Ég vaknaði við eitthvað þrusk og fann að ég var ekki einn. Erfitt var að opna augun vegna bólgu sem var tilkomin eftir slagsmál kvöldið áður þar sem nokkrir aðilar slógust bak við veitingahús um að komast í ruslatunnurnar eftir að afgöngum úr eldhúsinu hafið verið fleygt. Ég hafði verið skallaður illa á nefið og ekki ólíklegt að það væri brotið, augun sokkin og bógurnar voru um allt andlitið.
Í þokumóðu vímunnar sem var hægt og sígandi að hverfa úr líkamanum fann ég að ég var enn með hnífinn í hendinni og tilbúinn að beita honum ef á mig yrði ráðist þar sem ég lá á papparusli og dagblöðum sem ég hafði safnað að mér í kjallara á gömlu húsi við Hverfisgötuna sem stóð nú autt og átti að rífa fljótlega.
Ég heyrði þruskið aftur og krepti hnefann um hnífinn. Ég fann að þrátt fyrir kuldann var ég byrjaður að svitna, skjálftinn kæmi svo seinna og með honum kuldinn sem gerði það að verkum að maður skalf eins og spastískur parkisonsjúklingur með mýrarköldu. Svo kæmi flökurleikinn, svitakast og svo enn meiri kuldi. Kanski ekkert gott fyrir heilsuna að hýrast í kjallara í yfirgefnu húsi um hávetur í hörkugaddi, þar sem hvergi er skjól fyrir kulda og vindi, enda engin rúða heil og ekkert hægt að byrgja fyrir gluggana.
Þruskið heyrðist nær mér og svitinn rann niður í augun. Samt skalf ég úr kulda. Ég var ekkert búinn að borða í nærri 3 daga þar sem ég hafði nærri rotast við skallann kvöldið áður og ákveðið að forða mér frekar en að láta stela af mér þeim fáu grömmum af amfetamíni sem ég átti og nokkrum töflum af róandi og örvandi sem mér hafði tekist að útvega mér eftir krókaleiðum. Ég fann að ég varð að ná mér í einhverja næringu á morgunn, ef kuldinn og máttleysið dræpi mig ekki um nóttina, sem voru jafnvel miklar líkur á. Kanski örvæntingin næði loks tökum á mér eins og svo mörgum á undan mér og ég mundi ráðast á einhvern og ræna hann.
Þruskið heyrði nú enn nær en áður og mér var hætt að standa á sama. Hver fjandinn gekk á? Nú voru öll áhrif vímunnar að hverfa og mér farið að líða virkilega illa. Vantaði skammt í hvelli til að skerpa hugann og komast til fullrar meðvitundar. Ræna einhvern? Nei, miðað við ástandið, jafnvel þó ég væri vel settur með gott efni og í fínni vímu mundi ég ekki geta ráðið við aldraða konu á hækjum þó líf mitt lægi við. Ekki til að stela af henni peningum. Það gerðu bara óþverar sem báru enga virðingu fyrir neinu í kringum sig. Auk þess væri hætta á að ég fengi pönkarana yfir mig, sem annars höfðu þó reynst góðir „vinir“ þegar því var að skipta. En þeir mundu drepa mig með köldu blóði ef það þjónaði þeirra tilgangi. Auk þess átti ég einhverja lufsu af sjálfsvirðingu eftir þó ekki væri hún mikil.
Þruskið heyrðist nú nánast við hliðina á mér. Ég hafði allan tímann meðan þessar pælingar fóru í gegnum hausinn á mér, reynt að fylgjast með hvað væri á ferðinni, en um leið þóttist ég sofa. Það var nánast vonlaust að hemja skjálftann, en hafðist að mestu leiti. Mest óttaðist ég að þetta væri einhver annar sem væri í sömu sporum og ég og væri að leita sér að skjóli yfir nóttina og þetta mundi enda með blóðugum slagsmálum um fletið sem ég lá í. Allt í einu sá ég hvað þetta var og byrjaði að hlæja krampakenndum, hikstandi hálfgerðum móðursýkishlátri. Reyndi þó hvað ég gat að passa mig samt á að hafa ekki hátt svo ekki heyrðist til mín. Helvítis rottan þaut í burtu um leið og ég brölti upp á hnén til að finna spíttið og töflurnar sem ég geymdi innanklæða.
Guð minn góður hvað ég þurfti á því að halda til að losna við skjálftann og ógleðina. Ég átti nóg til að geta sofið í nokkra tíma og með sparnaði gæti það enst mér fram eftir morgunndeginum, ef ég lifði svo lengi í þessum kulda. Um leið og ég lagðist í pappahrúguna og dró yfir mig dagblöð og rusl, leit ég á hitamæli sem ég hafði stolið deginum áður. Súlan sýndi mínus 15 gráður á celsius. Í mínus.
Ég sturtaði í mig tveim róandi af sterkari gerðinni og fjórum svefntöflum með skjálfandi höndum og fann mér grílukerti til að sjúga til að fá einhvern vökva í líkaman. Tróð mér í fletið og hlóð yfir mig dagblaðapappír til að reyna að halda á mér einhverri velgju.
Ég fann að töflurnar fóru hægt og sígandi að virka og þungur sláttur sannfærði mig um að svefninn var á næsta leiti.
Mín síðasta hugsun áður en ég sveif rólega á bleiku skýi draumana var; „Vonandi vakna ég dauður á morgunn svo ég þurfi ekki að upplifa helvíti einn dag í viðbót“.