðkomandi bað um að fá að koma skilaboðum til ökumanna en þau eru svohljóðandi:
Mig langar að vekja athygli á einu atriði sem getur haft mjög alvarlegar afleiðingar.
Gott þykir mér fyrir ykkur sem akið um götur borgarinnar að hafa í huga að í umferðinni þar eru meðal og stórir flutningabílar sem keyra þar um allan daginn, út um alla borg og er ég einn af þeim bílstjórum. Ökumenn minni bifreiða eru að skjóta sér fyrir framan þessa stóru flutningabíla og snögghemla, við slík atvik neyðist maður til að snögg hemla til að verða ekki fyrir því að lenda aftan á fólki sem stundar þetta.
Það sem stingur mig mest við þetta þegar ég sé í aftur gluggum á þessum bílum lítinn koll sem stendur uppúr bílstól og bílstjórinn kannski í símanum. Þykir fólki virkilega ekki meira vænt um börnin sín en það að ekki sé hægt að hugsa aðeins um hvað við erum að gera í umferðinni? Munum að þessir flutningabílar sem við erum að keyra eru oft allt að 40 tonn að þyngd.
Öllum ætti að vera það ljóst að svona stórir og þungir bílar stoppa ekki á punktinum því reynum við að búa til pláss á milli okkar og bílsins fyrir framan okkur. En eins og ég sagði þá kemur oft einhver og stingur sér þar á milli og setur þar með ekki bara okkur og sjálfan sig heldur þennan litla ljósa koll sem situr bundinn í bílstólnum í aftursætinu í bráða lífshættu.
Með þessi litlu kríli í huga hljótum við að geta farið að haga okkur betur í umferðinni sérstaklega þar sem nú fer að byrja að myndast hálka og auðvitað ekki bara í hálkunni heldur alltaf. Ég vona svo innilega kæri bílstjóri að þú takir þér tíma og hugir aðeins betur að umferðinni því rétt eins og ég sagði þá er hægara sagt en gert að stoppa 40 tonna flutningabíl þegar svínað er fyrir þá.
Þessi hegðun í umferðinni getur bara endað á einn veg og það er með stórslysi, það að fá einn svona fulllestaðan trukk innum afturhlerann á fólksbílnum þínum getur bara endað mjög illa.
Það skal koma skýrt hér fram að tilgangur minn með þessum skrifum var alls ekki gerður til þess að móðga einn né neinn, nú ef svo illa vildi til að einhver hér hafi móðgast á þessum orðum mínum þá er nokkuð ljóst tel ég, að sá hinn sami þurfi aðeins að fara að hugsa sinn gang í umferðinni.
Akið varlega og takk fyrir mig, áhyggjufullur flutningabílstjóri.