Þegar fólk er farið að neita sér um læknisþjónustu þar sem hún kostar of mikið þá þarf að skoða nokkra hluti í samhengi.
Krstján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir í frétt á Rúv að horfa verði á stöðu heilbrigðiskerfisins eins og það var á árinu 2013. „Þar sem við erum með þetta eins og vél sem var hætt að ganga. Við erum að koma því aftur á fætur aftur, meðal annars með auknu fjárframlagi sem er að koma inn í þessa grunnþjónustu sem lítur að læknisþjónustunni, heilbrigðisþjónustunni allri á sviði sjúkrahúsa, heilbrigðisstofnana og öldrunarþjónustu.“
Einnig segir Kristján að á sumum sviðum sé greiðsluþátttaka sjúklinga í heilbrigðiskerfinu of mikil. „Við vorum með fréttir af því að fólk í krabbameinsmeðferð í göngudeildarþjónustu voru að greiða mörg hundruð þúsund krónur, allt upp í milljón, í þjónustu á meðan aðrir sem voru lagðir inn á sjúkrahús greiddu ekki krónu. Þetta er algjörlega ólíðandi mismunun á milli sjúklingahópa og við erum að vinna það eins og ég segi að reyna að jafna stöðu fólks að þessu leytinu til.“
En stoppum nú aðeins við. Það er ekki bara nóg að horfa á þann kostnað sem sjúklingar þurfa að bera þegar farið er til læknis eða lagst inn á sjúkrahús.
Enginn velur það að leggjast inn á sjúkrahús vegna sjúkdóma eða veikinda og það er ekki eins og það sé eitthvert val hjá fólki hvort það veikist eða fær sjúkdóma sem þarfnast kanski langrar og dýrrar meðferðar.
Nei langt í frá og það þarf að skoða alla þætti þess sem er þess valdandi að fólk leitar sér ekki lækninga fyrr en allt er komið í óefni en einn stæðsti þátturinn í því er undirliggjandi fátækt í landinu.
Helbrigðisráðherra getur ekki bara komið og blastað fram að þetta sé allt heilbrigðiskerfinu að kenna því þetta er líka félagslega kerfinu að kenna, alþingi og stjórnvöldum sem tóku hér við eftir að eitt allsherjar hrun varð hér í landinu með þeim skelfilegu afleiðingum að lífeyrisþegar þurftu að taka á sig skerðingar á kjörum sínum sem aldrei hafa sést áður. Meira að segja á hinum norðurlöndunum er rætt um hvað kjör öryrkja hér á landi séu mörgum sinnum verri heldur en þekkist þar. Sem dæmi má nefna að á hinum norðurlöndunum er félagslegt íbúðarkerfi sem er geysilega öflugt og leiga ódýr en að auki fá þeir sem leigja hjá því kerfi húsaleigubætur að auki sem eru margfallt hærri heldur en hér á landi.
Þegar kemur að læknisþjónustu á hinum norðurlöndunum sér maður fljótt muninn þar og hér, því hér þarf fólk að borga formúur fyrir komu á heilsugæslu og lyfin eru rándýr eftir að nýja greiðslukerfið var sett á.
Þurfi fólk að leggjast inn á sjúkrahús kostar það hálfa lifur, eitt nýra og sennilega miltað líka.
Sé um langtímameðferðir að ræða eins og krabbameinsmeðferð, þá kostar það fólk hundruði þúsunda sem það þarf að borga úr eigin vasa.
Á hinum norðurlöndunum er öll almenn læknisþjónusta ókeypis, lyfjaverði stillt í hóf og þú borgar ekkert fyrir að leggjast inn á sjúkrahús.
Langtímameðferðir eins og krabbameinsmeðferðir eru ókeypis og það sem meira er, að þeir sem þurfa um langan veg að fara eru keyrðir á milli sér að kostnaðarlausu.
Gott og vel. Þar höfum við það en það er meira á bak við heldur en hæstvirtur heilbrigðisráðherra telur upp.
Kjör öryrkja á íslandi eru með þeim allra verstu í norður evrópu um þessar mundir og þegar fólk fær það lágar bætur frá hinu opinbera að það rétt ræður við að borga leigu og nauðsinleg útgjöld þá situr heilsan á hakanum. Ég tala nú ekki um þegar fólk á ekki fyrir mat síðustu 10 dagana í hverjum mánuði eða meira jafnvel.
Það er fjöldi fólks sem á hverjum degi sækir sér mat í gámana fyrir utan stórmarkaðina út um allt land. Matur sem er hent þar sem hann er kominn fram yfir síðasta sölu eða neysludag.
Það er ekki nóg að benda bara á heilbrigðiskerfið á íslandi, það eru svo margir aðrir samverkandi þættir þarna til staðar og er í raun nóg að nefna þá skammarlegu launastefnu sem er í gangi í landinu.
Það að lágmarkslaun fyrir fulla vinnu skuli ekki gera meira en rétt slefa yfir 200 þúsund á mánuði er ekki bara skammarlegt heldur hreint út sagt niðurlægjandi.
Þökk sé Samtökum Atvinnulífsins, Vinnuveitendum en þó fyrst og fremst ASÍ og forseta þess fyrir dugleysið, aumingjaskapinn og ræfillsháttinn sem hann sýnir sínum umbjóðendum. Viðbjóður er orð sem kemur æði oft upp í hugann þegar Gylfi Arnbjörnsson er nefndur og hæfir það vel.
Nei nóg komið.
Það þarf að taka hér ærlega til hendinni og bæta kjör almennings í þessu landi áður en hægt verður að kenna heilbrigðiskerfinu einu og sér um þó vissulega sé það komið að fótum fram.
Það er verkefni þingmanna og ráðherra að sjá til þess að almenningur í landinu geti lifað mannsæmandi lífi og haft efni á því að sækja sér heilbrigðisþjónustu án þess að þurfa að setja sig í gjaldþrot.
Því miður hafa þingmenn og ráðherrar ekki staðið sig í sínu starfi og því þarf að snúa við. Þeim var treyst fyrir því að passa upp á að við gætum lifað í þessu landi án þess að þurfa að betla okkur til viðurværis en þeir hafa brugðist okkur. Svikið okkur væri nærri lagi að segja.
Ef við, almenningur í landinu, ætlum að fá kjör okkar leiðrétt og bætt, þá þurfum við að gera þá kröfu á þingmenn og ráðherra að þeir fari að vinna sína vinnu og bera ábyrgð á því sem þeir gera í sínu starfi.
Þeir þurfa líka að fara að sýna heiðarleika í starfi og hætta þessum gengdarlausu lygum og þvættingi sem þeir hafa margir hverjir stundað árum saman og fólk á að gera þá kröfu á sína þingmenn og ráðherra að þeir sýni þann heiðarleika og hafi manndóm í sér til að segja sannleikann í stað þess að fela sig sífellt bak við lygar og ósannindi.
Það er kominn tími til að láta þingmenn og ráðherra fara að vinna fyrir kaupinu sínu því það er jú þjóðin sem með sköttum sínum, gjöldum og álögum greiðir þingmönnum launin.
Eða hvað?