Trygginastofnun stelur af þeim sem minnst mega sín

Alþingi ber ábyrgð á stjórnarskrárbrotum ráðherra.

Alþingi ber ábyrgð á stjórnarskrárbrotum ráðherra.

Samkvæmt Stjórnarskrá íslenska lýðveldisins er eignaréttur fólks friðhelgur.  Það má ekki taka eignir af fólki nema almannaþörf krefjist þess og komi þá fullt verð fyrir.

72. gr. [Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.
 Með lögum má takmarka rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi.]1)

Nú er einnig í þessari sömu stjórnarskrá grein þar sem segir að öllum skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku eða elli og skal öllum tryggður réttur til almennrar menntunar og fræðslu, sjá 76. grein.

76. gr. [Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.
 Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi.
 Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.]1)

Hér á íslandi tíðkast það meðal stjórnarherrana að láta sig lítt varða um hvort þessi grunnlög lýðveldisins séu brotin og hefur það ítrekað komið fyrir að svo hafi gerst án þess að ráðherrar þurfi að axla ábyrgð gerða sinna en það er á ábyrgð alþingis að sjá um að ráðherrar skil gjörða sinni, axli ábyrgð og sé refsað brjóti þeir grunngildi stjórnarskrár.
því miður hefur alþingi ekki staðið undir þeirri ábyrgð sem því er falið og er það þungur dómur á alla starfandi alþingismenn.

Tryggingastofnun stelur.

Í fréttum Rúv þann 25. mars var eftirfarandi frétt:

Endar ná ekki saman hjá þroskahömluðum íbúa á sambýli eftir að örorkubætur hans voru skertar um 18 prósent frá því í fyrra. Fleiri á sambýlinu urðu fyrir skerðingunni, sem kom öllum á óvart.

Fréttastofa hefur undir höndum greiðsluáætlun Tryggingastofnunar fyrir þetta ár og það síðasta, vegna manns með þroskahömlun sem býr á sambýli í Reykjavík. Í fyrra fékk hann útborgaðar nærri 2,2 milljónir króna í örorkulífeyri og aðrar greiðslur.  Samkvæmt greiðsluáætlun þessa árs fær hann tæpar 1,8 milljónir króna og skerðast bætur hans því um 18 prósent milli ára.

Þessi mikla skerðing kom starfsfólki sambýlisins á óvart. Bætur fleiri íbúa voru skertar í ár. Forstöðuþroskaþjálfi óskaði eftir skýringum hjá Tryggingastofnun. „Þau svör sem ég fékk var að þetta væri ýmist vegna tekna eða eigna og um leið og þú ert kominn yfir fjórar milljónir í hreinni eign þá fara bætur að skerðast,“ segir Guðrún Guðmundsdóttir, forstöðuþroskaþjálfi á sambýlinu Víðihlíð.

Fyrir mörgum árum erfði maðurinn nærri fimm milljónir króna eftir foreldra sína. Guðrún furðar sig á því að bæturnar séu skertar nú vegna eigna. Vextir af bankainnistæðu nái aldrei að vega á móti skerðingunni og því gangi hratt á spariféð. Hún bar saman útgjöld mannsins í þessum mánuði miðað við mars í fyrra. „Bæturnar hafa lækkað um 50.000 krónur miðað við mars í fyrra og mars á þessu ári og til að skoða framan af þessu mánuði, það er ennþá vika eftir af mars – og þá er hann þegar kominn í mínus 6.000 krónur bara eftir að ég var búin að borga reikninga en miðað við mars á síðasta ári þá hefði hann átt í afgang 33 þúsund, þannig að þið sjáið að þetta gengur ekki einu sinni upp.“

Í svari frá Tryggingastofnun kemur fram að heimilt sé að greiða uppbót á lífeyri, en hún fellur niður ef peningainnstæður og verðbréf eru hærri en fjórar milljónir. Reglulegt eftirlit sé með þessum greiðslum og þá geti komið í ljós að fólk eigi ekki rétt á þeim lengur. Guðrún segir að afleiðingarnar séu skýrar. „Það er alveg klárt mál. Endar ná ekki saman.“

Þarna kemur skýrt fram, að fólk sem hefur fengið arf eða á peninga eða verðbréf að andvirði meira en fjórar miljónir er hreinlega féflett.  Það þarf að lifa við það, að eign þeirra, (fjármunum á bankareikningum) er hreinlega stolið fyrir opnum tjöldum af Tryggingastofnun ríkisins með því skerða örorkubætur það mikið að fólk nær ekki endum saman yfir mánuðinn og þarf því að ganga á sparnað sinn.  Sparnað sem er lögbundin eign eins og kemur fram í 72. grein stjórnarskrárinar.

Sama gildir um þá sem fá lífeyri frá lífeyrissjóðum.  Þeirra lífeyri er stolið í hverjum mánuði af Tryggingastofnun blygðunarlaust.  Ábyrgðin er öll hjá þeim ráðherrum sem settu reglur um skerðingarákvæðin í lög um örorku og ellilífeyri en einnig ábyrgð þeirra þingmanna sem samþykktu lögleysuna því þetta er ekkert annað en rakin þjófnaður.  Þjófnaður sem Tryggingastofnun er heimil samkvæmt lögum settum af ráðherrum og samþykkt af þingmönnum sem kusu að brjóta stjóarnarskrárvarinn rétt á eignum fólks.

Þessa svívirðu þarf að stöðva og það ekki seinna en strax og hækka bætur til lífeyrisþega þannig að þeir standist þau viðmið sem gerð hafa verið af ráðuneyti velferðar og síðan þarf að lögfesta lágmarksframfærslu í framhaldinu.
Það er ótækt að horfa upp á það að stöðugt sé svínað á þeim sem minnst mega sín í þessu þjóðfélagi og eignum þeirra kerfisbundið stolið.

Frétt frá 25. mars á Rúv.

 

Umsagnir

Umsagnir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrifa

Updated: 26. mars 2014 — 10:18