Það hefur verið dálítið furðuleg upplifun að fylgjast með fjölmiðlum undanfarin áratug og kafa aðeins ofan í fréttaflutning þeirra og hvernig umhverfi allrar fjölmiðla hefur breyst með tilkomu samfélagsmiðlana eins og facebook, twitter, linkedin og fleiri þar sem fólk er í daglegum samskiptum sín á milli.
Ég minnist þess þegar þessir samfélagsmiðlar voru ekki orðnir til og öll umræða á netinu var mjög takmörkuð þó svo allir stóru fjölmiðlarnir væru farnir að birta fréttir á vefnum og smá umræða skapaðist í kringum þær á netinu en þó aðalega á vísir.is sem þá hélt úti svæði þar sem var spjallborð í gangi og almenningur gat skipst á skoðunum um fréttir fjölmiðla. Fljótlega fór því miður að bera á því að einstaka þræðir og umræður fóru að hverfa af spjallinu og síðan sprakk það út þegar kerfisbundin ritskoðun var sett í gang sem takmarkaði mjög trúverðugleika þeirra umræðna sem var í gangi því fólk reiddist og vísaði í lög um tjáningarfrelsi og ritskoðun sem stjórnendur vísis vísuðu á bug á þeim forsendum að þeir ættu svæðið og réðu og stjórnuðu umræðunum þar.
Þetta varð til þess að upp spratt nýr vefur, málefnin.com sem óx og dafnaði hratt strax eftir að honum var komið á laggirnar. Þar var nafnlaus umræða í gangi og oft ansi hörð og óvægin eins og þeir muna sem þar voru fyrstu árin og mikið rætt um þöggun fjölmiðla á íslandi, falsaðar fréttir og rangtúlkaðar ásamt heilaþvætti í ákveðnum málum og þöggun á þeim einstaklingum sem voguðu sér að setja út á viðkomandi fjölmiðla og henisemisstefnu þeirra í umræðum eða bloggi.
Í dag er öldin, (sem betur fer) önnur og allir sem það kjósa geta tjáð sig um hvað eina sem máli skiptir og sagt sínar skoðanir á fréttum, fréttamiðlum og fréttamönnum án þess að þeir séu lagðir í hreint og klárt einelti fyrir af viðkomandi fjölmiðlum eða einstaka fjölmiðlamönnum. Það þekki ég persónulega sjálfur.
Hitt er síðan mun alvarlegra og hefur gerst nokkuð oft, að fólk hefur hreinlega misst vinnuna fyrir að tjá skoðanir sínar eða leita réttar síns á opinberum vettvangi og ræða um hvernig því hefur verið mismunað eða brotið á því. Slíkt er náttúrulega með öllu óþolandi og ólíðandi ef fyrirtæki eða stjórnendur þeirra geta ekki tekið öðru vísi á gagnrýni en skjóta sendiboðan í stað þess að laga hlutina innan fyrirtækisins.
En nóg af þessu.
Ástæðan fyrir þessum skrifum mínum er sú að árið 2003 reyndi gamalreyndur ráðgjafi, Guðbjörn Jónsson, að fá birta grein á öllum fjölmiðlum landsins en var allsstaðar neitað um birtingu á honum af því efni pistilsins þótti ekki henta í umræðuna á þeim tíma.
Um var að ræða kvótakaup Eimskipaféalgas íslands og spurt hvort óskabarn þjóðarinar væri illa rekið fyrirtæki. Pistilinn má í heild sinni lesa á vef Sóknarhópsins en miklar umræður hafa verið um efni hans í fésbókarhópnum undanfarna tvo daga.
En þöggun í fjölmiðlum og vísvitandi staðreyndarvillur eru enn við líði í fjölmiðlum á íslandi í dag og þar er enginn af stóru fjölmiðlunum undanskilin. Sumir eru mágögn stjórnmálaafla og fyrirtækja meðan aðrir vinna hreinlega bara illa sínar fréttir og gera trúverðuleika sinn fyrir vikið ómarktækan.
Fólk er algerlega sofandi hvað þetta varðar og trúir öllu sem nýju neti án þess að gagnrýna nokkurn hlut og sumir svo óforskammaðir að segja upphátt; „Mogginn lýgur aldrei“, sem allir með greind yfir stofuhita, vita að er hrein og klár lygi.
En því miður eru fleiri fjölmiðlar eins og Mogginn, sem er rekinn af LÍÚ og Sjálfstæðiflokknum, en þar má í dag nefna Pressuna / Eyjan, DV, sem er komið í eigu Framsóknar, Visir.is og 365 sem ýmsir athafnamenn eiga og reka og svo síðast en ekki síst Rúv.is sem að mínu mati hefur verið ótrúlega hlutdrægt í ýmsum fréttaflutningi og þá helst því sem snýr að auðlind okkar allra, fiskimiðunum í kringum ísland þar sem allar fréttir eru dökk, grænbláar í gegn og viðhorf LÍÚ / SFS eru algerlega ráðandi og engin gagnrýnishugsun fær að komast að, aldrei talað við neina nema stóru hagsmunaaðilana.
Í dag horfir maður vonaraugum á að Kjarninn og Stundin verði þeir miðlar sem maður getur trúað á og treyst því að þeir séu ekki að fara með litaðar eða kostaðar fréttir og þar fái öll sjónarmið að njóta sín en um leið sé upplýsingaöflun við fréttir gerðar þannig að fólk þurfi ekki að tortryggja þær og eyða löngum tíma að leita sér upplýsinga til að sjá í gegnum lygar og kjaftæði eins og svo margir einstaklingar eru tilbúnir að láta hanka sig á og þar með rústa mannorði sínu.
Fjölmiðlar eiga að vera fjórða valdið í þjóðfélaginu, upplýsandi og traustsins verðir en ekki málgagn þeirra sem ljúga, stela, svíkja og pretta.
Þá kemur til afskipta fimmta valdsins sem erum ég og þú og þú þarft að fara að vakna og sjá það sem er í gangi.