Nú stíga fram þingmenn ríkisstjórnarflokkana og eru stórhneykslaðir á framúrkeyrslu ríkisstofnana á fjárlögum síðasta árs. Tala um stjórnendur stofnana sem séu ekki starfi sínu vaxnir og ættu að finna sér annað að gera. Fremstir í flokki fara Pétur H. Blöndal og Guðlaugur Þór Þórðarson sjálfstæðismenn og vilja þeir meina að þær stofnanir sem hafa farið fram úr fjárhagsheimildum fái ekki auknar fjárveitingar og þurfi því að skera niður og hagræða hjá sér til að standast fjárlög.
Talandi um óhæfa stjórnendur ættu þessir tveir einstaklingar að líta í eigin barm áður en þeir fara að kalla forstjóra þessara stofnana á teppið og skammast í þeim út af framúrkeyrslunni. Þeir ásamt formanni fjárlaganefndar eru nefnilega raunverulegu sökudólgarnir, hinir raunverulegu óhæfu stjórnendur. Það eru nefnilega þeir, eða öllu heldur „þau“ sem útdeila fjármagni til reksturs þessara stofnana og þegar svo naumt er skammtað að það dugar ekki fyrir daglegum rekstri þá fer rekstrarreikningurinn í mínus.
Hroki þessa fólks ríður ekki við einteyming.
Það sjá allir sem reka heimili á strípuðum örorkubótum, 164 þúsund og einhverjar krónur að auki á mánuði að dæmið gengur ekki upp þegar leigan er 125 þús og aðrir reikningar 25 þúsund. Þá er tæpur 14 þúsund kall eftir fyrir viðkomandi til að kaupa mat út mánuðinn.
Það þarf engan stærðfræðing til að sjá að það gengur ekki upp ef við miðum við að einstaklingur þarf amk 30 þúsund á mánuði í matarinnkaup.
En er nema von að þetta fólk í fjárlaganefnd hafi einhvern skilning á þessu?
Nei.
Það er gjörsamlega borin von enda veit þetta lið ekki aura sinna tal og hefur aldrei verið í þeirri stöðu að svelta helminginn af mánuðinum eins og svo margir lífeyrisþegar gera í dag.
Og talandi um óhæfa stjórnendur, þá sitja þeir sem fastast í þeim nefndum sem skaffa sjúkratryggingum, Landspítalanum og vegagerðinni þá fjármuni sem duga ekki til reksturs þessara stofnana.
Einu raunverulegu stjórnendurnir sem eru gjörsamlega vanhæfir heita Vigdís Hauksdóttir, Guðlaugur Þór og Pétur Blöndal.
Það sér hver heilvita manneskja.