Mikið hefur verið fjallað um blæðandi vegi að undanförnu á norðurlandi og spannar svæðið sem um ræðir allt frá Hrútafirði í vestri og langleiðina til Akureyrar. En hvað veldur þessari blæðingu og hvers vegna er þetta aðeins bundið við þetta eina svæði?
Skýringar vegagerðarinnar eru satt best að segja broslegar og í versta falli heimskulegar svo ekki sé meira sagt. Ein er sú að umhleypingum sé um að kenna, það frjósi og þiðni á víxl og og að vegasöltun hafi þessi áhrif á klæðninguna.
En af hverju bara þarna? Það hafa verið umhleypingar um allt land og þar er líka saltað. Svona skýringar falla því um sjálfar sig á núll komma einni.
Skýringana er svo sem ekki langt að leita, því á heimasíðu vegagerðarinnar er skjal þar sem lýst er nokkuð nákvæmlega hvernig efni eru í íslenskum vegaklæðningum. ,,Sérfræðingum“ vegagerðarinnar væri nær að skoða það og kanna hvar klæðningar með þessum efnum hafa verið notaðar og þá er kanski stutt í niðurstöður þeirra út frá því.
Það er nefnilega þannig að gerðar hafa verið tilraunir með að blanda tjöruna sem notuð er til að klæða vegina með íslenskum olíum eins og repjuolíu, steikingarolíum og fiskolíum til að mýkja tjöruna. Gæti ekki verið að þar sé skýringin komin á bæðingunum? Að þessi íslenska íblöndunarolía þoli hreinlega ekki það veðurfar sem hér er og þegar álagið er komið á ákveðið stig skilur hún sig frá tjörunni og flýtur upp á yfirborð vegarinns með þeim afleiðingum sem maður hefur séð í fréttum undanfarið?
Mín persónulega skoðun er sú, eftir að hafa skoðað skjalið frá vegagerðinni, að þetta sé skýringin þar sem þessar blæðingar eru svo staðbundnar. Miklar og góðar upplýsingar eru í þessu skjali sem augljóst er, að ,,sérfræðingar“ vegagerðarinnar hafa ekki skoðað miðað við þær útskýringar sem þeir hafa gefið fjölmiðlum.
Í skjalinu eru einnig myndir af yfirborði klæðinga og þar sést einnig að það er ekkert fínefni til að binda yfirborð vegarins, aðeins er notast við malað efni sem er frá 8 til 12 mm kornastærð oghefur þar af leiðandi enga bindingu. Svona ,,groddi“ er að auki stórhættulegur meðan klæðningin er ný, því þyngdin á svona grjóti sem kemur fljúgandi í framrúðu bíls eða ljós er gífurlegur og skilur eftir sig miklar skemmdir. Vöntun á fínefni,
0,5 til 2 mm þyrfti að vera amk 50% af yfirborðsklæðningunni til að fá bindingu og festu í tjörudrulluna en út í það er ekkert hugsað.
Í Noregi er búið að banna svona klæðningar á vegum nema í algerum neyðartilfellum. Allir aðalvegir eru lagðir almennilegu asfalti sem er að minnsta kosti 25 til 30 cm þykkt. ESB gerir ákveðnar kröfur til uppbyggingu vegakerfa og lagningu slitlags á þeim og án þess að hafa kynnt mér lögin um það nógu vel er samt nokkuð ljóst að íslenska vegagerðin er ekki að fara að þeim lögum. Íslenska vegakerfið er enn byggt upp samkvæmt lögum frá 1958 varðandi burðarþol og uppbyggingu, eða var það alla vega fyrir um áratug síðan. Kröfurnar sem ESB gerir varðandi vegi sem bera mikla þungaflutninga hafa ekki verið teknar upp hérna þrátt fyrir að reglugerðarverkið skelli öllum laga og reglugerðum sem snúa að ökumönnum flutningabifreiða og bifreiðunum sjálfum um leið og ESB gefur þær út en þegar kemur að þeim sjálfum er slíkum lögum og reglum stungið undir stól og samt liggur þó stæðsti öryggisþátturinn í vegakerfinu sjálfu.
Skjalið er hægt að skoða eða sækja með því að smella hérna.