Það er alveg komin tími til að setja lög á verkfall sjómanna og stoppa þessa vitleysu og frekju sem einkennir útgerðirnar og SFS í þessari deilu.
Útgerðirnar geta beðið út í það óendanlega ef þeim sýnist svo því að er engin hvati fyrir þær að semja um þau kjör sem sjómenn setja fram.
Gunnar Ingiberg, þingmaður Pírata kom inn á þetta í ræðu á alþingi á dögunum og segir meðal annars:
Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið liggur fyrir beiðni um skýrslu um áhrif af verkfalli sjómanna. Útsvarstekjur sveitarfélaga dragast saman, flutningsrekstur finnur fyrir miklum þrengingum í verkefnastöðu, minni fiskvinnslur án útgerðar eru hráefnislausar. Fiskvinnslufólk er sett á atvinnuleysisbætur vegna hráefnisskorts og ferskur fiskútflutningur er í lágmarki.
Langtímasamningar útgerðarinnar eru að einhverju leyti í húfi en í aflamarkskerfinu eins og það er uppsett í dag er í raun enginn hvati fyrir útgerðina til að semja þrátt fyrir allt ofangreint. Útgerðarmenn geta gengið að því vísu að þegar verkfalli lýkur er kvótinn eftir. Í raun snýst þetta bara um það að sækja meira magn á styttri tíma.
SFS rýfur svo fjölmiðlabann og samhliða krefur Guðmundur í Brimi stjórnvöld um aðgerðir hið snarasta með greinaskrifum sínum. Ég hef því hugmynd sem ég varpa fram í ljósi stöðunnar. Ég legg til að veiðar á bátum undir 12 metrum og 15 tonnum verði gefnar frjálsar fram að lokum verkfalls. Ef raunverulegar áhyggjur stjórnvalda og þingheims eru þær að minni fyrirtæki og stoðgreinar liggi að veði í deilunni getum við með þessum hætti liðkað til, fært landsbyggðinni örlitla björg í bú. Jafnframt held ég að samninganefnd útgerðarinnar semji á mettíma, eða eins löngum tíma og tekur að boða og setja fund. Með þeirri aðferð stígum við ekki á samningsrétt aðila deilunnar. Þarna höfum við lausn á hnútnum sem færir ekki útgerðarmönnum uppfylltar kröfur þeirra á silfurfati. Ef fiskvinnslurnar fá hráefni er síður hægt að beita starfsfólki fiskvinnslustöðvanna sem vopni gegn sjómönnum.
Ég er með tillögu til að klippa á deiluna og setja útgerðunum stólinn fyrir dyrnar.
1: Skiptahlutur verður 50% af óskiptum afla sem komið er með að landi.
2: Olíukostnaður sjómanna verði lækkaður úr 30% í 20%
3: Útgerðin sjáí alfarið um fæðiskostnað sjómanna og hlífðarfatnað sem sjómenn nota við sína vinnu.
4: Nýsmíðagjald á sjómenn verði aflagt með öllu.
Það er í raun fáránlegt í alla staði að sjómenn skuli taka þátt í olíu og kvótakaupum eða kvótaleigu á skipum sem þeir starfa á.
Annað hvort þetta sem lög frá alþingi eða útgerðarmenn komi að borðinu og semji strax