Ert þú með gamla tölvu sem keyrir enn á windows XP stýrikerfinu?
Þú veist væntanlega að þann áttunda apríl hættir Microsoft öllum uppfærslum og stuðningi við stýrikerfið þannig að með hverjum deginum sem líður frá þeim áttunda eykst hættan á því að óprúttnir aðilar geti brotist inn í tölvuna hjá þér og sótt þangað persónulegar upplýsingar sem þú geymir þar, s.s. lykilorðin þín, bankaupplýsingar og fleiri viðkvæm gögn auk þess að geta sýkt tölvuna þína af vírusum og óværum sem geta eyðilagt gögn sem þú átt sem og sýkt og skemmt vélbúnað.
Vírusvarnir og annar hugbúnaður hættir að sama skapi að virka eðlilega þegar öryggisholur í stýrikerfinu opnast þar sem hætt verður að laga þær. Þar með verður Windows XP í raun smátt og smátt óstarfhæft, tölvan hægir á sér uns hún hreinlega neitar að gera nokkurn hlut sem þú biður hana um.
Þarf ég þá að endurnýja tölvuna?
Nei alls ekki.
Þú ættir að geta notað tölvuna þína í nokkru ár í viðbót með góðum árangri þó svo hún ráði ekki við nýjustu stýrikerfin frá Microsoft eins og Windows 7 eða 8.
Í dag eru nefnilega til notendavæn stýrikerfi sem auðvelt er að setja upp á gamla XP hauginn og eru hvorki flókinn að vinna með eða læra á og Linux Mint er eitt þeirra.
Það tekur alltaf tíma að læra nýja hluti en ef fólk gefur sér einn til tvo daga að venjast kerfinu, læra á það og tileinka sér það.
Linux Mint er auðvelt í uppsetningu, kostar ekkert, er hraðvirkt á gamla tölvuhagunum og er auðvelt að læra á.
Mjög margir halda því fram þegar Linux ber á á góma að það sé bara fyrir nörda og forritara af því það sé svo flókið.
Þetta er mýta og kjaftæði runnið frá rótum fólks sem aldrei hefur kynnt sér Linux stýrikerfin og þaðan af síður notað þau.
Ef þú hefur ekki þolinmæði, vilja eða áhuga á að tileinka þér nýjungar, slepptu því þá að fá þér tölvu þegar XP er dautt því þú getur heldur ekki tileinkað þér breytingarnar úr XP yfir í 7 eða 8 með þannig hugarfari.
Hverjir nota Linux?
Oft er talað um að það séu bara nördar og forritarar sem noti linux stýrikerfin en það er alrangt. Margir almennir tölvunotendur sem hafa lítið sem ekkert vit á tölvum eða stýrikerfum nota Linux alla daga.
Sem dæmi má nefna einstaæða móður í Breiðholtinu sem notar gamla tölvu daglega við allt sem hún þarfnast eins og að fara á netið, skrifa ritgerðir, senda tölvupóst, skoða myndir og síðast en ekki síst, horfir hún á myndbönd í sjónvarpinu sínu. Hún er meira að segja með heimilisbókhaldið á gamla tölvuhugnum sem krassaði endanlega á Windows XP fyrir rétt tæpu ári síðan en hefur keyrt eins og berserkur á Linux Mint nú í að verða 11 mánuði án þess að hiksta eða slá feilpúst.
Annað dæmi er maður um sextugt sem á 6 ára gamla fartölvu sem gaf upp öndina fyrir sex mánuðum en sú keyrði á Windows Vista en brunar nú áfram á Linux Mint á talsvert meiri hraða en hún gaf áður á Vista kerfinu og eigandinn er ekkert að skafa utan af ánægju sinni með árangurinn. Sagði reyndar að það hefði tekið hann nokkra daga að ná tökum á nýja stýrikerfinu en þó ekkert í líkingu við konuna hans sem keypti sér nýja tölvu um svipað leiti með Windows 8 sem hún á enn í mesta basli með og gefst oft upp á að nota. Hún er alvarlega að spá í að skipta hreinlega yfir í Linux Mint þegar hún sér sinn mann vera að vinna á sína gömlu fartölvu.
Undirritaður hefur nú eingögnu notað Linux stýrikerfi í fimm ár og unnusta mín í á þriðja ár.
Engin tölva á heimilinu er með öðrum stýrikerfum en Linux og heldur ekki þörf á því.
Þau kerfi sem keyra hér á bæ eru Ubuntu 13.10, Ubuntu Studio 13.10, Debian 7,4 og Linux Mint 16 Xfce.
Auk þess er netþjónn sem keyrir Unix kerfi sem heitir Free BSD en verður skipt út einhverntíma á árinu fyrir Debian.
Af hverju ætti ég að skipta yfir í Linux?
Rökin eru einföld.
1. Gamla tölvan ræður sennilega illa eða ekki við Windows 7 eða 8.
2. Linux er ókeypis og 99% af þeim forritum sem eru í boði eru það líka.
3. Þú ert ekkert lengur að læra á helstu fídusa og forrit heldur en á Windows 7 eða 8.
4. Þú þarft ekki að kaupa eða stela þér forritum dýrum dómum til að geta unnið einfalda skjalavinnu.
5. Þú þarft ekki rándýr forrit til einfaldrar eða flókinnar myndvinnslu. Þau eru ókeypis.
6. Þú þarft ekki rándýrar vírusavarnir sem hægja á tölvunni og vinnslugetunni því vírusar eru nánast óþekkt fyrirbæri í Linux.
7. Þú getur sett upp og tekið út forrit með einföldum hætti án þess að vera sífellt að endurræsa tölvuna.
8. Þú getur með einföldum hætti exportað skjölum úr ritvinnslu og töflureikni sem PDF skjöl til sendinga, birtingar á vefnum eða útprentunar.
9. Prentarauppsetning er einföld og þægileg þar sem þú einfaldlega setur prentarann í samband, addar nýjum prentara og fylgir síðan þeim upplýsingum sem birtast á skjánum um tegundarheiti, týpu og númer. Eftir það er uppsetningnin sjálfvirk og prentarinn orðinn virkur með það sama.
10. Þú ert einfaldlega mikið betur settur með Léttara stýrikerfi sem gerir allt það sem XP gerði áður plús mikið meira og hraðvirkara.
Ég kann ekkert á tölvur, hvar fæ ég hjálp?
Laugardaginn 5. Apríl ætla FSFÍ og Píratar að kynna fyrir fólki stýrikerfið Linux Mint, leyfa því að prófa kerfið og aðstoða þá sem eru nú þegar að nota Windows XP á tölvum sínum að setja upp Linux Mint á tölvurnar ásamt því að vera með létta yfirferð og kennslu á kerfið.
Viðburðurinn er auglýstur á Fcebook en hann hefst kl 15:00 á Múltí Kúltí að Barónstíg 3 og stendur til klukkan 21:00 um kvöldið en milli 10 og 15 manns munu sjá um aðstoð við kynningu og uppsetningu.
Eftirfylgni við þá sem kjósa að setja upp Linux Mint og reyndar alla sem hafa áhuga á að kynna sér Linux verður haldið áfram á Facebookgrúbbunni „Íslenski Linuxvefurinn“ og þar verður einnig fróðleikur og persónuleg aðstoð við þá sem það kjósa. Einfaldast er að leggja inn fyrirspurnir og fá hjálp þar frá samfélaginu.
Nú er bara að deila þessum pistli og vona að sem flestir sjái sér fært að mæta á morgunn og kynni sér það sem er í boði því það er ekki slæmt að geta sparað sér einhverja tugi eða hundrað þúsund kalla með því að nota gömlu tölvuna í nokkur ár í viðbót.