Ég skal alveg játa það að ég er ekki alveg tilbúinn til að trúa því að hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, ljúgi vísvitandi að þjóðinni í ræðum sínum og ritum, en því miður lítur ekki út fyrir annað en það sé samt sem áður staðreynd.
Ragnar Árnason, hagfræðiprófessor, segir í frétt á Viðskiptablaðinu þann 9. maí, 2012, að kvótakerfið á íslandi hafi aukið aflaverðmæti íslensks fisks og aukið útflutningsverðmæti íslenskra sjávarafurða um 30 til 50% að raunvirði frá árinu 1993.
Þetta er dálítið furðulegt og í raun stangast algerlega á við það sem kemur fram í upplýsingum frá Hagstofu Íslands, en þar er vísað í graf sem sýnir allt annað. Ef miðað er við verð í raunmati frá 1993, þá hlýtur það að hafa lækkað, því það sem grafið sýnir er raunverð á hverju ári frá 1993 fram til ársins 2014.
Nokkrir trúverðugir aðilar hafa deilt þessari grein ásamt grafinu á fésbók og velt því fyrir sér hvað mannorð einstaklings sé mikils virði í peningum talið frá ákveðnum hagsmunaaðlium sem verða til þess að menn í stöðu Ragnars slátra mannorði sínu með því að segja ekki satt og rétt frá staðreyndum.
Eftir að hafa lesið greinar og pistla eftir Ragnar um ýmis málefni tengd sjávarútvegi, þá efast ég hreinlega um trúverðugleika hans því það er svo ótalmargt sem hreinlega stenst ekki hjá honum.
Hver og einn getur dæmt um það sjálfur eftir að hafa kynnnt sér það sem hann hefur skrifað og fjallað um í kringum sjávarútvegsmál.
Ég get ekki trúað svona fólki eða treyst neinu sem frá því kemur.