Vegagerðin hefur unnið nokkuð stíft í sumar við að malbika götur og þjóðvegi sem voru orðnir illa farnir eftir síðastliðin vetur og er það vel þegar svo vel er lagt í sem nú hefur verið gert en því miður er það gert með böggum hildar þar sem allt það malbik sem hefur verið lagt í sumar er stórhættulegt þeim sem aka um á vélhjólum. Mæli með að fólk lesi umsagnirnar við fréttina sem tengt er í hér að framan, en þar er einn sem segir frá því að hafa verið á lestuðum vörubíl ofan við Norðlingaholt, rétt tipplað á bremsur og ABS kerfið fór á fullt við það.
Annar sem er á bifjóli prófaði að gefa hressilega í á nýja kaflanum á sama stað og það byrjaði bara að spóla í lýsis, grútardrullunni.
Fjöldi fólks á allskonar farartækjum segir frá flughálu malbiki vítt og breitt í nágreni höfuðborgarsvæðisins og innan þess.
Síðast í dag varð ég fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu þegar ég var að hægja á mér á móts við afleggjarann að Hveradalsvirkjun að ég var nærri því farinn á hausinn þegar hjólið dró skyndilega afturdekkið hjá mér á nýlögðu malbiki.
Nýlega hafði rignt og var blautt á því en að sama skapi hafði verið sól um talsverðan tíma og malbikið náð að hitna og „blæða“ aðeins áður en rigndi. „Blæðingar“ eru vel þekktar á klæðningum úti á landi en sjaldgæft er að sjá aðrar eins blæðingar í nýlögðu malbiki og sést hefur á öllum þeim köflum sem hafa verið malbikaðir í sumar.
Ég stoppaði í vegkantinum og skoðaði malbikið, áferðina á því og hvort það væri „slikja“ á bleytunni og svo reyndist vera. Þarna hringuðu sig og teygðu olíubrákirnar um allann veg, hvar sem horft var á en aulinn ég hafði ekki rænu á því að taka upp símann og mynda þetta, enda enn illa brugðið eftir skrekkinn sem ég fékk.
Fjöldinn allur af vegaköflum sem hefur verið malbikaður í sumar eru hreinlega lífshættulegir bifhjólafólki, ekki bara Hveradalabrekkan og þeir kaflar af Hellisheiði sem búið er að malbika því Suðurlandsvegur rétt austan við Norðlingaholt blæða stanslaust grútardrullunni sem blandað er saman við malbikið sem notað er í dag og verður fljúgandi hált, bæði í bleytu og eins þegar heitt er í veðri, (eins og var í dag) þegar sólin hitar það upp og upp vellur svo grútargrauturinn.
Í dokkinni austan við Norðlingaholtið var einn sem hafði verið að taka fram úr, lent í grútarpolli sem hafði blætt upp úr veginum, misst stjórn á bílnum og var 10 metra utan við veg. Förin í malbikinu á veginum sýndu skýrt og greinilega hvernig hann hafði ætlað að bremsa sig niður, náð gripi hægra megin, snúist og skautað beint út af veginum.
Allt vegna íblöndunarefna sem eiga ekki heima í slitlagi á vegum.
Maður hlýtur að furða sig á því að stofnun eins og vegagerðin sem á að vanda sem best til verka og hafa öryggi mannvirkja sinna framar öllu, vogar sér að stofna lífi og limum fólks í stórhættu með því að nota algjörlega ónothæf og í raun stórhættuleg efni í slitlag á vegakerfið í landinu.
Um bótaskyldu Vegagerðarinnar sem veghaldara gildir eftirfarandi ákvæði 56. gr. vegalaga nr. 80/2007:
„Veghaldari vegar sem opinn er almenningi til frjálsrar umferðar ber ábyrgð á tjóni sem hlýst af slysi á veginum þegar tjónið er að rekja til gáleysis veghaldara við veghaldið og sannað er að vegfarandi hafi sýnt af sér eðlilega varkárni.“
Vegagerðin þarf að fara að taka sig saman í andlitinu og hætta að vinna út um rassgatið á sér, vera heiðarleg í svörum sínum þegar kemur í ljós að efnin sem þeir nota eru handónýt og hættuleg þeim sem nota vegakerfið, jafnvel lífshættuleg og hætta að blanda lífefnaolíum og fiskigrút í malbikið.