Það er augljóslega eitthvað mikið að í því þjóðfélagi þegar almennir borgarar setjast niður og leiðrétta bullið, kjaftæðið, falsið og lygarnar úr því fólki sem stjórnar landinu, hagfræðingum sem viljandi falsa staðreyndir til fegra stjórnarherrana og fjölmiðlafólkið sem:
A: Hefur ekki getu eða skilning til að skrifa fréttir sem segja frá staðreyndum.
B: Eru trúir „sínu“ fólki í stjórnmálaflokkunum, leiðtogum þeirra eða eru gjörsamlega blindir á staðreyndir málana af því „foringinn hefur alltaf rétt fyrir sér“.
C: Nenna ekki að vinna vinnuna sína sómasamlega eða hafa einhverra harma að hefna á einstaklingum sem þora að tjá sig. (Það eru til þannig „blaðamenn“).
Nú dynja á okkur fréttir dag eftir dag um að jöfnuður á íslandi sé mestur í Evrópu og má svo sem alveg játa að eitthvað er jú til í því en þar sem fæstir blaða og fréttamenn virðast vera færir um að vinna sína vinnu, það er að upplýsa almenning um það sem satt er og rétt, fær almenningur kolbrenglaða mynd af raunverulegu ástandi í jöfnuðinum sem er hér á landi því staðreyndin er sú, að hæstu laun er svo lág í landinu að lægstu tekjurnar eru þar af leiðandi mjög nálægt þeim hæstu ef miðað er við önnur lönd í Evrópu.
Sem sé, bilið milli þeirra ríkustu og fátækustu er í raun ekkert svo mikið.
En þegar farið er að kafa dýpra í málið og skoða hvernig kaupmátturinn í þessum jöfnuði dreifist, þá kemur nefnilega ansi margt ljótt og skítlegt í ljós. Svo skítlegt að ALLIR ráðamenn og ráðherrar landsins þræta fyrir að það sé þeirra sök eða á ábyrgð þeirra að svo sé.
Ég ætla mér að sækja nokkrar athyglisverðar staðreyndir í pistil sem Sölvi Tryggvason skrifaði á vefmiðilinn Stundina í morgunn.
Þar segir meðal annars í þeim slitrum sem hér eru birtar að neðan:
Fyrir nokkrum vikum kom hópur erlendra fyrirtækjaeigenda og fjárfesta til Íslands. Fyrir þá var haldinn fundur sem ég sat. Þar tóku til máls íslenskir stjórnmálamenn, fjárfestar, fólk í viðskiptum og ferðaþjónustu. Einn rauður þráður var í málflutningi þeirra allra. Allt er á uppleið á Íslandi og það þarf að passa að ekki verði farið inn í nýtt tímabil ofþenslu. Með öðrum orðum, nýtt góðæri er byrjað og við þurfum að læra af reynslunni. Hagvöxtur á uppleið og kaupmátturinn með og efnahagskerfið byrjað að hitna. Hinir erlendu gestir hlýddu á það sem fram fór og virtist ekki brugðið, enda fólk sem er með puttann á púlsinum þegar kemur að hagtölum og miðað við þær var þetta eflaust svona sirka það sem þeir höfðu búist við að heyra.
——————————
Eftir nokkrar umræður þar sem ég leyfði mér að benda á að hinn venjulegi maður á Íslandi sæi hlutina einfaldlega í allt öðru ljósi var ég beðinn um að hitta hinn erlenda hóp síðar um daginn, þar sem þau höfðu áhuga á að heyra önnur sjónarmið en þau sem komu frá frummælendum á fundinum. Þar héldu umræðurnar áfram og sitt sýndist hverjum. Tölurnar töluðu sínu máli, á Íslandi væri kaupmáttur launa hærri en víðast hvar annars staðar samkvæmt opinberum tölum, hagvöxtur væri á uppleið og samkvæmt öllum hefðbundnum mælikvörðum værum við að komast mun hraðar og betur út úr hruninu en flestar aðrar þjóðir. Þegar gengið var á mig með þessar tölur voru ekki nema tvær augljósar útskýringar eftir:
1) Íslendingar eru heimtufrekir og vanir að hafa það of gott.
2) Skipting verðmætanna er svo ójöfn að meðaltalstölur segja í besta falli lítið brot af sögunni.
——————————–
Það er sannleikskorn í fyrri skýringunni, enda höfum við vanist ansi miklum lífsgæðum miðað við íbúa flestra annarra landa. En ég held að það sé gífurleg einföldun að klára málið með þeirri skýringu einni. Það eru engin haldbær rök fyrir því að við eigum að bera okkur saman við milljónaþjóðir þar sem litlum eða engum náttúruauðlindum er til að dreifa. Staðreyndin er einfaldlega sú að misskipting á Íslandi er að aukast hröðum skrefum og kaupmáttur hins venjulega vinnandi manns er bara alls ekkert að aukast þó að meðaltalið sé að hækka.
———————————
Stjórnmálamenn hafa í áraraðir leyft sér að tala um meðaltalstölur kaupmáttar, án þess að víkja svo mikið sem orði að því hvað býr að baki tölunum. Annað hvort vita þeir ekki betur, eða þeir eru vísvitandi að blekkja. Hvoru tveggja er alvarlegt.
———————————
Nóbelsverðlauna-hagfræðingurinn Joseph Stiglitz hefur bent á nákvæmlega þetta. Að kaupmáttur millistéttarinnar hafi ekkert hækkað í meira en tuttugu ár og að hagur þeirra sem eru fyrir neðan miðju hafi ekki vænkast í nærri hálfa öld. Allur kaupmáttur hefur með öðrum orðum skilað sér til hinna ríkustu. Við erum að tala um tímabil sem inniheldur innreið internetsins og meiri framfarir í tækniþróun en nokkurn tíma í mannkynssögunni. En öll hagræðing og framþróun hefur skilað sér í veski þess hóps sem mest á. Fyrir meira en helming fólks hefur nákvæmlega engu máli skipt hvað kaupmáttur hefur hækkað mikið að meðaltali síðustu áratugi, þar sem ekkert af því skilar sér til þess hóps. Hagfræðingarnir Thomas Piketty og George Packer hafa bent á þetta sama. Hvernig kjör lægri- og millistétta hafa í raun versnað á undanförnum þremur til fjórum áratugum. Það er nákvæmlega þetta sem hefur gerst á Íslandi. Meðaltalið hækkar, en venjulegt fólk finnur ekki fyrir því, þar sem öll hækkunin skilar sér í efstu lögin.
———————————
Samkvæmt nýlegri lífskjararannsókn Hagstofunnar er jöfnuður á Íslandi með því mesta sem þekkist í hinum vestræna heimi. En einhverra hluta vegna upplifir venjulegt fólk hér á landi samt bara alls ekki að hér ríki jöfnuður. Sú upplifun er ekki veruleikabrenglun. Þó að þeir sem sjá um að skapa verðmætin og halda uppi framleiðslunni á Íslandi séu upp til hópa á nokkuð svipuðum launum, hefur það lítið að segja ef elíta örfárra manna hirðir sífellt stærri hluta kökunnar. Auðurinn og arðurinn skilar sér ekki til hins venjulega manns. Ríkasta eitt prósentið á Íslandi á 244 þúsund milljónir króna í hreinni eign, eða um fjórðung allra eigna í landinu.
Ísland telur rétt um 330 þúsund hræður, hefur ofgnótt raforku, ókeypis heitt og kalt vatn, sjávarútveg sem gæti fætt margfaldan fjölda þjóðarinnar og fær í heimsókn milljón ferðamenn á ári. Samt á meira en helmingur þegnanna minna en 750 þúsund krónur, 30% eiga minna en ekkert (eru í mínus), tíundi hver maður er undir fátæktarmörkum og venjulegt launafólk þarf að hugsa um hverja krónu. Ef reiknaðar yrðu út eðlilegar meðaltekjur á Íslandi miðað við sæmilega jafna skiptingu þess sem landið skaffar yrði útkoman sennilega tala sem flest venjulegt fólk myndi hoppa hæð sína yfir.
———————————-
Það þarf ekki nema örstutt samtal við venjulegt vinnandi fólk á Íslandi árið 2015 til að átta sig á því að vaxandi meðal-kaupmáttur og einstakur jöfnuður eru ekki það sem flest fólk upplifir á eigin skinni. Þvert á móti er sundrungin að aukast. Fólkið er ekki firrt. Excel-skjölin segja einfaldlega ekki alla söguna.
Ég hvet fólk til að lesa allan pistilinn til að fá heildarsýn á það sem Sölvi er að segja þarna því það er svo þess virði og sýnir ráðamenn þjóðarinar og taghlhnýtinga þeirra í réttu og sönnu ljósi.
En það má ekki bara taka þetta fyrir því stjórnarherrarnir passa sig á því að sýna bara út á við hvað þeirra aðgerðir eru frábærar, sbr. þá frétt í morgunn að tekjur einstaklinga af arði nema tæpum 30 milljörðum króna og hækkar sú upphæð um ríflega helmning milli ára. Þetta er meðal þess sem kemur fram í upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu.
Fleira „jákvætt“ kemur fram í þessum gögnum en ekkert neikvætt, enda ekki við því að búast hvort sem er með þann gjörspillta fjármálaráðherra sem nú situr við völd því það er ekkert minnst á þá sem fá bakreikinga frá skattinum og Tryggingastofnun Ríkisins.
Fjölmiðlum ber skylda að kafa rækilega ofan í þessi mál og blaðamenn þurfa að fara að vinna sína vinnu, hvort sem þeir nenna því eða ekki og flytja raunverulegar fréttir en ekki láta duga að birta tilkynningar ráðaneytana, ráðerra og opinberra stofnana gagnrýnislaust eins og þeir gera í 99% tilfella og hjálpa þannig siðblindum, óheiðarlegum og síljúgandi ráðamönnum að blekkja almenning í landinu eins og nú er.
Það er því miður ekki einn einasti fjölmiðill í landinu sem er 100% treystandi en það eru örfáir fjölmiðlamenn sem hægt er að treysta. En þeir eru teljandi á fingrum annarar handar sem stunda vinnu sína af heilindum, heiðarleika og vandvirkni.
Restin er að mestu leiti rusl.