Á hverju ári deyja um helmingi fleiri vegna sjáfsvíga á Íslandi en í umferðarslysum. Samt er ekkert um fyrirbyggjandi aðgerðir til að vinna gegn þessari vá. Tveir til þrír einstaklingar svipta sig lífi í hverjum mánuði á Íslandi að meðaltali. Karlar eru mun líklegri en konur til að svipta sig lífi, en konur gera mun fleiri sjálfsvígstilraunir. Tíðni sjálfsvíga á Íslandi er um 12,8 sjálfsvíg á hverja 100.000 íbúa.
Á vefsvæði Landlæknis segir að það hafi lengi valdið áhyggjum hve sjálfsvíg karla undir 25 ára aldri séu mörg, ekki bara á Íslandi heldur víða um heim. „Orsakir eru óljósar og eflaust margþættar, en ekki er ólíklegt að örar félagslegar breytingar, jafnvel breytingar á samfélagslegri stöðu karlmanna kunni að valda einhverju þar um.“
Það er hrein og bein staðreynd öllum sem hafa smáræði af kommon sens á milli eyrnana að efnahagur fólks helst í hendur við andlega heilsu þess og tölulegar staðreyndir sýna hvað eftir annað að þeir sem berjast í bökkum með lágar tekjur, eiga varla fyrir mánaðarlegum útgjöldum og geta aldrei veitt sér neitt eru margfallt líklegri til að taka sitt eigið líf heldur en fólk sem hefur það góðar tekjur að það kemst vel af, getur farið í frí og veitt sér þann munað að leggja smáræði fyrir í hverjum mánuði. Aftur á móti þegar tekjurnar verða það miklar að fólk getur veitt sér hvað sem því sýnist og þarf aldrei að hafa fyrir lífinu, þá byrja líkurnar aftur að aukast á því að það fremji sjálfsvíg því peningar kaupa ekki hamingju og það að þurfa aldrei að hafa fyrir nokkrum hlut er engum hollt.
Eftir að fjármálakreppan skall á Evrópu hefur tíðni sjálfsvíga meðal karlmanna hækkað víðsvegar í álfunni. Í Grikklandi fjölgaði þeim um 24 prósent frá árinu 2007 til 2009 og á Írlandi fjölgaði þeim um 16 prósent á sama tímabili. Þá hefur sjálfsvígum meðal karlmanna einnig fjölgað á Ítalíu; voru 123 árið 2005 en 187 árið 2010. Bandaríska blaðið The New York Times fjallaði ítarlega um þetta á dögunum og í viðtali við blaðið segjast sérfræðingar rekja þessa aukningu til fjárhagsvandræða í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008.
Á Íslandi eru öll svona mál þögguð í hel af þeim sem ábyrgðina bera og þar fara stjórnvöld, atvinnurekendur og heilbrigðiskerfið fremst í flokki.
Virðing þeirra sem stjórna landinu er engin gagnvart fólkinu og með stöðugum niðurskurði á öllum sviðum sem snúa að almenningi og hækkunn gjaldtöku á heilbrigðissviðinu ásamt því að lægstu laun, atvinnuleysisbætur og framfærsla á vegum hins opinbera er langt neðan við fátæktarmörk er og verður skömm þeirra sem landinu stjórna því með lögum skal land byggja en með ólögum eyða.
Ég ætla að að taka það fram að ég er ekki neinn sérfræðingu í neinu af því sem hér er sett fram og þær tölur og greinar sem ég vísa í eru fengnar héðan og þaðan af alnetinu. Allt eiga bæði tölurnar og greinarnar sameiginlegt að vera settar fram af aðilum sem hafa kannað suma þessara hluta nokkuð vel og ættu því að vera nokkuð ábyggilegar. Þetta verður enginn tæmandi listi eða niðurnegldar staðhæfingar, heldur aðeins farið yfir staðreyndir sem öllum eru aðgengilegar og þær tengdar saman svo fólk sjái þær betur.
Það sem þó er svolítið sláandi þegar kemur að þessum málum sem fjallað verður um hér á eftir, er sú leiðinlega staðreynd að margir „pappakassahausar“ sem hafa alið allan sinn aldur á skólabekk og kunna varla að hugsa sjálfstætt eru því miður illa marktækir og því miður skilja þeir ekki það sem blasir við þeim í hinu daglega lífi sem hér verður fjallað um.
Aftur á móti er margt fólk sem aldrei hefur farið í langskólanám og lifir í þeim aðstæðum sem hér verður fjallað um, sem sér það sem er að gerast, skilur það og kann og getur sett í þau spor sem sérfræðingunum er gjörsamlega ómögulegt að gera og getur dregið ályktannir út frá staðreyndum sem blasa við þeim með því að lesa, hlusta og hugsa sjálfstætt út frá þeim upplýsingum sem þeir viða að sér. Þegar einstaklingur getur gert það blasa staðreyndirnar við þar sem orsök og afleiðing eru eins skýr og svart og hvítt.
Ég tek það fram að ég er ekki langskólagenginn nema þá í skóla lífsins og í þeim skóla hef ég bæði staðið og fallið í ýmsum fögum eins og á við um alla sem fæðast í þennan heim en ég tel mig hafa lært nógu mikið til að geta fjallað um ýmsa hluti sem tengjast innbyrgðis þó svo annað virðist vera uppi á teningnum við fyrstu sýn og eitt er það sem hefur verið mér hugleikið síðasta áratuginn er sú tenging sem er á milli efnahags fólks og andlegrar heilsu þess.
Einhver speningur sagði einu sinni: „Sælir eru fátækir því þeir munu guðsríki erfa.“ Hann hefur aldrei þurft að upplifa fátækt sá spekingur og þeir sem vitna í þessa vitleysu hafa aldrei þurft að finna á eigin skinni hvernig það er að berjast í bökkum og eiga ekki fyrir nauðsynjum og leyfa sér aldrei neitt. Slíkir einstaklingar kallast í daglegu tali hræsnarar.
Það er skelfilegt að hugsa til þess að þrátt fyrir að þessi mál hafi verið í „rannsókn“ innan ráðuneyta, heilbrigðisstofnana og einstaklinga hér á landi til fjölda ára, þá er það því miður svo að enn er bannað að ræða þessi mál opinberlega og allar tilraunir til þess kæfðar í fæðingu.
Einstaka greinar og pistlar um þessi mál koma af og til, til umfjöllunar í fjölmiðlum en það er sjaldgæft og um þau fjallað með eins fáum orðum og hægt er og alls ekki auglýst eða blásið upp á nokkurn hátt, helst falið þannig að fólk taki ekki eftir því. Fjölmiðlar og blaðamenn bera því að vissu leiti talsvert mikla ábyrgð á því að ekki er fjallað um sjálfsvíg á opinberum vettvangi hér á landi eða ástæður þess að fólk tekur sitt eigið líf þó hæg séu heimatökin hjá þeim.
Ég fór á vef DV.is þegar ég var að grúska í þessum málum og sló inn í leitarvélina hjá þeim eitt orð. „Sjálfsvíg“ og niðurstöðurnar slógu mig og slógu fast. 151.000 niðurstöður fundust. EITTHUNDRAÐFIMMTÍUOGEITTÞÚSUND!
Hugsið aðeins um það og smellið svo á þennan hlekk og skoðið. Auðvita eru þetta ekki allt fréttir um sjálfsvíg en þetta er allt fólk sem þarna kemur fram sem hefur reynt eða íhugað það að farga sér. Margar fréttir eru af ungu fólki og jafnvel börnum sem hafa bæði íhugað og reynt.
Ég leitaði að viðtali sem var tekið við mig eftir sjálfsmorð sonar míns en hef ekki fundið það.
Umræðan í kringum það mál var snarlega þögguð niður og mér sagt að tala við prest, sjálfur heiðinginn.
Við íslendingar erum langt í frá fullkomnir og verðum það aldrei en við getum í það minnsta verið samkvæm sjálfum okkur og staldrað við og skoðað hvað hægt er að gera betur. Það þarf ekkert mikið til, bara setjast niður og setja hlutina í samhengi. Reikniformúlan fyrir aukinni tíðini sjálfsvíga er mjög einföld ef betur er að gáð.
Fjárhagserfiðleikar + lágar tekjur + slæm afkoma = þunglyndi + kvíði + svefnleysi = þreyta.
Síðan verður þetta keðjuverkandi og til langs tíma, segjum eitt til tvö ár án þess að ástandið lagist, þá sameinast allir þessir þættir og gera það að verkum að fólk fer í það ferli að hugsa sem svo: „Sennilega er bara best að ljúka þessu. Það væri best fyrir alla.“
Svona hugsanir vinda síðan upp á sig og á endanum gefur eitthvað undan sem verður til þess að viðkomandi fargar sér eða í það minnsta gerir tilraun til þess.
Hvar er svo hjálpin fyrir það fólk sem svona er komið fyrir?
Hún er engin.
Nákvæmlega ekki nein og margir sem geta vitnað til um það, þar á meðal undirritaður.
Þar bera stjórnvöldin ábyrgðina. Alla.
Ekki að hluta eða litla, heldur ALLA ábyrgðina því það eru þau sem rústuðu heilbrigðiskerfinu og eru enn að því.
En ábyrgðin sem á okkur sjálfum hvílir er líka mikil því það erum við sem eigum að opna umræðuna um þessi mál og halda henni gangandi.
Ég. Þú og þið öll þarna úti. Axlið ábyrgðina og viðurkennið hana.
Heimildir:
Sjálfsvíg í skugga skuldavandræða. DV 19-04-2012
Tveir til þrír í hverjum mánuði. MBL 09-09-2013
Sjálfsvíg taka árlega stóran toll. MBL 24-08-2013