Ég fékk þá fáránlegu flugu í hausin fyrir nokkrum misserum að gerast áhrifavaldur á netinu. Nota mér samfélagsmiðlana til að auglýsa vörur og þjónust og græða helling á því enda var maður alltaf að sjá fólk sem þénaði rosalega upphæðir fyrir að sýna sig með ákveðnar vörur, í þeim, étandi þær nú eða jafnvel sitjandi á prívatinu og dásama endaþarmseyðublöðin sem notuð voru í það skiptið til þerra eða skafa púströrið.
Ég fór á stúfana til að reyna að finna út hvað mundi passa fyrir mig að auglýsa svo ég kæmist í mjúkin hjá framleiðendum eða heildsölum. Gúgglaði eins og vitlaus maður, skoðaði myndir og auglýsingar en það var sama hvað dúkkaði upp, ekkert var þarna sem hentaði mér.
Það var reyndar ekki fyrr en ég var búinn að eyða einhverjum helvítis hellings tíma í þetta brambolt að ég komst að raun um þá staðreynd að gamall, feitur gráskeggur sem að auki er orðinn vel þunnhærður á höfðinu með sæmilegasta tunglskalla passar bara alls ekki með hinum samfélagsmiðlastjörnunum, sérstaklega ekki ef hann ætlar að auglýsa nærfatnað, hvort heldur það eru spídó, boxer eða strengur því þegar svona feitabolla eins og ég er komin í merkjavöruna þá gæti þetta alveg eins verið vara frá kínverskum svindlara, framleidd í bakherbergi í Sjanghæ því þegar maður er búinn að hisja þetta upp um sig þá lafir bumban yfir allar merkingar að framan og á síðunum en sumpart á bakinu líka og gerir þær af þeim sökum algjörlega ósýnilegar.
Held að framleiðendur mundu lítið borga fyrir slíkar auglýsingar.
Ekki tjári heldur að snúa baki í myndavélina því hálffalið húðflúrið í allri loðnunni mundi gera það að verkum að þegar maður mundi snúa andlitinu aftur til að setja sexí bros til að kóróna sköpunarverkið, ætti maður á hættu að flækja sítt hökuskeggið í hárvextinum á bakinu með tilheyrandi vandræðum þegar farið yrði að losa það.
Þegar öllu var svo á botnin hvolft komst ég endanlega að því að ég verð aldrei áhrifavaldur.
Menn á sextusaldri eru úti í dag, sérstaklega ef þeir eru öryrkjar og með heilsufarsvandamál já og feitabollur.
Það liggur við að maður öfundi String Emil, helvítis horrengluna þá arna.
Áhrifavaldar eru ungt fólk, helst ekki yfir þrítugu sem vita allt, kunna allt og geta allt.
Það er bara einn galli við þetta unga fólk að ef þeim mistekst þá er það ekki þeim að kenna heldur okkur þessum gömlu sem eyðileggjum alltaf allt fyrir þeim.
Þannig er heimurinn í dag.