Ísland er (ekki) land þitt
Ísland er ekki land þitt, og ávallt þú gleymir
Ísland ei í huga þér, hvar sem þú ferð.
Ísland er landið sem ungan þig skelfir,
Ísland í myrkranna hulu þú sérð,
Ísland í auðmanna svartasta skrúði,
Ísland sem útrásarvíkinga griðarstað.
Ísland að bankanna afrekum hlúði,
Íslenskt er holdið, sem allt frá þér stal.
Íslensk er assan sem arfinn þinn gleypir
Íslensk er tunga hennar, ekkert nema bull.
Íslensk er sú ókind, græðgi um æðar þess streymir.
Íslenskt er vonleysið, af svartsýni fullt.
Íslensk er vornóttin, almúginn enn magur,
Íslensk er lundin með sína villimennsku og hor.
Íslensk er skvísan, hennar er einn hagur.
Íslensk er hyglin á flokkanna frelsi.
Ísland er ekki land þitt, því aldrei skalt reyna
Íslandi helgar þú krafta og starf
Íslenska flón, þér er ætlað að gleyma
íslenska krónu, hinn verðlausa arf.
Ísland sé rústað um aldanna raðir,
íslenska holdið, er lífinu af þér stal.
Ísland sé falið þeim, svikurum ríkum.
Ísland sé nauðugt, meðan græðgi gleypir allt.
Svona er eflaust hægt að lýsa því lífi sem ég og margir aðrir hafa upplifað í gegnum árin. Ég ákvað að taka þennan gamla og góða texta, sem mér fannst ekki lengur lýsa minni upplifun á Íslandi, og breyta honum í þann búning sem mér persónulega finnst lýsa ástandinu á Íslandi fullkomlega.
Ég er ekki vön að tjá mig opinberlega eða gagnrýna opinskátt svo allir sjái eða heyri, en þar sem ég sé ekkert frá ungum öryrkjum í opinberri umræðu þá fannst mér kominn tími til að segja eitthvað.
Ég er sumsé 26 ára gamall öryrki.
Ég heiti Karen Dögg Gunnarsdóttir og allt frá unga aldri hef ég glímt við kvíða, þunglyndi og áfallastreituröskun sem skýtur einstaka sinnum upp sínu ljóta höfði og hrellir mig í dagsdaglegu lífi. Ég get fullvissað fólk um það að vera öryrki er ekki eitthvað sem ég mæli með að fólk sækist eftir ef það getur mögulega komist hjá því. Það er bara staðreynd.
Ég er öryrki vegna andlegra veikinda sem ég nefndi hér fyrr, en vandamálið er að ég fæ enga aðstoð hér á Íslandi. Ég er fædd og uppalin hér en eftir miklar og erfiðar vangaveltur flutti ég
ásamt kærastanum mínum, Jack Hrafnkeli Daníelssyni, til Svíþjóðar í pínuponsu sveitaþorp og líkaði mjög vel. Það var ekki auðvelt og að sjálfsögðu eltu skuldir og skemmtilegheit okkur út til Svíaríkis.
Ég átti mjög erfitt með þessar breytingar andlega eftir því sem tíminn leið enda skildi ég það eina sem hélt og heldur mér enn gangandi eftir á Íslandi. Hestana mína.
(Það er ódýrara að vera með hesta sem lyfta andlegu hliðinni upp á hverjum einasta degi heldur en að fá 4x sálfræðitíma í mánuði… Spáið aðeins í því!) Ég ákvað því að flytja aftur til Íslands til að vera nær þeim og reyna að klóra mig áfram í skóla, en ég komst að því fyrir stuttu að það er bara ekki að virka fyrir mig. Ekki vegna þess að ég vilji það ekki eða geti það ekki, heldur vegna þess að Ísland hefur ekki góð áhrif á mig.
(Geð)Heilbrigðiskerfið er í molum eins og svo oft er talað um. Fólk þarf að vinna eins og skepnur til að ná endum saman í 2-3 störfum og ekkert er gert í þessum málum.
Það er gríðarlegt álag á ungu fólki í dag til að ná sömu markmiðum og fólk var að ná fyrir 40 árum síðan, t.d. með húsnæðiskaupum. Húsnæðiskaup á Íslandi er ekkert annað en gildra. Fólk eignast aldrei þá eign sem það kaupir.
Ungt fólk sem er að glíma við andleg veikindi eins og þunglyndi og kvíða fær hvergi aðhald, það er hvergi gripið þegar það fellur og mín reynsla er sú að læknar eru allt of duglegir að skrifa upp á lyf í stað þess að reyna að finna rót vandans með talmeðferð.
Tja, það er kannski ekki læknum að kenna, en hvað er annað hægt að gera þegar venjulegt fólk hefur ekki efni á tíma hjá sálfræðingi sem kostar orðið 15.000kr. fyrir hvern 45 mínútna tíma???
Ekkert við þetta er hægt að telja eðlilegt. Ekkert!
Ég fékk að kynnast því sjálf nú í sumar, 2018, þegar ég komst loksins að hjá sálfræðingi á heilsugæslunni heima í Svíþjóð, hvað talmeðferð er gríðarlega mikilvæg og áhrifarík.
Ég komst þó ekki í nema 7 tíma hjá þessum yndislega sálfræðingi, en eftir þessa sjö tíma, 45 mínútur í senn, var ég gjörbreytt manneskja. Það gerði gríðarlega mikið fyrir mig eftir að hafa upplifað vonleysi og vanlíðan frá því ég man eftir mér.
Ég var allt önnur manneskja í sumar, full af gleði og björtum vonum. Svo ákvað ég að koma aftur til Íslands…
Það voru mistök!
Það að greiðsluþátttökukerfið skuli ekki niðurgreiða sálfræðiaðstoð er út í hött og ofar mínum skilningi.
Hvernig er hægt að ætlast til þess að manneskja geti fúnkerað ef andlega hliðin er ekki í góðu standi?
Myndi fólk reyna að keyra bíl án mótors?
Hvað er andlega hliðin annað er grunnurinn að öllu því sem við gerum?
Við gerum ekkert án þess að hafa andlegu hliðina og kollinn í lagi.
Hvers vegna er það ekki eins sjálfsagt að fólk geti fengið að hlúa að andlegu hliðinni án þess að þurfa að vinna frá sér alla heilsu, líkamlega og andlega?
Fátækt og vanlíðan haldast í hendur.
Og ungt fólk er sérstaklega viðkvæmt fyrir þessu kombói.
Ég vil ekkert annað sjálf en að geta átt nóg ofan í sjálfa mig, greitt niður allar þær skuldir sem hafa hrannast á mig og geta lagt til hliðar hver mánaðarmót. En umfram allt vil ég geta lifað góðu lífi, hamingjusöm og laus við óþarfa áhyggjur.
Er það of mikið að biðja um?
Ég vil enda þetta rant mitt með því að þakka bæði núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnum Íslands fyrir að hafa neytt mig til að flýja Íslands og kynnast því hvernig siðmenntað land virkar.
Ef það hefði ekki verið fyrir þessar aðgerðir (…) ríkisstjórna Íslands hefði ég aldrei fengið að upplifa góða heilbrigðisþjónustu sem greip mig þegar ég nauðsynlega þurfti á því að halda.
Ég hefði ekki heldur fengið að sjá það að matvörur og nauðsynjavörur þurfa ekki að vera á himinháu verði til að vera góð gæði og að ég á raunverulegan möguleika á því að eignast hús í framtíðinni þar sem húsnæðismarkaðurinn í Svíþjóð er raunhæfur.
Í fyrsta skipti sé ég loksins fyrir mér bjarta og góða framtíð þar sem ég get komist yfir mín veikindi í kerfi sem vill vinna með mér og sér mig sem hluta af lausninni en ekki sem blóðsugu á kerfinu sem á ekkert gott skilið.
Takk Kata Jakobs, Bjarni Ben og allir hinir sem eigið hlut að máli, ef þið, og hinir sem á undan ykkur réðuð ríkjum á Íslandi, hefðuð ekki haldið Íslandi í þessari fátækt þá hefði ég aldrei tekið þetta skref að flytja til Svíþjóðar og kynnast raunverulegum mannréttindum og manngæsku sem þar er.
Að sjálfsögðu er Svíþjóð ekki fullkomið, langt því frá, en þar á ég heima og þangað mun ég flytja aftur áður en langt um líður.
Ísland best í heimi!
(Not)
1 thought on “Er Ísland landið mitt?”
Comments are closed.