Vitundin vaknar rólega þennan morguninn eins og venjulega þegar verkirnir í líkamanum láta vita af sér og loðinn fjórfætlingur mjálmar mjúklega við eyrað til að láta vita að nóttin sé liðin og það sé komin matartími hjá þeim.
Það er ratljóst í húsinu en samt dimmt því dagsbirtan er að ná yfirráðum yfir nóttinni sem víkur hægt og sígandi fyrir morgunroðanum á austurhimni meðan enn er dimmt í vestri og ein og ein stjarna lýsir á himni.
Ég brölti fram úr rúminu en kettirnir stökkva fram og niður í þeirri vissu að ég sé bara rétt á hæla þeim til að gefa þeim morgunskattinn. Þolinmæði er ekki þeirra sterkasta hlið og meðan ég er enn að troða mér í buxurnar koma þeir aftur og kvarta yfir að ég sé ekki kominn lengra en í aðra skálmina.
Ég klára að klæða mig og kem mér niður, fer á klósettið og fæ við það illt augnaráð frá fjórfætlingunum sem greinilega er algjörlega misboðið að ég taki mínar þarfir fram yfir hungurtilfingu þeirra og augnaráðið sem ég fæ er með þeim hætti að maður fær samviskubit því það segir alveg blákalt; „Eigum við að svelta í hel meðan þú mígur í rólegheitum?“
Ég klára mitt, að sjálfsögðu með bullandi samviskubit að svelta kattargreyin í þrjár mínútur og þrettán sekúndur, fer svo fram og gef þeim að éta og byrja svo mína rútínu. Kaffikannan klár og vatnið að kólna meðan ég tek til lyfjaskammtinn fyrir daginn og kem honum í lóg. Renni kaffi í bolla, klæði mig í jakka enda nærri 20 stiga frost úti þessa dagana og fer út á sólpall, kveiki mér í íþróttablysi og nýt þess að hlusta á náttúruna og þögnina sem einstaka sinnum er rofin af bílaumferð úti á þjóðvegi meðan ég sötra kaffið, reyki og nýt þess að finna kuldan smjúga niður í lungun með dópinu sem tóbakið er.
Það eru ný spor í snjónum og augljóst að héri hefur skotist yfir lóðina, slóðin er auðþekkjanleg þeim sem hefur rakið slóðir refa og minnka á íslandi frá barnæsku og kynnt sér spor og slóðir þeirra dýrategunda sem eru hér í Svíþjóð.
Oft kemur það fyrir, sé maður nógu snemma á ferðinni að maður sér dádýr og jafnvel hirti eða elgskálfa eigra um hérna úti í móunum austur af okkur þar sem þau eru að reyna að komast í gras og lyng. Refaslóðir eru algengar enda eru þeir á íkorna, kanínu eða héraveiðum ásamt því að eltast við smáfugla en svo er líka fólk sem setur út matarleifar og afganga fyrir þá.
Úlfar eru á svæðinu en þeir halda sig inni í þéttari skógum og koma mjög sjaldan nærri mannabústöðum og birnir eru fágætir hérna en maður hefur heyrt af einstaka dýri í mestu óbyggðunum enda nóg slíku hér í einu skógi vaxnasta svæði Svíþjóðar.
Rettan er uppreykt og kaffið farið að kólna, héla í skeggi og dofi í fingrum svo það er best að koma sér inn í hlýjuna, ræsa tölvuna og sjá hvort það séu einhverjar góðar fréttir í boði fyrir okkur sem eigum alla okkar afkomu undir ákvörðun misvel gefina þingmanna og ráðamanna þjóðarinar eða hvort við eigum enn að lifa á sultarmörkunum, lifandi dauð enn eitt árið þrátt fyrir fögur fyrirheit um betri tíð og blóm í haga því alltaf svíkja þau, sama hvar í flokki þau standa og fátækasta fólkið verður alltaf út undan þegar kemur að efndum.
Smátt og smátt verður þetta til þess að það fólk sem býr við kröppustu kjörin missir lífsviljan. Vonin um bætt kjör hverfur þegar það þarf, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár að berjast við ná endum saman með tekjur sem duga í raun ekki fyrir nauðsynjum. Fólk sparar við sig í matarkaupum og fólk fer ekki til læknis nema í ýtrustu neyð og bara lífsnauðsynleg lyf eru efst á forgangslistanum en bara ef þau eru ekki of dýr.
Alvöru matur er ekkert í boði enda verðlagið á honum svo brjálæðislegt að það er ekki raunhæft að kaupa hann fyrir fólk á lægstu tekjunum og því lætur það fólk sér duga unnar kjötvörur sem eru eitthvað það óhollasta sem hægt er að setja ofan í sig því það hefur ekki efni á öðru ef það á að geta borðað eitthvað út mánuðinn. Núðlur og hrísgrjón gefa fyllingu í magan en næringargildi slíks rusls er nákvæmlega ekki neitt.
Það þarf ekki að lifa í mörg ár við slíkt ástand þegar lífsviljinn dvínar, vonin um betri kjör hverfur og draumar og þrár deyja því fólk sér ekki fram á neitt annað en borga þær litlu tekjur sem því er skammtað í okurleigu á lélegu eða ónýtu húsnæði, reikninga og reyna svo að tóra á restinni sem oft er lítil eða engin á fæði sem getur varla talist annað en næringarlaust rusl.
Reiði og heift út í ráðafólk þjóðarinar fyrir að viðhalda þessu ástandi þrátt fyrir loforð um annað er orðið mjög ríkjandi meðal aldraðra og öryrkja en hefur einnig verið að aukast hjá þeim sem eru með lægstu tekjurnar á vinnumarkaði því það fólk þarf oftar en ekki að vera í tveim til þrem vinnum til að ná endum saman í því geðveikis ástandi sem ríkir á íslandi.
Það verður samt að segjast að það er að kvikna smá vonarneisti hjá þeim tekjulægstu á vinnumarkaði með tilkomu nýrra stjórna í stóru verkalýðsfélögunum og hjá ASÍ. Einnig með tilkomu nýrrar foristu hjá Öryrkjabandalaginu þar sem loksins kom inn sterkur formaður sem þorir að segja hlutina eins og þeir eru og lætur ekki segja sér fyrir verkum hvað það varðar, ólíkt fyrrverandi formanni þess bandalags sem var í raun algjörlega duglaus gufa og kom í raun engu almennilegu í verk sem formaður þann tíma sem hún var við stjórn.
Persónulega er mín von dauð í þessu öllu.
Ég hef engan áhuga lengur á að skrifa eða tjá mig um þessi mál og vefirnir mínir eru svo gott sem dauðir enda hættir maður smátt og smátt að tjá sig eða fjalla um þessi málefni þegar þeir sem maður er að reyna að hjálpa gera ekki annað en rakka mann niður, stinga mann í bakið eða hreinlega ljúga upp á mann alls konar lygasögum sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum.
Ég ætla ekkert að fara út í smáatriði hvað það varðar en þeir eru orðnir nokkuð margir drullusokkarnir og aumingjarnir sem hafa brjálast yfir því að ég hef verið beðinn um að taka að mér verkefni eða ábyrðgarstöður fyrir öryrkja og unnið að því leynt og ljóst að sverta mig nógu mikið til að öll þannig áform hafa verið lögð til hliðar, annað hvort af mér sjálfum vegna þessa fólks eða þeirra sem hafa beðið mig um það vegna áróðurs og lyga þeirra aumingja sem þola ekki að ég hafi verið beðin um það en ekki þeir.
Ég vil ekki vinna fyrir eða með þannig fólki.
Ég get það ekki því rógberar sem ljúga upp á þá sem reyna að hjálpa þeim í baráttunni fyrir betri kjörum eru ekki þess virði að hjálpa þeim.
Ég flutti erlendis til að komast burt frá þessari geðveiki allri ásamt því að losna frá þessu brjálæðislega stressi sem og þeim hraða sem er á öllum á íslandi.
Ég bjó svo gott sem við þjóðleiðina á suðurlandi í sex og hálft ár þar sem „vinir“ kunningjar og fjölskyldur okkar áttu mjög oft leið um en ég get nánast talið á fingrum annarar handar hvað oft þetta fólk kom í heimsókn eða kíkti í kaffi, vitandi að við vorum nánast alltaf heima og því engin truflun að því að fá gesti.
En nei. Það var alltaf brunað beint í gegn, fólk hafði aldrei tíma til að koma við.
Það var alltaf á „hraðferð“, flýtandi sér í sumarbústaðinn eða á leið heim og mátti því aldrei vera að því að koma við.
Svona hugsun er ekki heilbrigð ef fólk vill á annað borð halda í vináttu, kunningsskap eða fjölskyldutengsl.
Eina vitið var því að koma sér úr landi, þar yrði maður þó ekki fyrir vonbrigðum með fólk, það kæmi hvort sem er ekki þrátt fyrir fögur fyrirheit og loforð.
Konan fór verr út úr þessu en ég enda búin að missa báða foreldra sína og systur á skömmum tíma og nánasta fjölskylda hennar hundsaði hana nánast algjörlega.
Hafði engan skilning á hennar ástandi, hennar sjúkdómi og þeim eftirköstum sem móðurmissirinn hafði á hana sem sjálfsmorð systur hennar.
Þetta voru erfiðir tímar og tóku mikið á hjá okkur báðum enda á sama árinu og móðir hennar dó framdi yngri sonur minn sjálfsmorð og mörg fleiri áföllu dundu á okkur sem tók verulega á sálarlífið sem og sambúðina hjá okkur.
Við erum enn að vinna úr þessu og munum gera það alla tíð þar til dauðinn aðskilur okkur enda er sambúð ekkert annað en samvinna tveggja einstaklinga sem þarf að vinna í og hlú að eigi hún að ganga.
Lífið hér í Svíþjóð hefur verið gott þó vissulega séu veggir sem við höfum rekist á og erfiðleikar komið upp sem hafa sett fjárhaginn í stóran mínus tímabundið.
Það er bara eitthvað sem þarf að vinna úr og allt annað er sett á hold á meðan það er gert.
Ég er að detta á 54. aldursárið og ég á mér enga drauma lengur annann en þann að geta eignast mitt eigið hús úti í sveit með smá landskika þar sem ég get unnt mér síðustu æviárin í friði fyrir áreiti og andskotagangi heimsins í kringum mig.
Alla aðra draum hafa stjórnvöld á íslandi drepið með því að murka úr þeim lífið hægt og rólega með aðgerðarleysi sínu gagnvart veikasta fólkinu í landinu sem á sér enga málsvara eða verjendur innan kerfisins og því geta illa innrættir stjórnmálamenn komið fram við það fólk eins og þeim sýnist og níðst á þeim eins og einstaklingur með barnagirnd misnotar sér varnarlaust barn í sínum sjúka og brenglaða haus til kynferðisofbeldis.
Það er ekki hægt að líkja þessu saman á neinn annan hátt.
Almenningur á íslandi er engu skárri. Meðvirkir aumingjar sem kjósa alltaf sama lyga og svikhyskið yfir sig þrátt fyrir að vita betur.
Heimska?
Já sennilega og afneitun hins heimska kjósanda ásamt öfgum í átrúnaði, svipað og ISIS liðar eða Bokum Harum liðar sem drepa alla sem neita að taka trú þeirra. Þannig er átrúnaðurinn á suma stjórnmálaflokka og foringja þerra.
Heimska.
Ekkert annað.
Ég ætla að láta þessu lokið núna því þetta er langt og leiðinlegt hjá mér, fullt af biturð og hatri út í einstaklinga og þjóðfélagið sem ól mig og ekki að ástæðulausu svo sem því það er bara staðreynd að þegar fólk hefur þrælað frá sér heilsuna eða er komið á aldur, er því hent eins og hverju öðru rusli, framfærsla þess skorin við nögl og jafnvel lífeyri þess stolið af stjórnvöldum svo það þarf að draga fram lífið á tekjum sem eru um eða undir sultarmörkum. Og reyni fólk að fá sér smá hlutavinnu til að drýgja tekjurnar er því öllu stolið jafnharðan og jafnvel meiru til.
Er nema vona að sjálfsmorðstíðni meðal sjúkra og aldraðra sé sú hæðsta í heiminum í dag miðað við höfðatölu?
Nei og þó ég hafi ekki mikið álit á Styrmi Gunnarssyni fyrrverandi ritstjóra Moggans þá er ég honum algjörlega sammála þegar hann sagði að þetta þjóðfélag væri ógeðslegt. Það var þá þá og er bara verra núna.
Því miður.
Það er undir ykkur sjálfum komið að laga ástandið en meðan þið horfið á stjórnmálaforingja eins og guði sem aldrei má hallmæla eða gagnrína, þá eruð þið engu betri en þeir öfgatrúar múslimar eða öfga kristnir sem þið hatist svo innilega við.
Hættið að horfa á flísina í augum annara en vinnið í því að ná bjálkanum úr ykkar eigin og farið að gera það sem gera þarf til að laga ástandið.
Það gerir það enginn fyrir ykkur.