Þegar ég settist við tölvuna með kaffibollan í morgun og renndi yfir fésbókina fór ég að velta því fyrir mér hvernig það væri að hafa efni á því að ferðast meira um nærumhverfið þar sem ég bý enda er allt morandi hér í sögufrægum stöðum í 50 til 100 km radíus svona fyrir utan óteljandi staði með afþreyingu, skoðunarferðum og ýmsu öðru áhugaverðu.
Það er td. ekkert langt héðan á Amerískan hestagarð þar sem hægt er að fara í stutta reiðtúra á Amerískum hestum nú eða allt í hálfs mánaðar ferðalög um óbyggðir Sænskra skóga þar sem reynt er að gera upplifunina sem líkasta því sem þekkt var fyrir 200 árum eða svo þó svo nútímaþægindi fylgi með í viðlegubúnaði. Einstök upplifun segja þeir sem reynt hafa.
Svo er hægt að fara í riverrafting á timburflekum í anda Mark Twain þar sem lygn Klarälven fleytir þér á löngum, breiðum og lygnum árfarveginum í nokkra daga. Einnig hægt að sigla á ánni á bátahúsum sem eru mjög vinsæl hér í Svíþjóð en einnig á hraðbátum af ýmsum stærðum og gerðum.
Svo eru allir fjölskylduviðburðirnir líka þar sem heilu bæjarfélögin standa að dagskrá nánast um hverja helgi allt sumarið með útimörkuðum, skemmtunum fyrir börn og fullorðna ásamt ýmsu öðru.
Mótorhjólatreff þar sem mótorhjólaklúbbar bjóða öðrum klúbbum í teiti eða til að halda upp á merka áfang í sínu starfi eða eins og núna þegar nokkrir klúbbar eru að halda upp á að hafa starfað í 30, 40 og 50 ár samfleytt en ég veit um amk fimm slíka viðburði í sumar og er einn í gangi þessa helgina svo dæmi sé tekið.
Ástæða þess að ég fór að hugleiða þetta og spekúlera í því af hverju ég sit heima flesta daga og láta hjólið safna ryki niðri í bílskúr eru peningar.
Að hafa efni á að fara eitthvað og gera eitthvað er það sem stoppar mig af eins og svo marga sem eru í mínum sporum og þó það sé ódýrara að lifa hér í Svíþjóð en á íslandi þá eru örorkubæturnar svo skammarlega lágar að maður verður bara að velja og hafna þegar kemur að lífinu og það er ekkert mikið eftir þegar búið er að borga skuldir, húsaleigu og reikninga.
Stundum tekst ekki að borga allt sem fyrir liggur og þá þarf maður að neita sér um að fá að lifa.
Gjörningur Báru Halldórsdóttur á dögunum náði að opna augu einhverra fyrir því hvernig dæmigert líf öryrkja er í hnotskurn en þar sat Bára í búri í þrjá daga og sýndi fólki hvernig dæmigert líf öryrkja sem hefur ekki mikið milli handana er auk þess sem hún þarf að borga dýru verði fyrir „góðu“ dagana í lífi sínu, þegar hún kemst út úr húsi og nær að vera virk þá koma yfirleitt nokkrir dagar á eftir þar sem hún er nánast rúmliggjandi vegna verkja og sjúkdóma.
Almenningur skilur ekki svona og vill það í raun ekki því þetta er eitthvað sem það sjálft vill ekki upplifa eða kynna sér.
Ég er sjálfur þannig að ég er ekkert að flíka slæmu dögunum hjá mér og því getur oft verið löng þögn og myndleysi frá mér á samfélagsmiðlum þegar maður hefur hvorki andlega né líkamlega heilsu til að láta illa gefna drullusokka ráðast á sig með dylgjum og lygum því þeir vita jú meira um mig en ég og mínir nánustu ásamt þeim læknum sem hafa haft mig til meðferðar. Þetta hefur einnig orðið til þess að ég hef dregið mig út úr mörgum umræðum um málefni okkar öryrkja og skrif mín hafa einnig minnkað til muna því þegar þeir sem maður er að berjast fyrir að kjörin verði bætt hjá, ráðast að manni með lygum, dylgjum og svívirðingum þá hefur maður hreinlega engan áhuga á því að vinna að bættum kjörum fyrir þannig fólk.
En ég er náttúrulega kominn út í holt og móa eins og venjulega þegar ég er að skrifa enda hugurinn á endalausu spani eins og venjulega.
Ég var sem sé að fara yfir fésið í morgun og Instagram og það skaut upp í hugan að það er virkilega til fólk þarna úti sem þarf aldrei að kíkja inn á heimabankann hjá sér eða yfir höfuð að spá í hvort það hefur efni á því sem það er að kaupa eða gera. Það einfaldlega dregur upp kortið og borgar.
Ég öfunda það fólk stundum svolítið en vorkenni því á sama tíma því þegar upp er staðið missir þetta fólk með tímanum verðmætamatið á því sem það þarfnast og því sem það getur veitt sér aukalega án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því.
Við öryrkjar erum í allt annari stöðu því við þurfum oftar en ekki að velja á milli þess hvort við eigum að borga reikninga eða eiga fyrir mat og lyfjum.
Þess vegna fer ég lítið meira en ég nauðsynlega þarf til að eyða ekki bensíni í óþarfa.
Þess vegna fer ég ekki á bæjarhátíðir eða tónleika né heldur í skoðunarferðir á merkilega staði.
Þess vegna sit ég heima og reyni að fá tíman til að líða fram að næstu útborgun.
Ég lít þannig á þetta að öryrkjar eru fastir í búri fátæktar og heilsuleysis fátæktar sem ríkisstjórnin hefur læst okkur inn í og ætlar að svelta okkur þar til bana.
Við erum þegar upp er staðið, ansi mörg sem erum Bára í búri.