Það er deginum ljósara að Ólafs Ragnars Grímssonar verður minnst sem forsetans sem sveik þjóð sína með einu af sínum síðustu embættisverkum þegar hann skipaði nýja ríkissjórn í dag á Bessastöðum undir forsæti Sigurðar Inga Jóhannssonar, ríkisstjórn sem hefur fengið viðurnefnið „Stigamannastjórnin“ eftir yfirlýsingu Bjarna og Sigurðar í alþingishúsinu í gærkvöldi.
Vísir.is greinir svo frá:
Ríkisráðsfundi lauk rétt í þessu. Þar með hefur ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar tekið við störfum. Fundurinn hófst rúmlega þrjú að loknum síðasta ríkisráðsfundi ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.
Eins og fram hefur komið tók nýr ráðherra við störfum, Lilja Alfreðsdóttir en hún verður utanríksiráðherra. Gunnar Bragi Sveinsson fer í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Glöggir taka eftir því að þar með eru kynjahlutföll í ríkisstjórninni orðin jöfn, fimm konur og fimm karlar. Síðast var jafnt kynjahlutfall í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, það var í fyrsta sinn í sögunni.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er því formlega orðinn fyrrverandi forsætisráðherra en Framsóknarflokkurinn samþykkti tillögu um afsögn hans fyrir tveimur dögum.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra kom ekki á ríkisráðsfund í dag eins og sést. Hún glímir við veikindi þessa stundina en hefur tekið þátt í fundahaldi þingflokks Sjálfstæðismanna undanfarna daga.
Það er því ljóst að almenningur í landinu situr uppi með gjörspillta ríkisstjórn þrátt fyrir kröfuna um afsögn hennar og kosningar strax eins og þúsundir hafa farið fram á í mótmælum undanfarna daga.
Það er algjörlega dagsljóst að það verður enginn friður á alþingi út þetta kjörtímabil því fólk mun halda áfram að mótmæla því að gjörspilltir og siðvilltir einstaklingar muni sitja áfram í stóli ráðherra til að koma sínum „mikilvægu“ málum í gegnum þingið, með illu einu, því það verður aldrei samstaða um þau mál sem þessi ríkisstjórn ætlar sér að koma í gegn áður en kosið verður á ný.
Ólafur Ragnar Grímsson sveik almenning í landinu með þessu og ljóst að sagan mun dæma hann. Það verður fróðlegt að sjá hvaða mat erlendir fjölmiðlar gera sér úr þessu því nú þegar hefur TV2 í Danmörk sýnt og sannað með sínum fréttaflutningi að ísland sé í raun ekkert annað en bananalýðveldi.
Nú þarf krafa almennings um þingrof að verða enn skýrari því það er ekki hægt að láta það viðgangast lengur að siðvillingar og gjörspilltir aflandseigiendur sitji í stóli ráðherra og hafi öll völd þingsins í höndum sér með frekju og yfirgangi. Stjórnarandstaðan á ekkert vopn gegn þessari frekju nema málþóf og vonandi verður það notað sem mest í öllum málum sem „Stigamannastjórnin“ leggur fram í valdatíð sinni.
Styðjum stjórnarandstöðuna og mótmælum framan við þinghúsið á hverjum einasta degi þar til þessari óstsjórn hefur verið komið frá völdum.