Það hefur talsvert verið fjallað undanfarið um geðsjúkdóma á íslandi og fólk hefur stigið fram og opnað sig í þeim efnum en þegar maður skoðar hlutina betur þá kemur í ljós að sárafáir karlmenn eru í þeim hópi sem tala um reynslu sína af geðsjúkdómum.
Ung kona sendi mér eftirfarandi pistil þar sem hún hefur sjálf glímt við geðræn vandamál en hún hefur haft athyglina í lagi og fylgst með því sem er í gangi innan kerfisins og þessi pistill ber þess augljóslega merki því þar sem þarna koma fram hlutir sem sennilega fáir hafa tekið eftir.
Vert er að taka fram að eftirfarandi grein er ekki skrifuð af fagmanneskju, heldur aðeins af manneskju sem tekur mið af eigin lífsreynslu og upplifunum, en ekki rannsóknum og fræðiritum.
Nýlega varð ég fyrir lífsreynslu sem fékk hinar ýmsu hugsanir í gang. Núna eru hugsanirnar búnar að fara í hringi í einhvern tíma og mér finnst ég knúin til þess að fá þær niður á blað í því formi sem þær eru í dag.
Ég hef velkst um í geðheilbrigðiskerfinu í þó nokkur ár þrátt fyrir minn unga aldur. Á þessari ferð minni í gegnum rússíbana geðveikinnar hef ég að sjálfsögðu líka haft kynni af fólki með ýmiskonar geðræn vandamál. Það sem ég hef tekið eftir hvað mest eru karlmennirnir sem þiggja aðstoð frá geðheilbrigðiskerfinu. Karlmennirnir sem maður hittir inná geðsjúkrahúsum eru oftar en ekki mun veikari á geði en kvenfólk sem þar dvelur. Ég spyr sjálfa mig ,,Afhverju? Hvað veldur því að karlmenn virðast fara mun meira yfirum í hausnum og enda með að ráða ekkert við sínar tilfinningar og hugsanir?“ Mínar hugsanir fram og tilbaka leiða nánast alltaf að sömu niðurstöðu í skúmaskoti huga míns. Mig langar að koma þeirri niðurstöðu niður á blað á einhvern hátt og kannski vita hvort einhver gæti verið sammála mér.
Þeir karlmenn sem virðast fara yfirum í hausnum sínum eru yfirleitt einhverjar mestu tilfinningaverur sem ég hef hitt fyrir á minni lífsleið. Karlmenn sem þrá það og vilja tjá sig sem hvað mest en einfaldlega þora því ekki. Þeir eru logandi hræddir við fordóma samfélagsins. Ekki fordóma gagnvart geðsjúkdómum endilega í þessu samhengi. Fordóma gegn tilfinningaríkum karlmönnum. Því enn þann dag í dag, þrátt fyrir áratuga jafnréttisbaráttu er ennþá litið því hornauga að karlmaður sé mjúkur og tilfinningaríkur. Þeir sem þora að bera sínar tilfinningar naktar á borð fyrir framan aðra eru fáir. Þeir eru oft upphrópaðir sem ,,hommar, faggar, aumingjar“ já, þið vitið að þessi listi af fúkyrðum og uppnefningum er ótæmandi, þið hafið sjálfsagt orðaforða í að finna fleiri orð sem passa ágætlega inní þennan lista.
Næsta stig af þessu eru karlmenn sem eru aðeins mjúkir þegar þeir hitta sína nánustu. Eiginkonu, börn, barnabörn, foreldra, þið vitið hvað ég meina. Þeim dettur ekki til hugar að sýna sína mjúku hlið annarstaðar, eflaust af ótta við einhverskonar fordóma. Kalda ,,frontið“ sem maður sér oftast hjá karlmönnum er púslað á smettið þegar er haldið út í hinn harða heim sem við lifum í hér og nú. Hér má enginn vita hvernig tilfinngar viðkomandi er að berjast við hvern einasta dag, sá hinn sami sem sér það mun pottþétt hugsa eitthvað niðurlægjandi um viðkomandi sem myndi droppa grímunni. Nú geri ég mér grein fyrir að þetta hljómar sem hálfgerður sleggjudómur og vert er að segja að ég er einungis fær um að mæla út frá eigin upplifunum og skoðunum, ég mun þar af leiðandi aldrei geta sagt hvernig hlutirnir ERU, heldur aðeins hvernig ég upplifi þá. Jæja, þarna kom smá hliðarhopp frá efninu, en áfram með hugsunina.
Síðasti flokkurinn af þremur sem ég er með í huga í augnablikinu eru karlmennirnir sem ég vil meina að séu stærsta skotmark fordóma gegn tilfinningaríkum karlmönnum í okkar samfélagi. Það eru semsagt mennirnir sem leggja aldrei nokkurntíman frá sér grímuna. Þeir eru alltaf harðir, alltaf með kúlið í gangi. Sama hvað gerist, þeir eru alltaf eins og stór og sterkur klettur sem passar uppá þá sem þeir elska. Kletturinn er líka gerður úr graníti þegar þeir eru heimafyrir. Þeirra heittelskuðu skulu sko ekki fá að sjá að þeir þurfa líka að fá útrás fyrir sínar tilfinningar.
Þessi ,,flokkur“ í mínum hugarheimi sem ég nefni hér síðast er eftir minni upplifun þeir allra veikustu sem ég hef hitt á minni ferð í gegnum geðheilbrigðiskerfið. Þetta eru gæjarnir sem vilja svo mikið vera sterkir og reyna það svo allt of lengi. ,,Þetta reddast!“ sagði einhver hér um árið, og þessi setning situr svo fast í þessum ,,grjóthörðu“ karlmönnum að það hefur eflaust oftar en ekki ýtt sumum karlmönnum mun lengra inn í rússíbana geðveikinnar heldur en hefði gerst ef þessir karlmenn hefðu haft þá upplifun að þeir gætu bara lagt sínar tilfinningar á borð eins og þær eru í raun og veru. Án þess að draga nokkuð úr þeim, án þess að láta þær hljóma ,,kúl“ og að þetta sé bara alveg að fara að líða hjá. Þetta held ég að geti oft orðið hættulegt upp að vissu marki.
Ef maður tekur sem dæmi barn, lítinn strák sem fær ekki að segja hvernig honum líður, það er vissulega eitthvað að, en barnið er látið bíða með að segja hvað sé að í nokkra klukkutíma. Það sem er að er kannski magaverkur eða hausverkur.
,,Bíddu vinur, ég þarf aðeins að sinna hérna öðru, ég skal faðma þig eftir 3 klukkustundir.“
Hvað gerist? Ég gæti rétt ímyndað mér að þessi drengur sem ég tek hér sem dæmi, sem er vitaskuld ímyndað dæmi, myndi innan örfárra mínútna trompast í skapinu, slá og öskra og ég veit ekki hvað og hvað. Hvernig eiga þá karlmenn sem eiga nú þegar við geðsjúkdóm að stríða að ,,halda kúlinu“ og ná bata af sínum sjúkdóm þegar normið í samfélagnu virðist vera þetta sem ég lýsi hér að ofan?
Mín skoðun er og hefur verið í nokkur ár nú, að við þurfum að berjast áfram við að minnka fordóma, auka kynjajafnrétti, meðal annars til þess að karlmenn í þessari stöðu gætu fengið betri bata frá sínum veikindum og átt farsælla líf.
Þessi grein er skrifuð af konu með geðsjúkdóm sem í sínu lífi hefur ekki bara séð aðrar konur upplifa kynjamisrétti, heldur einnig karlmenn. Mín upplifun er að jafnréttisbarátta þarf að ganga í báðar áttir og það má alls ekki gleyma hvar karlmenn verða undir í þessari baráttu. Jafnréttisbarátta eins og má greinlega lesa í þessum pistli ristir svo mun dýpra í okkar samfélag heldur en margir virðast oft vilja sjá og halda.