Það koma alltaf dagar í upphafi mánaðar þar sem maður veltir því fyrir sér til hvers maður sé að rembast við það strögl að halda sér á lífi þegar maður er búinn að borga þá reikninga sem maður getur borgað á þeim lúsarbótum sem ríkið skammtar manni. Vanskilin halda bara áfram að aukast og maður getur ekkert gert til að sporna við því þar sem tekjurnar duga ekki fyrir útgjöldunum og þaðan af síður að maður hafi efni á mat eða lyfjum út mánuðinn.
Þetta er sá raunveruleiki sem blasir við þúsundum íslendinga á hverjum degi og ástandið er bara að versna.
Frá 2009 fram til dagsins í dag hefur kaupmáttur öryrkja og aldraðra aðeins aukist um 1% meðan kaupmáttur á almennum launamarkaði hefur aukist um rúm 15%. Þingmenn og ráðherrar fengu á síðasta ári 55% hækkunn á sín laun og hvað eftir annað höfum við séð kjörna fulltrúa almennings á alþingi ráðast á kjör aldraðra og öryrkja með þeim rökum að hækkunn á þeirra tekjum kosti þjóðfélagið of mikið. Skammsýnin og heimskan allsráðandi meðal þessa fólks sem gerir sér ekki grein fyrir að það kostar þjóðfélagið fleiri milljarða á ári að halda fólki í fjötrum fátæktar og eymdar heldur en hitt.
Hætt er við að þetta eina prósent sem öryrkjar og aldraðir hafa fengið á þessum átta árum hverfi og kaupmátturinn fari í mínus prósentu á næstu dögum eða vikum því nú er allt að hækka. Húsaleiga, rafmagn, hiti, vatn og allt annað sem fólk þarf að greiða fyrir í nútímasamfélagi.
Í fljótu bragði sýnist mér sú tala fara í -5% á fyrstu þrem mánuðum þessa árs.
Þingmenn og ráðherrar fengu 55% launahækkunn á síðasta ári. Öryrkjar fengu 9,7%.
Yfirfært í krónur og aura, þá fengu þingmenn um 450. þúsund í hækkunn, ráðherrar um 640 þúsund en öryrkjar og aldraðir þetta frá 9,500 krónum upp í rúmlega 15. þúsund króna hækkunn á mánuði.
Þegar ég sit hérna og skrifa þetta, þriðja febrúar 2017, þá velti ég því fyrir mér hvernig ég get aflað mér peninga til að endast mér út mánuðinn. Ég fer aldrei út að borða, ég fer ekki í bíó eða á kaffihús þar sem okrið er svo gengdarlaust að það nær engu tali lengur. Bara það að fara út í búð og versla í matinn gerir mig algjörlega brjálaðan í skapinu því verðlagning á nauðsynjum mundi teljast til rányrkju í löndunum í kringum okkur. Hver hefur efni á nautasteik fyrir sex til tíu þúsund kall á kílóið? Ekki ég í það minnsta.
Að skammta öryrkjum og öldruðum mánaðartekjur undir 200 þúsund krónum útborgað er eitthvað sem á bara ekki að eiga sér stað í því þjóðfélagi sem við lifum í nú til dags, þjóðfélagi sem er talið eitt það auðugasta af náttúruauðlindum í heiminum gerir það að verkum að þessir hópar eiga sér ekkert líf. Einangrast félagslega og hætta að fara út úr húsi því það hefur engan tilgang lengur.
Þunglyndi og sjálfsvígshugleiðingar eru stórt vandamál hjá þessum hópum sem bitna á heilbrigðiskerfinu ásamt öllum þeim kvillum sem koma upp hjá fólki sem hreyfir sig lítið og lifir á óhollum og tilbúnum mat, (þegar það á fyrir mat) því hollusta á íslandi er svo fok, fokknig dýr að venjulegt fólk hefur ekki efni á hollum mat. Hann telst til lúxusvöru og er þess vegna ekki keyptur.
Allt þetta eykur álagið á heilbrigðiskerfið og er því marfallt dýrara þegar upp er staðið, heldur en að borga þessu fólki mannsæmandi bætur sem það getur dregið fram lífið af og veitt sér eitthvað að auki, stundað tómstundir, farið út og hitt annað fólk án þess að þurfa að skammast sín fyrir að vera upp á náð og miskunn Niðurlægingarstofnunar ríkisins og veruleikafirrtra stjórnmálamanna.
Ég ætla ekki að fara út í það núna hvernig er alið á fordómum gagnvart öryrkjum í þessu landi af stjórnmálamönnum og fjölmiðlum, en það hefur viðgengist lengi hér á landi af fjölmiðlum að úthrópa öryrkja sem afætur á þjóðfélaginu og einstakak þingmenn og ráðherrar hafa verið duglegir að niðurlægja okkur í ræðum og í riti, sakandi okkur fyrir að svindla á kerfinu og stela þar með fjármunum af vinnandi fólki. Þar hafa fremst í flokki farið sú illa innrætta skessa sem nú er horfin af þingi, Vigdís Hauksdóttir og núverandi forsætisráðherra, Bjarni Ben.
En þegar græðgi og sérhagsmunir eru allsráðandi innan fámennrar klíku sem í raun stjórnar landinu á bak við tjöldin, klíku sem á í raun stjórnmálamenn á alþingi og í ríkisstjórninni árum og áratugum saman þá er ekki von á góðu og það sjáum við bara í dag.
Það er sjómannaverkfall og útgerðirnar neita hreinlega að koma á móts við sanngjarnar kröfur sjómanna því af þeim ofurgróða sem útgerðirnar borga sér í arð á hverju ári, yfir 100 milljarðar sem þar fara í vasa greifana, tíma þeir ekki að sjá af þrem til fjórum milljörðum í auknar launagreiðslur til sjómanna.
Hvað segir það okkur um útgerðirnar og þá sem þeim stjórna?
Nýjasta útspil þeirra er að væla í stjórnvöldum að setja lög á sjómenn svo þeir sjálfir geti haldið áfram að arðræna þjóðina og almenning í landinu.
En á meðan eru öryrkjar og aldraðir settir á kanntinn og látnir borga allt fyrir auðræðisliðið með ofursköttunn og skerðingum, endurgreiðslum til TR vegna „ofgreiðslna“ sem er í flestum tilfellum vegna klúðurs TR í útreikningum.
Þess vegna spyr ég mig í hverjum mánuði og nánast á hverjum einasta helvítis degi, til hvers að standa í þessu strögli?
Best væri bara að fá að sofna og vakna ekki aftur.