Við sunnanverðan Arnarfjörð, á vestfjörðum er lítið sjávarþorp þar sem búa rétt innan við 200 íbúar. Þar hafa íbúarnir stofnað konungsríki eitt er þeir kalla Bíldalíu og síðasta sumar var krýndur þar konungur til að stjórna ríkinu. Vinnustaður hans og höll gengur í daglegu tali undir nafninu Skrímslasetrið.
Nú ber svo nýrra við, því konungur hefur hug á að kvænast og á samfélagsmiðlinum Facebook hefur hann auglýst eftir kvonnfangi sér við hlið.
Tilvonandi Drotning þarf að hafa ýmsa kosti til að bera og gefur kóngur greinargóða lýsingu á því hvers hann óskar af drollu sinni.
Ég er konungur í eigin ríki (reyndar launalaust) og hef það gott.
Á heima á fallegasta stað í heimi.
Loftkastali í skýjaborg í smíðum.Kann ýmislegt fyrir mér í heimilisstörfum, utan þess að vera fjölþreifinn í listum. Elska fólk og aðrar skepnur, náttúruna og fegurð heimsins.
Hæfniskröfur:
Þú þarft að kunna að syngja og dansa, spila á hljóðfæri.
Vera opin, skemmtileg og hjartahlý. (Julie Andrews afþakkaði)
Aldur er afstæður milli æsku og elli.
Þyngd, hæð og breidd er aukaatriði en ég lyfti ekki meir en 80 kg, yfir þröskuldinn.
Ólýsanleg fegurð og persónutöfrar.
Mikil löngun til á búa á afskekktum stað fjarri skarkala menningar og lista …
Nú er bara að deila þessu til allra kvenna sem þið haldið að komi til greina sem drottning Bíldalíu og kóngur geti sætt sig við.
Gangi þetta eftir fyrir sumarmál, má búast við að drottning Bíldalíu verði krýnd á bæjarhátíð Bíldalíu seint á sumri komandi.
Gefið ykkur fram dömur sem hafið hug á hásæti Bíldalíu.