Það er hreint með ólíkindum þegar ráðherra heilbrigðismála lofar einhverju en svíkur það svo um leið og undirskrift þess efnis er lokið.
Þetta þurfa forstöðumenn Leiðarljóss, stuðningsmiðstöðvar fyrir börn með sjaldgæfa, alvarlega, ólæknandi sjúkdóma að sætta sig við um þessar mundir en Bára Sigurjónsdóttir forstöðumaður Leiðarljóss skrifar grein í dag á Vísir.is þar sem hún rekur söguna.
Árið 2012 brást hópur fólks við neyðarkalli móður eins slíks barns, sem hún hafði nýlega misst. Móðirin sagði að hún vildi aldrei sjá foreldra í sömu stöðu ganga í gegnum það sem hún þurfti að ganga í gegnum og bað hópinn um að standa fyrir söfnun til þess að setja mætti á fót sérstaka stuðningsmiðstöð fyrir veikustu börn landsins og fjölskyldur þeirra. Þjóðin tók undir með móðurinni og á einum degi söfnuðust tæpar 80 milljónir króna í Landssöfnun á RÚV, sem hinar snjöllu og góðu konur í samtökunum ,,Á allra vörum“ stóðu fyrir ásamt RÚV og fleiri aðilum.
Stjórnvöld lofuðu þá skriflega að þau myndu taka við rekstri miðstöðvarinnar þegar söfnunarféð þryti, en það er nú búið. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra lét gera áreiðanleikakönnun um rekstur Leiðarljóss á síðasta ári sem kom afar vel út og í kjölfarið lofaði hann því að ríkið myndi greiða rekstrarkostnaðinn sem er 27 milljónir á ári. Aftur lofaði ráðherra þessu á fundi sem undirrituð sat í ráðuneytinu í október sl.
Það var því sem köld vatnsgusa framan í okkur öll sem standa að Leiðarljósi þegar okkur var tilkynnt að hið opinbera ætlaði einungis að veita um 12 milljónir í þennan rekstur á næsta ári, sem þýðir að stuðningsmiðstöðin Leiðarljós, sem nú þjónar 75 fjölskyldum, mun líða undir lok.
Grein Báru má lesa í heild sinni með því að smella hérna.
Kristján Þór Júlíusson starfandi heilbrigðisráðherra ætti að sjá sóma sinn í að gangast við þessu og standa við gefin loforð í stað þess að svíkja þau áður en blekið er þornað á samningnum sem var undirritaður.
Hægt er að senda póst á alla þingmenn og hvetja þá til að taka málið upp á alþingi áður en störfum lýkur núna fyrir jólin og krefjast þess að Kristján standi við gefin loforð.