Ég verð fyrir mína parta alltaf pirraður og reiður þegar ég sé óréttlæti og jafnvel lögbrot fyrirtækja gagnvart starfsmönnum sínum en þegar um jafn skýlaust brot er að ræða og gerðist þegar Hreint ehf meinaði fulltrúa Eflingar að sitja fund sem hann hafði verið beðin um að sitja með starfsmönnum á LSH sem sjá þar um hreingerningar, þá spyr maður hvað fyrirtækinu gangi til með því.
Siðferðið og einbeittur brotavilji Hreint ehf með þessari hegðun ætti í raun að gefa stéttarfélaginu leyfi til að afturkalla starfsleyfi fyrirtækisins til bráðabirgða meðan málin eru skoðuð og rædd.
Með því mundi öll starfsemi fyrirtækisins leggjast af á meðan ferlið er í gangi og brjóti fyrirtækið gegn því með því að láta starfsfólk vinna, þá yrði það sektað um einhverja hundrað þúsund kalla fyrir hverja klukkustund sem það léti starfsfólk sitt vinna meðan starfsleyfið er ekki gilt.
Aðeins þannig væri hægt að stoppa af þau fyrirtæki sem brjóta lög um stéttarfélög með þeim hætti sem þarna var gert.
Lögin um aðkomu stéttarfélaga eru því miður frekar laus í reypum og þarf alveg nauðsynlega að skýra þau, efla og gera skilvirkari til að verkalýðsfélög geti tekið á þeim málum sem stöðugt eru að koma upp um þessar mundir því vinnuveitendur eru mjög duglegir að finna leiðir til að komast framhjá lögunum og þannig hálfpartinn „gelda“ verkalýðsfélögin þannig að þau eigi erfiðara með að vinna fyrir umbjóðendur sína.
Sérstaklega þarf að skerpa á lögum þess efnis að verkalýðsfélög geti upp á eigin spýtur hafið rannsókn á málum starfsmanna sem brotið er á réttindalega og launalega með samningum sem standast engan veginn lög um lágmarkslaun.
Á vef Eflingar er fréttatilkynning um það sem gerðist þann 19. nóv þegar fulltrúa þeirra var meinaður aðgangur að fundi starfsmanna Hreint ehf:
Ótrúlegt atvik og vanvirða við fólkið -segir Harpa Ólafsdóttir
Margt bendir til að ræstingarfólk sé að fá sig fullsatt af álagi og kröfum um stöðugt aukna vinnu fyrir lægra kaup og verri aðbúnað í erfiðum ræstingarstörfum. Stór hópur fólks af erlendum uppruna sinnir ræstingarstörfum í kjölfar útboða hjá ríkisfyrirtækjum og er að kikna undan álagi fyrir laun sem eru í mörgum tilvikum undir því lágmarki sem kjarasamningar kveða á um. Á Landsspítalanum kom nýlega til áreksturs þegar fulltrúi Eflingar, Harpa Ólafsdóttir, var rekin af fundi sem pólskir ræstingarstarfsmenn höfðu óskað eftir nærveru Eflingar.
Á Landspítalanum í Fossvogi háttar svo til að tólf pólskir starfsmenn sjá um þrif á um 26 þúsund fermetra svæði. Mikil ólga hefur verið undanfarið hjá þessum starfsmönnum vegna álags og bágra kjara. Nú fyrr í nóvembermánuði óskuðu þeir eftir fundi með yfirmönnum ræstingarfyrirtækisins ásamt túlki og fulltrúa Eflingar.
Við höfum fylgst með vaxandi óánægju á þessum verkstöðvum ræstingarfólks og brugðumst því hratt við þegar óskað var eftir nærveru Eflingar og stuðnings á fundinum sem fyrirtækið Hreint var með á staðnum, segir Harpa Ólafsdóttir, hagfræðingur Eflingar.
Þegar til kom var mér sem fulltrúa stéttarfélagsins meinaður aðgangur að fundinum. Þetta var ekki lítið sérkennileg uppákoma og ég hef aldrei sem starfsmaður Eflingar lent í því að vera meinuð aðganga að fundi til að aðstoða félagsmenn. Ótrúlegt atvik og mikil vanvirða við fólkið sem beðið hafði um aðstoð Eflingar á fundinum. Sér í lagi þar sem enginn trúnaðarmaður er á staðnum og starfsmenn þekkja síður rétt sinn vegna tungumálaörðugleika. Þetta varð til þess að þeir ellefu starfsmenn sem mættir voru gengu allir af fundi.
Að loknu stuttu samtali sem fulltrúi Eflingar tók við starfsmennina með aðstoð túlks var talin full ástæða til að skoða málið betur og er það nú til meðferðar hjá lögmönnum og forystumönnum Eflingar.
Ræstingahópur hefur setið eftir í launahækkunum Í nýrri viðhorfskönnun Eflingar kemur fram að um 73% þeirra sem starfa við ræstingar eru með dagvinnulaun undir 250.000 kr. fyrir fullt starf á mánuði. Þá hefur paraður launasamanburður félagsins milli ára fyrir þann hóp félagsmanna sem starfar hjá ræstingafyrirtækjum leitt í ljós að þessi hópur hefur hækkað hvað minnst milli ára af einstökum starfahópum eða um 2,4% frá 2013 til 2014.
Þegar svona lagað gerist þarf að ganga hratt og ákveðið til verks og fá tímabundna afturköllun á starfsleyfi fyrirtækisins auk þess sem það ætti að vera hægt að beita það sektum meðan það virðir ekki aðkomu fulltrúa stéttarfélags starfsmanna því þær aðgerðir mundu snarlega koma í veg fyrir að fyrirtækið brjóti lög og reglur með þeim hætti sem Hreint ehf gerði í þessu tilfelli.
Fulltrúar allra stéttafélaga þurfa að koma á samstarfi við ríkisstjórnina og alþingi til að skerpa á lögum og reglum um stéttarfélög til að þau geti staðið vörð um réttindi launafólks í landinu.
þessi hegðun Hreint ehf er örugglega ekki eina dæmið um svona framkomu við fulltrúa stéttarfélaga og þetta þarf að stoppa.
Ekki seinna en strax.