Aðalheiður Davíðsdóttir sem missti fjögurra ára son sinn í sumar hefur undanfarið safnað fyrir sérstöku sjúkrarúmi sem ætlað er langveikum börnum. Þetta gerir hún í minningu sonar síns sem lést 04-07 2016 vegna heilablæðingar af völdum Lennox-Gastaut heilkennisins.
Aðalheiður segir á Facebokksíðu sinni:
Ég átti hinn yndislega son minn, Aron Hlyn, í rúm 4 ár. Þegar hann fæddist, 07.03.12, þá virtist hann heilbrigður. En þegar hann var um 9-10 mánaða gamall þá greindist hann flogaveikur. Hann lést, 04.07.16, af völdum heilablæðinga. En þá var nýlega búið að greina hann með Lennox-Gastaut heilkenni.
Ég stofnaði minningarsjóð um hann á mínu nafni til að safna fyrir sérstöku rúmi (eins og sést á meðfylgjandi mynd) á barnaspítalann. Það er hægt að hækka það og lækka, eða bara höfuð eða fótamegin í rúminu. Það er með háum grindum sem varna því að barnið fari sér að voða. En jafnframt er hægt að opna grindurnar beggja vegna við barnið til að sinna því. Aron átti svipað rúm heimafyrir og því voru litlar áhyggjur hjá mér eftir að hann var kominn í rúmið.
Minningarsjóðurinn er kominn í rúmar 500.000 krónur en ég fæ rúmið ekki ódýrara en 800.000 krónur. Ég sjálf er öryrki, eftir bílslys sem ég lenti í árið 1996, og hef ekki mikið á milli handanna.
Því biðla ég til þín sem lest þetta að setja eitthvað inn á sjóðinn minn til að raunhæft verði að ég geti gefið barnaspítalanum þetta rúm.
Reikningsnúmerið er 537-14-407916 og kennitalan mín er 261083-3969.
Ég vil endilega hvetja alla til að leggja söfnuninni lið þar sem rúmið er komið til landsins en það vantar enn tæplega 300. þúsund til að hægt sé að leysa það út.