Getur verið að tíðinda sé að vænta af Reykjanesinu á næstunni og getur verið að það séu tengsl á milli Bárðarbungu, eldanna í Holuhrauni og því ástandi sem þar er í gangi og svo því sem nú er að gerast á Reykjanesi?
Það er von að maður spyrji sig, því í ljósi síðustu atburða, þá hefur dregið talsvert mikið úr gosinu í Holuhrauni en á sama tíma sígur askjan í Bárðarbungu um að meðaltali hálfan meter á dag og er nú sigin um 24 metra frá því mælingar á henni hófust.
Í dag bar svo nýrra við þegar Gunnhver á Reykjanesi varð allt í einu gjörsamlega ofvirkur, með iðrakveisu og tilheyrandi gubbupest því loka varð svæðinu og útsýnispalli í dag vegna hættuástands sem þar skapaðist, þar sem leirgusurnar ganga marga metra í loft upp úr vellandi hvernum.
Þegar horft er yfir hverasvæðið við Gunnuhver vekur athygli að nær engin gufuvirkni er á svæðinu nema við sjálfan Gunnuhver eins og sjá má í myndskeiði sem Hilmar Bragi, myndatökumaður Víkurfrétta, tók á Reykjanesi nú undir kvöld. Við Gunnuhver sjálfan er hins vegar mikil virkni. Þar má m.a. sjá hvar gamall trépallur er að falla ofan í hverinn.
Þetta er nokkuð athyglisvert og vekur upp spurningar hvort það geti verið að þarna séu bein tengsl á milli?
Við skulum hella okkur út í vísindin og skoða aðeins grunninn í þessu öllu saman til að átta okkur betur á því sem er að gerast í dag.
Fyrir það fyrsta verðum við að átta okkur á því að ísland liggur á einum virkasta hluta Atlantashafshryggjarins og varð á sínum tíma til vegna eldgosa í sprungunni sem með tímanum myndaði landið og landgrunnið sem liggur út frá því.
Myndin hér til hliðar sýnir vel hvernig ísland hefur myndast og þróast í gegnum nokkrar milljónir ára og það minnir okkur líka á að við lifum á virku eldfjalli með mörgum gígum, virkum og óvirkum.
Í talsverðan tíma hafa vísindamenn spurt sig þeirrar spurningar hvort mögulegt geti verið að ísland sitji á því sem kallast möttulstrókur og þess vegna sé sá hluti hryggjarinns sem ísland hefur myndast á mikið virkari heldur en önnur svæði hryggjarins til suðurs og norðrs.
Mikið gæti verið til í því og nýjustu rannsóknir benda meira að segja til að svo sé enda ekki hægt að skýra stærð landsins af neinu öðru en þeirri gífurlegu eldvirkni sem slíkir möttulstrókar framkalla ólíkt því sem gerist á öðurm svæðum á hryggnum.
Nóg um það. Til þess að útskýra þetta betur þarf að horfa á legu hryggjarins um Ísland til að sjá hvernig jarskjálftar og eldvirkni helst í hendur.
Það gerist þegar Atlantshafshryggurinn gliðnar vegna hreyfinga jarðskorpuflekana sem fljóta á glóandi yfirborði bráðinna bergtegunda marga kílómetra undir fótum okkar. Það verður til þess að landið gliðnar og það myndast sprungur í berginu, (nákvæmlega það sem er að gerast í Bárðarbungu og svæðinu þar fyrir norðan). Sprungurnar ná yfirleitt ekki upp á yfirborðið fyrr en spennan er orðin gífurlega mikil og dæmi um slíka jarðskjálfta eru frá því eftir aldamótin 2000 á suðurlandi þar sem skemmdir urðu á mannvirkjum og miklar sprungur mynduðust á láglendi.
Nú erum við að horfa á slíka spennulosun á miðhálendinu og þar norður af. Á síðastu árum hafa einnig verið miklar jarðskjálftahrinur út af norðurlandi, í Skjálfandaflóa og austan og norðan Grímsey.
En aftur að Reykjanesi og Gunnuhver.
Þessi skyndilega virkni er hvernum er meira en lítið dularfull því engin skjálftavirkni hefur verið í gangi á Reykjaneshrygg eða svæðinu þar suðvestur af eða til norð austurs.
Hvað er þá að gerast á svæðinu í kringum Gunnuhver og hvað er það sem veldur því að hann fer að gjósa með því offorsi sem hann gerir, nánast algerlega upp úr þurru og án þess að nokkur skjálftavirkni hafi mælst á svæðinu langt til austurs og vesturs, suðurs eða norðurs?
Skoðum nú hvernig skjálftasprungunetið á íslandi liggur í meginatriðum. Það liggur að mestu frá vestanverðum Húnaflóa í vestri að Þistilfirði í austri og þaðan suður undir Vatnajökul í mjúkum sveig yfir á suðurlandið.
Á miðhálendinu breiðir það úr sér til vesturs, alla leið í Norðurárdal í Borgarfirði. Sprungusveimur liggur síðan dreifður út á Snæfellsnes en frá norðanverðum vesturjöklum, Hofsjökli og Langjökli liggur brotabeltið í suðvestur og síðan vestur út Reykjanesið.
Öll eru þessi sprungubelti þó tengd innibyrgðis því undir öllu heila klabbinu liggur sjálfur Atlantshafshryggurinn sem Ísland myndaðist á.
Aftur að kenningu vísindamanna að kvikustrókunum eða möttulstrókum sem rætt hefur verið um því þeir eru gífurlega öflugir og eitt best þekka dæmið um Supervolcano eða ofureldstöð er hinn frægi Yellowstone þjóðgarður í Bandaríkjunum en það er talið að í fjallahringnum sem umlykur hann leynist einmitt ofureldstöð sem gæti orðið virk og farið að gjósa hvenær sem er.
Yellowstone er á svæði sem spannar 8,983 ferkílómetra. Frá norðri til suðurs er hann 101 km og frá austri til vesturs er hann 87 km og má því sjá hverslags hamfaragos gæti orðið þar ef svo óheppilega vildi til að þar færi að gjósa.
En aftur að Íslandi og því sem þar er að gerast, því við erum að tala um gosmöttul sem gæti verið að valda gosinu í Holuhrauni og þar suður af.
Spurningin er aftur sú, hvort þessi gosmöttull sé í raun undir miklu stærra og víðtækara svæði heldur en Bárðarbungu einni og sá þrýstingur sem hann veldur sé að hafa áhrif á Gunnuhver á Reykjanesi?
Sé svo, þá er það eitthvað sem þarf að skoða nánar og það sem fyrst því sé tenging þar á milli, þá getur allt farið af stað á Reykjanesinu með mjög skömmum fyrirvara.
Ég vona að ég sé ekki að setja af stað eitthvað panik í fólk með þessu, en miðað við það sem er í gangi og svo þessi fyrirvaralausa virkni í hver á Reykjanesi, þá datt mér að setja þessar hugleiðingar í blogg og birta áhugasömum.