Í dag fagnar þjóðin sigri vegna Icesave málsins sem hefur legið eins og mara á þjóðinni síðustu fjögur árin og valdið því að fjölskyldur hafa sundrast og vinatengsl rofnað þegar fólk skiptist í fylkingar með eða á móti málinu og verður ekkert farið inn á þær brautir en þegar fólk kemur fram í fjölmiðlum eftir dóminn og hreinlega lýgur að þjóðinni og reynir að breiða yfir eigin dómgreindarleysi og aumingjaskap, þá er komið algerlega nóg.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. allsherjarráðherra hafa bæði komið fram í dag og fagnað dóminum. Það er líka bara eðlilegt að þau geri það en á sama tíma gleyma því hvernig þau ætluðu að þvinga Icesave samningana í gegnum þingið, ýmist ólesna af þeim sem áttu að greiða þeim atkvæði með eða á móti eða þá með hræðsluáróðri sem átti engan sinn líkan í stjórnmálasögunni og fóru mikinn í þeim efnum.
Í dag, þegar þau skötuhjú dansa svo sigurdansinn er gleymd sú staðreynd hvernig þau reyndu með öllum tiltækum ráðum að koma í veg fyrir að þjóðin fengi að kjósa um málið og hvernig þau bæði djöfluðust í Forseta Íslands þegar hann neitaði að skrifa undir síðustu Icesace lögin. Hræðsluáróðursmaskínur voru virkjaðar til hægri og vinstri, sérfræðingar sem voru handbendi þeirra bendu á hvernig ísland mundi einangrast frá umheiminum og hrapaði niður á steinaldarstigið í kjölfarið. En sem betur fer höfðu þau rangt fyrir sér. Svo rangt að núna keppast þau um að dásama niðurstöður dómsins og hvetja fólk til að leita ekki að sökudólgum.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði að fagna beri niðurstöðu Icesave-málsins en ekki leita sökudólga. Það voru stjórnvöld haustið 2008 sem ákváðu að leita samninga við Breta og Hollendinga og annað var ekki í stöðunni fyrir Ísland.
Og var hún ekki í stjórninni sem gerði það árið 2008 og er þar með óbeint að leita að sökudólg?
„Ég var sjálf trúuð á málstað Íslands og ekki síst þegar leið á málaferlin hjá EFTA.
Já einmitt það? Þetta er nefnilega ekkert annað en haugalygi í henni því í pistli sem birtist á heimasíðu Samfylkingarinnar 7. apríl 2011 segir eftirfarandi;
Bréf formanns og varaformanns til flokksfélaga:
Ágæti Samfylkingarfélagi,
Þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave snýst ekki um ríkisstjórnina. Hún snýst ekki um einstaka flokka, forystumenn þeirra, ESB, EES, AGS eða rétta eða ranga lögfræðilega niðurstöðu.
Þjóðaratkvæðagreiðslan á laugardaginn snýst um lífskjör á Íslandi og hversu hratt við viljum vinna okkur út úr efnahagshruninu sem hér varð. Hún snýst um það hvort við Íslendingar viljum ljúka Icesave-deilunni með sátt eins og að hefur verið stefnt undanfarið tvö og hálft ár eða hvort breytt verður um stefnu og slagurinn tekinn fyrir dómstólum og á vettvangi alþjóðlegra stofnana um óráðna framtíð.
Hafni íslenska þjóðin samningnum mun það ekki verða til þess að deilan hverfi heldur eru allar líkur á því að deilan harðni og að framtíðarhagsmunum þjóðarinnar verði þar með stefnt í tvísýnu.
Fyrirliggjandi samningur sem 70% alþingismanna hefur þegar samþykkt, gerir ráð fyrir því að á ríkissjóð gætu fallið 32 milljarðar króna á næstu 5 árum, vegna þeirra 1300 milljarða sem innistæðueigendur áttu á Icesave-reikningunum. Margt bendir til þess að betri heimtur úr þrotabúinu og hraðari útgreiðslur muni lækka kostnað ríkissjóðs enn frekar.
Kostnaður samfélagsins af Icesave-deilunni hefur hingað til fyrst og fremst falist í töfum og auknum útgjöldum við fjármögnun framkvæmda og rekstrar. Óhætt er að fullyrða að sá kostnaður er og verður mun hærri en sú fjárhæð sem mögulega fellur á íslenska skattgreiðendur á grundvelli fyrirliggjandi samnings. Þeim mun lengur sem málið er óleyst, þeim mun dýrara og skaðlegra verður Icesave fyrir íslenska þjóð.
Í okkar huga er málið afar skýrt. Já við samningaleiðinni lágmarkar áhættu Íslands af Icesave, það lágmarkar kostnað Íslands af deilunni, lágmarkar óvissuna í endurreisnarferli Íslands og veitir atvinnulífi og stjórnvöldum forsendur til að ráðast í auknar fjárfestingar og fjölgun atvinnutækifæra. Já við samningaleiðinni skapar sátt við alþjóðasamfélagið og eykur traust þess á endurreisn Íslands.
Við hvetjum þig til virkrar þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem lýkur á laugardaginn. Úrslit hennar skipta miklu um hag þjóðarinnar og lífskjör Íslendinga næstu misseri og ár. Hvert atkvæði skiptir máli ef mjótt verður á munum. Sameinumst um að eyða óvissunni og lágmarka kostnað samfélagsins af hruninu og segjum JÁ.
Jóhanna Sigurðardóttir
formaður SamfylkingarinnarDagur B. Eggertsson
varaformaður Samfylkingarinnar
Þarna kemur berlega í ljós hversu trúuð hún var á dómsniðurstöðuna sem við fengum í dag því með þessari hvatningu til félagsmanna í Samfylkingunni er hún að hvetja til þess að samþykkja síðasta Icesave samninginn.
Steingrímur á sína spretti líka og því sorglegt að sjá hann vera hampandi sjálfum sér í dag eins og það hafi verið hans ákvörðun að vísa málinu til þjóðarinnar. Skömm þessa manns er mikil enda var það lúpulegur Steingrímur sem skreið eins og barinn hundur í ræðustól alþingis og reyndi að bera sig vel þó svo ræðusnilli hans væri frábrugðið í þetta sinn enda fór hann eins og köttur í kringum heitan graut í ræðu sinni.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri Grænna og atvinnuvegaráðherra, segist gleðjast yfir því að „þessu ólánsmáli sé nú lokið“. Hann ávarpaði blaðamenn í Utanríkisráðuneytinu í morgun. „Nei, öðru nær. Þetta er sigur fyrir okkur öll,“ sagði Steingrímur spurður hvort að málið væri ekki ósigur stjórnmálalega séð, í ljósi þess að forsetinn sendi málið, sem ríkisstjórnin samþykkti í þinginu, í þjóðaratkvæðagreiðslu.
„Ef við hefðum tapað í dag, tapað illa, hefðum við þá átt að snúa þessu við og ráðast á einhverja út af því? Ég held að við ættum að gleðjast fyrir hönd landsins. Við ættum að vera ánægð með að það sé komin niðurstaða í þetta mál og vera í góðu skapi í einn til tvo daga,“ sagði hann.
Gott hjá Steingrími að passa sig á því að taka fram að fólk skuli gleðjast og vera ekki að leita að sökudólgum og ráðast á einhverja vegna þessa máls. Þetta er nú eitthvað annað en hann sagði 20. febrúar 2011;
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður Vinstri grænna segir ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, um að neita Icesave-frumvarpinu staðfestingar vera undrunarefni. „Ég verð að segja að þetta kom mér á óvart. Ég er vonsvikinn og vægast sagt undrandi,“ sagði Steingrímur í samtali við mbl.is
„Ég tala fyrst og fremst sem þingmaður á Alþingi Íslendinga, ég hef verið þingmaður í þingræðisskipan í tæp 28 ár. Hér hefur verið þingræði og á mann leita ýmsar stríðar hugsanir þegar þetta gerist eftir að Alþingi samþykki lög með meira en tveimur þriðju greiddra atkvæða,“ sagði Steingrímur.
Hann segir lögin öðlast gildi á næstu dögum, þrátt fyrir að forseti hafi ekki staðfest þau. Þau gilda fram að þjóðaratkvæðagreiðslunni og falla þá annaðhvort úr gildi eða fá varanlegt gildi.
Hver gætu hugsanleg áhrif þessa orðið á stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu?
„Ég held að það væri nær að spyrja forsetann að því en mig. Ég vil fara varlega í yfirlýsingar. En við gerum það sem við getum til að lágmarka áhrifin. Þetta ræðst að miklu leyti af viðbrögðum gagnaðilanna. En það er enginn vafi á að þetta dregur upp ákveðna óvissumynd af ástandi hér á landi og eykur enn á vafasemdir umheimsins um að íslensk stjórnskipan ráði við að leiða til lykta mál af þessu tagi.“
„Forsenda þess að gagnaðilarnir fengust til viðræðna á nýjan leik var að það væri breið pólitísk samstaða á bak við málið þannig að hægt yrði að afgreiða það fljótt og vel. Við urðum við þessu með því að búa til samninganefnd sem allir stjórnmálaflokkarnir stóðu að. En við skulum vona að þessi sund séu ekki öll lokuð.“
Steingrímur segist ekki hafa rætt við Breta og Hollendinga eftir að forsetinn opinberaði ákvörðun sína.
Og svo dansar hann sigurdansinn með Jóhönnu, afneitar fortíðinni og hvernig þau höguðu sér í öllu þessu máli skötuhjúin sem fóru sama í ríkisstjórn hinnar norrænu velferðar og skjaldborg heimilina en hafa ekkert afrekað annað en verða sér til skammar á stórnartímablinu með óheyrilegum skattabyrgðum á almenning og lífeyrisskerðingum á öryrkja og aldraða sem verður þeim til ævarandi skammar.